Tumi Björnsson, Eyþór Gunnlaugsson, Mio Storåsen og Andri Marinó Karlsson hafa verið að búa til grínsketsa á Facebook undir nafninu Kaupa Dót. Eftir helgi kemur út nýr skets þar sem Steindi Jr. og Joey Christ leika aðalhlutverk. Eyþór og Tumi þáðu að koma í viðtal við blaðamann og segja frá því sem þeir hafa verið að gera. Strákarnir vilja hvetja alla landsmenn til að stofna Facebook-síðu til þess að geta séð sketsana þeirra. „Við búum til hressa og fyndna sketsa undir formerkjunum Kaupa dót, sketsarnir eru kjörnir til að horfa á þegar maður fer á salernið og veit ekki alveg hvað maður á að gera við sjálfan sig.“

Strákarnir segjast ekki hafa tíma til að hitta vini sína. MYND/Andri Marinó

Að eigin sögn kynntust strákarnir í hópuppsagnarpartíi nýuppsagðra starfsmanna Námsgagnastofnunar. „Þetta er svo merkilegt. Við unnum allir þarna við að semja námsefni fyrir börn en höfðum aldrei talað hver við annan. Í partíinu voru allir á „bömmer“ og það var haft vín um hönd sem er nú þekkt fyrir að losa aðeins um málbeinið,“ segir Tumi. „Við hittumst í stofu gestgjafans þar sem myndast hafði lítið dansgólf. Þar mættumst við á miðju gólfinu, Tumi, Eyþór, Mio og Andri.“ Strákarnir reyndu þá að spjalla saman en tónlistin var of hávær.

Hvolfdi snakkskál yfir húsvörðinn

Tumi tók sér það bessaleyfi að lækka í tónlistinni, öllum nýuppsögðu partígestunum til mikils ama. „Það má eiginlega segja að fólk hafi trompast,“ segir Eyþór. „Tumi fékk glas í höfuðið frá húsverðinum sem hafði verið sagt upp, partígestir urðu pirraðir og sögðu Tuma að drulla sér út.“

Eyþór hvetur ungt fólk til að fara í framhaldsskóla. MYND/Andri Marinó

Tumi segir að þá hafi Eyþór orðið reiður og ákveðið að stoppa húsvörðinn áður en átökin yrðu alvarlegri. „Eyþór hvolfdi snakkskál yfir skallann á húsverðinum og sagði honum að svona geri maður ekki við annað fólk. Húsvörðurinn róaðist þá aðeins niður en restin af partígestunum rak okkur strákana út á svalir. Við vorum allir mjög spældir yfir öllum þessum apalátum þarna inni. Okkur fannst þau endurspegla samfélagið sem við lifum í. Þess vegna langaði okkur að gera eitthvað sem gæti bætt ástand samfélagsins og hegðun fólks. Þetta tryllta lið sem við höfðum þekkt sem vinnufélaga okkar fyrr um daginn var með lítið jafnaðargeð og við vildum kæta það. Við vildum fá það til að hlæja, hætta að hata og byrja að elska eða eitthvað í þá áttina.“ Þá segir Tumi að það hafi verið deginum ljósara hvað þurfti að gera. Strákarnir þyrftu að búa til myndbönd fyrir Facebook þar sem hann vill meina „að þjóðin haldi sig á kvöldin.“

Tuma og Eyþóri er annt um kjaramál leikskólakennara. MYND/Andri Marinó

Við fyrirspurn blaðamanns til forstjóra Námsgagnastofnunar, Arnórs Guðmundssonar, um starf og uppsögn strákanna þar á bæ segir hann þó að enginn kannist við að þeir hafi unnið þar. „Við könnumst líka ekkert við þennan Arnór.“

Allir með stúdentspróf

„Samtals erum við með fjögur stúdentspróf sem verður að teljast frekar gott,“ segir Eyþór. „Við hvetjum unga fólkið til að fara í framhaldsskóla og útskrifast með stúdentspróf. Á tímabili var enginn okkar með stúdentspróf en svo liðu árin og við fengum þau.“

Eyþór og Tumi greina frá því að þeir sofi saman í rúmi. „Við sofum í sama rúmi en þegar annar okkar hrýtur eða er með einhvern hávaða þá er þráðurinn stuttur og við erum fljótir að reka hvor annan á sófann,“ segir Eyþór. Þá segja vinirnir að það sé mikilvægt að þeir geti sýnt hvor öðrum skilning og borið virðingu hvor fyrir þörfum annars til að samneytið gangi smurt fyrir sig. „Við erum líka duglegir að tala saman um stelpur, gæludýr, pólitík, sjónvarpsþætti, stráka og íþróttir.“

Vinirnir eru duglegir að spjalla saman um stelpur, glæudýr, pólitík, sjónvarpsþætti, stráka og íþróttir. MYND/Andri Marinó

Um daginn lentu strákarnir hins vegar í því óhappi að það kom gat á sængina þeirra. Að þeirra sögn hefur þetta óhapp verið truflandi í daglegu lífi og hafa þeir reynt að skrapa saman aura til að kaupa nýja sæng. „Við hvetjum landsmenn til að leggja okkur lið og láta eitthvað af hendi rakna svo við getum sofið betur og mætt til vinnu á skikkanlegum tíma,“ segir Tumi.

Hjálpa íslenskri þjóð að komast á lappir eftir hrunið

Eins og áður sagði hafa strákarnir gaman af því að ræða stjórnmálin. Þeir brenna helst fyrir kjaramálum leikskólakennara og segja að þeir óttist lág laun kennarastéttarinnar. „Ég hef heyrt að leikskólakennarar séu byrjaðir að sprauta sig í fésið með hundaskít, svo slæm eru launin,“ segir Tumi. „Við vorum öll einhvern tíma í leikskóla og eigum öll börn, þannig að við skiljum ekkert af hverju ríkið lætur þetta auðmjúka fólk með hjarta úr gulli lifa við svona bágar aðstæður,“ bætir Eyþór við. „Samfélagsmál brenna á okkar skinni og með því að gera smá gys á netinu finnst okkur við hjálpa samfélaginu að komast á lappir eftir hrunið.“

Að lokum vilja strákarnir koma því á framfæri að þeir neiti að borga húsaleigu og taka þátt í skrípaleiknum sem leigumarkaðurinn er. „Leigumarkaðurinn er brandari sem við föttum ekki,“ segir Tumi. „Við ákváðum snemma á hveitibrauðsdögum Kaupa Dót að við myndum ekki kasta krónu í leigu og eiga frekar meiri pening fyrir okkur og fjölskyldur okkar.“