Heitasti stuðnings­maður ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta í Bangla­dess, há­skóla­neminn Mohammad Sayeed er á leiðinni til Ís­lands í októ­ber næst­komandi en þetta varð ljóst í dag. Hilmar Jökull Stefáns­son, stjórnar­maður í Tólfunni greindi frá þessu á Face­book síðu sinni í dag. Þar birti hann jafn­framt mynd­band af því þegar hann greindi Sayeed frá fregnunum en það má sjá hér að neðan.

Sayeed hefur fyrir löngu vakið gífur­lega at­hygli á sam­fé­lags­miðlum fyrir eld­heitan stuðning sinn við lands­lið Ís­lands en þann 11. júní síðast­liðinn birti hann risa­stóran ís­lenskan fána í mynd­bandi á Twitter.

Allt kom fyrir ekki því eins og Hilmar greinir frá hefur söfnunin tekist, með að­stoð Dohop, Kristjáns Zop­honías­sonar og fjöl­margra Ís­lendinga sem lögðu inná safnaðar­reikninginn sem settur var upp til að safna handa Sayeed.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segist Sayeed vera himin­lifandi með söfnunina og afar þakk­látur að­stoð Tólfunnar og Ís­lendinga við að koma sér og risa­stóra fánanum til Ís­lands. Hann mun koma til með að dvelja hér á landi 7. - 14. októ­ber næst­komandi og mæta á lands­leik Ís­lands og Frakk­lands í Laugar­dalnum 10. októ­ber.

„Ég er svo ó­trú­lega hamingju­samur. Ég bjó til þetta risa­stóra flagg og það vakti svona mikla at­hygli. Ég trúi því varla að það sé á leið til Ís­lands og að Ís­lendingar muni fá að sjá það í eigin per­sónu,“ segir Sayeed. Hann segist hafa hrifist af spilamennsku íslenska liðsins það hafi heillað.

„Ís­lendingar hafa verið svo inni­lega al­menni­legir við mig og mikið rosa­lega er þetta fal­legt. Ég elska ís­lenskan fót­bolta, elska ís­lenska liðið og er mikill að­dáandi Gylfa Sigurðs­sonar. Það væri gaman að fá að hitta hann,“ segir Sayeed sem er inni­lega spenntur fyrir því að flagga fánanum risa­stóra á Laugar­dals­vellinum.