Um er að ræða feikistórt glæsilegt eikarrúm með fjórum súlum, skreytt mynstruðum spónaplötum með gyllingu. Rúmið var upphaflega í White Heart Inn gistihúsinu í enska bænum Ware.

Margir gátu lúrt samtímis

Jonas Fosbrooke smíðaði beðinn árið 1590 þegar Elísabet I. var og hét. Stærð þess er 3,38 metrar á lengdina og 3,26 metrar á breiddina. Rekkjan er því töluvert stærri en það sem við eigum að venjast í dag enda var rúmið frægt fyrir það meðal annars að fjögur pör gætu hæglega hvílt þar samtímis, eins og þýskur ferðamaður lýsti svo ljóslifandi frá upphafsárum rúmsins. Því stærra sem rúmið var, því meira pláss var fyrir fleiri bólfélaga og fleiri tækifæri gáfust til prakkarastrika. Það hefur þótt eins konar stöðutákn að verja nótt í þessu fræga rúmi enda er rúmstokkurinn og fleiri viðaryfirborð beðsins skreytt nöfnum þeirra sem hafa orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að hvíla í rekkjunni.

Marglaga rúm

Líkt og margir munir frá þessum tíma er rúmið útskorið í endurreisnarstíl. Upphaflega hefur rúmið verið málað í björtum og fallegum litum en það má sjá leifar af litunum víða á nokkuð klúrum fígúrum sem skreyta höfðagaflinn. Mynstruðu spónaplöturnar voru líklega verk þýskra handverksmanna sem störfuðu í London í lok tímabilsins. Neðsta lagið í rúminu er ofin bastmotta. Næst koma þrjár þunnar dýnur, sú harðasta neðst og mýksta efst. Ullarlagður neðst, fjaðrir í miðjunni og mjúkur dúnn efst. Ofan á dýununum var bleikt taulak. Sumir ferðalangarnir höfðu með sér sitt eigið lak. Ullarteppi og lúxus vatteraðar silkiábreiður héldu hita á næturgestum. Ofið og glæsilegt ullarrúmteppi huldi svo herlegheitin. Til þess að koma í veg fyrir að öll þessi lög færu úr skorðum voru sérstakir rúmstólpar úr eik skorðaðir á milli dýnanna og rúmstokksins. Stólparnir nýttust einnig til þess að hemja ýmsar beyglur og ójöfnur sem gátu myndast í öllum þessum lögum. Hengitjöldin voru ofin úr ull til að veita hita og næði. Upphaflegu tjöldin sem prýddu rúmið eru löngu glötuð og hengitjöldin sem prýða rúmið í dag eru eftirlíkingar af textíl frá 17. öld.

Á einhverjum tímapunkti var haldið að rúmið hefði upphaflega verið smíðað fyrir hefðarfjölskyldu í nágrenni Ware en þó bendir flest í stíl rekkjunnar til þess að hún hafi verið smíðuð fyrst og fremst til notkunar á gistiheimilum, og þá ósjaldan fyrir unaðslega rekkjuleiki. Árið 1765 var því lýst að 26 slátrarar og konur þeirra hefðu legið í rúminu yfir nótt vegna veðmáls. Rúmumgjörðin er úr eik, en allra fínustu rúmin voru úr hnotu sem var sjaldgæfari viður en eikin.

Margir eigendur

Á notkunartíma rúmsins stóð það í alls fimm gistihúsum, The White Hart, The George, The Crown, The Bull og Saracen’s Head. Árið 1870 eignaðist William Henry Teale, eigandi Rye House, rúmið og kom fyrir í skemmtigarði sínum. Þegar áhugi á garðinum dvínaði upp úr 1920 var rúmið selt. Árið 1931 eignaðist Victoria and Albert Museum í London rekkjuna sögufrægu, en frægt er að safnið hafnaði tækifæri til þess að eignast rúmið árið 1865 sökum þess að rúmið þótti vera grófur og illa farinn gripur sem þótti ekki sæma safneigninni, hvorki útlitslega né sögulega.

Umtalaður beddi

Ware-safnið fékk rúmið að láni frá Victoria and Albert Museum og hefur það verið þar til sýnis frá apríl 2012. Fjölmargir rithöfundar hafa minnst á rúmið í ritum sínum og má þar meðal annars nefna Twelfth Night (um 1601) eftir William Shakespeare. Þá er minnst á rúmið í Epicoene: or The Silent Woman eftir Ben Jonson, Nightwood eftir Djuna Barnes, The Holly Tree eftir Charles Dickens og í No Good Duke Goes Unpunished eftir Sarah MacLean.