Hinar átta ára gömlu vinkonur, Elín Helga Arnardóttir, Bára Dís Reynisdóttir og Unnur Freyja Kristinsdóttir söfnuðu á mánudaginn síðastliðinn rúmum 44 þúsund krónum til styrktar hjálparstarfs í Úkraínu.

Lilja Ingimarsdóttir, móðir Elínar Helgu, segir vinkonurnar hafa útbúið heimagerð armbönd til að selja í hverfinu sínu í Hafnarfirði. Það hafi gengið mjög vel og að fólk hafi tekið vel á móti þeim stöllum.

Að sögn Lilju afhenti einn íbúinn þeim vinkonum dósir og í kjölfarið hafi þær ákveðið að safna enn fleiri dósum til viðbótar við söluna á armböndunum.

Stúlkurnar fóru út um sexleytið á mánudaginn og komu ekki heim fyrr en upp úr níu um kvöldið og voru að sögn Lilju ótrúlega ánægðar með kvöldverkið.

Í gær afhentu þær Elín Helga, Bára Dís og Unnur Freyja Rauða krossinum afrakstur söfnunarinnar og fengu að launum viðurkenningarskjal.

Lilja segir vinkonurnar hafa farið rosalegar sáttar út frá Rauða krossinum með viðurkenningarskjalið í gær.

Stelpurnar voru að vonum ánægðar með viðurkenningarskjalið frá Rauða krossinum.
Fréttablaðið/Aðsend mynd