Sumarliði er að kaupa sér pan au chocolat og kaffi í bakaríi í þrettánda hverfi í París, þegar blaðamaður hringir. „Ég er ekki í skólanum í dag og ákvað að heimsækja hverfi sem ég hef ekki farið í áður,“ segir hann. „Ég ætla að skoða Montparnasse-kirkjugarðinn þar sem Jean Paul Sartre og Simone de Beauvoir eru grafin.“

Verkefni í leiklistinni duttu niður

Sumarliði er lærður leikari og útskrifaðist úr meistarámi í leiklistarkennslu árið 2015. Hann hefur starfað við kennslu og leikstjórn við Fjölbrautarskólann við Ármúla í fimm ár, auk þess að sinna rekstri umboðsskrifstofunnar Kraðak áður en heimsfaraldur setti strik í reikninginn.

„Sumarið 2020 var ég búinn að sitja frekar aðgerðalaus, eftir að Covid byrjaði,“ segir Sumarliði. „Verkefni í leiklistinni duttu niður. Ég hafði lítið að gera og mig hafði alltaf langað að læra frönsku, en ég lærði hana í menntaskóla.“ Hann segist hafa opnað tungumálakennslu-smáforritið Duolingo og í framhaldinu hafi boltinn farið að rúlla.

Sumarliði er að kaupa sér pan au chocolat og kaffi í bakaríi í þrettánda hverfi í París, þegar blaðamaður hringir.
Mynd/Aðsend

„Ég var farinn að hlusta á hlaðvörp og lesa fréttir á frönsku. Að lokum sagði ég við manninn minn að mig langaði að læra frönsku í háskólanum.“

Hann skráði sig því í frönskunám við Háskóla Íslands haustið 2020 og sinnti kennslu samhliða því.

„Ég hélt áfram að kenna leiklistaráfangann en við þurftum að skera allt verklegt niður. En það er erfitt að kenna leiklist með tveggja metra fjarlægðarmörk og grímuskyldu,“ segir Sumarliði. Hann segist hafa beint kennslunni í fræðilegri farveg og skólastjórnendur hafi ákveðið að sleppa lokasýningu misserisins. „Ég kenndi þess í stað áfanga í skapandi skrifum.“

Nýtur stuðnings eiginmannsins

Sumarliði segir frönskunámið við Háskóla Íslands hafa verið gríðarlega áhugavert, en hann hafi sóst eftir meiri áskorun. „Mér fannst eins og ég væri aldrei að fara að læra að tala og skilja frönsku ef ég færi ekki að lifa og hrærast í henni. Þó að námið við háskólann sé gott þarf maður að vera í samfélaginu til að þjálfa eyrað.“

Sumarið 2021 giftist Sumarliði Jóni Örvari Gestssyni hjúkrunarfræðingi. Þeir ákváðu að gifta sig við gosstöðvarnar sem vakti athygli heimspressunar, og brúðkaupsmyndirnar rötuðu í marga af stærstu fjölmiðlum heims. Þegar hann stakk síðan upp á því að flytja erlendis eftir fimm mánaða hjónaband mætti hann fullum skilningi eiginmannsins.

„Seint um haustið stakk ég upp á þessu við manninn minn og hann sagðist bara styðja mig í hverju sem er, og hér er ég.“

Tungumálanám spurning um hugarfar

Sumarliði, sem er rúmlega þrítugur, segist vera eldri en hinir skiptinemarnir í hópnum. „Margir halda að maður geti ekki lært tungumál þegar maður er kominn á vissan aldur. Þegar maður eldist hættir maður kannski að nenna að læra ýmsa hluti og maður staðnar. En þetta fer rosalega mikið eftir hugarfarinu.“

Hann segir námið ganga vel. „Mér finnst þetta koma hratt hjá mér hérna úti. En það er mikilvægt að einangra sig ekki og tala bara við fólk sem talar ensku. Frakkar eru frekar íhaldssamir og kynnast síður fólki sem talar ekki frönsku.“

Ferð til sýslumannsins í Kópavogi er draumur við hliðina á kerfinu hérna úti.

