Á sunnudaginn og mánudaginn verður sýnd heimildarmynd á RÚV í tveimur hlutum sem byggð er á sögum sem kvikmyndin Lof mér að falla er byggð á. 

Heimildarmyndin er íslensk og er í henni kafað er ofan í sögurnar og atburðina á bak við kvikmyndina. Í henni er fylgst með fólki sem lifir í heimi fíknar sem tengist kvikmyndinni sjálfri.

Sævar Guðmundsson fór með leikstjórn myndarinnar og Jóhannes Kr. Kristjánsson með umsjón. Saman sáu þeir um framleiðslu myndarinnar ásamt þeim Júlíusi Kemp og Ingvari Þórðarsson.

Tónlist myndarinnar er framleidd af Unnsteini Manuel Stefánssyni.

Sýnishorn úr myndinni má sjá hér að neðan.

Ekki auðveld mynd að horfa á

Um 45 þúsund manns hafa séð myndina í kvikmyndahúsum hérlendis. Í dómi Fréttablaðsins um myndina kemur fram að myndin sé ekki auðveld mynd.

„Lof mér að falla er ekki auðveld mynd á að horfa enda raunsönn og óvægin lýsing á ömurlegum veruleika ungra fíkla. Hún er í það minnsta 40 mínútum of löng, langdregin sem sagt, hrá, ljót og á köflum nánast leiðinleg. Svolítið eins og dauðastríð fíkla þannig að ekki verður af höfundum myndarinnar tekið að þeim tekst listavel að koma sögunni til skila.

Höfundarnir lögðu mikla vinnu í handritið, leituðu víða fanga og flétta sorgarsögu unglingsstúlkunnar Magneu úr viðtölum við stelpur sem festust í viðjum fíknarinnar, átakanlegum dagbókum konu sem fór í gegnum hreint helvíti á götunni og endaði á því að stytta sér aldur.“

Sjá nánar hér: Bíó­dómur: Skítug tuska framan í smá­borgara