Eitt glæsilegasta hús Skerjafjarðar og þótt víðar væri leitað, Reynistaður við Skildinganes, er komið á sölu. Eignamiðlun sér um söluna en að sögn þeirra er um að ræða einstakt einbýlishús á eftirsóttum stað. Brunabótamat hússins er 106.600.000 kr. og fasteignamat er 146.250.000 kr. Óskað er eftir tilboðum.
Þekktasti eigandi hússins er Eggert Claessen bankastjóri og hæstaréttarlögmaður sem eignaðist það 1922 og lét byggja við það árið 1924. Eggert nefndi húsið Reynistað eftir samnefndu stórbýli í Skagafirði þaðan sem hann var ættaður. Húsið samanstendur af hæð sem er um 195 fermetrar, kjallara sem eru 141 fermetrar og risi sem er um 51 fermetrar. Heildarstærð eignarinnar er 387 fermetrar.
Skráð byggingarár Reynistaðar er 1930 en elsti hluti hússins er þó talinn vera frá 1874. Upphaflega var húsið hlaðið úr grásteini en viðbyggingarnar frá 1922 eru steinsteyptar. Þök á viðbyggingunum eru lögð með torfi, og að sögn Eignamiðlunar er nýlega búið að skipta um annað þeirra og setja gúmmídúk undir.
Á hæðinni er forstofa, snyrting, tvær glæsilegar stofur, stór borðstofa, sólstofa, eldhús, svefnherbergi og baðherbergi. Hæðin er sérstaklega glæsileg með mjög stórum stofum með góðri lofthæð og arni. Í risinu eru tvö herbergi og baðherbergi. Í kjallaranum eru tómstundaherbergi, þvottahús og geymslur svo eitthvað sé nefnt. Húsið var töluvert endurnýjað að utan og innan af núverandi eigendum á árunum 2007-2008.