Sumarliði segir að mýtan um óvingjarnlega Frakkann endurspegli ekki hans upplifun af landi og þjóð. „Það hefur ekki verið min raun hérna úti, þvert á móti hafa þau verið ekkert nema kurteisin og liðlegheitin. En mýtan um skriffinnskuna er hins vegar ekki bara rétt, heldur margfalt verri en meðal-Íslendingurinn gæti ímyndað sér. Ferð til sýslumannsins í Kópavogi er draumur við hliðina á kerfinu hérna úti,“ segir Sumarliði og hlær.

Aðeins töluð franska á heimilinu

Sumarliði er meðlimur í karlakórnum Bartónum og segir að tengslin þar hafi nýst honum við að finna húsnæði í París. „Varaformaðurinn okkar á frænda hérna í París. Íslensk-enskan leikara sem býr með eiginmanni sínum, frönskum myndlistarmanni. Ég fæ að leigja herbergi hjá þeim og það er bara töluð franska á heimilinu. Leikarinn talar eiginlega ekki íslensku. En í gegnum þá hef ég aðgang að félagsneti, við förum saman í leikhús og matarboð og ég hef líka kynnst frönskum vinum þeirra.“ Hann segir að húsnæðið sé tæknilega séð ekki inni í París, heldur í gamalli verksmiðju sem breytt var í íbúðir í Pantin. „Það er oft kallað Brooklyn-hverfi Parísar, vegna stílsins og fjölmenningarinnar.“

Hjónin Sumarliði og Jón Örvar njóta lífsins á sólríkum degi á svölunum á heimili Sumarliða í París.
Mynd/Aðsend

Sumarliði er líka meðlimur í frönskum hinsegin kór í París sem hittist á sunnudagskvöldum. „Kórinn æfir á Rosa Bonheur barnum í uppáhalds almenningsgarðinum mínum í París, Buttes-Chaumont.“

Þá hefur hann ekki lagt leiklistina alfarið á hilluna, en honum hefur boðist hlutverk í stórri franskri bíómynd.

Áfangi í brúðuleik og kúrs í klaufaskap

Hann segir námið í Sorbonne Nouvelle krefjandi. „Það er búið að vera erfitt að sitja í tímum og láta tala ofan í sig í tvo klukkutíma í senn, aftur og aftur, alla vikuna.“ Hann segist vanari blönduðum kennsluaðferðum. „Það er erfitt að vera með meistaragráðu í kennslufræðum og sitja svo undir mjög gamaldags kennsluaðferð, sem er þetta fyrirlestraform.“ Hann þakkar þó fyrir að geta valið sér kúrsa, þar sem hann er skiptinemi. „Ég er í bókmenntafræði, sögu og menningu og málvísindum. Svo fæ ég líka að taka áfanga af leiklistarbrautinni. Ég fór í áfanga í brúðuleik og í vor fer ég í kúrs sem snýst um að læra klaufaskap á sviði.“

Hlakkar til vorsins

Sumarliði segist mjög ánægður með dvölina í París. „Það er er yndislegt að búa í annari menningu, aftur,“ segir hann og vísar til námsáranna í London og Texas. „Ég sakna mannsins míns samt ógeðslega mikið. Það er stærsta áskorunin. Hann er samt duglegur að heimsækja mig.“

Sumarliði segist hlakka til að sjá Parísarvorið blómstra. „Það er margrómað og á að vera dásamlegt. Þegar kirsuberjablómin fara að birtast og garðar blómstra í öllum regnbogans litum. Þá ætla ég að setjast út í garð með bók og horfa á sólsetrið,“ segir hann.

Sumarliði tekur við Instagram-reikning Háskóla Íslands á fimmtudaginn. Þar segir hann frá náminu og lífi sínu í París. Umsóknarfrestur í skiptinám fyrir Erasmus-nema er 1. febrúar næstkomandi.