Verbúðarþættir Vesturports hafa slegið í gegn á RÚV. Líklega ekki síst vegna þess hvernig nostalgían sem þar svífur yfir landinu og miðunum hefur hitt fjöldann lóðbeint í hjartastað.

Hnitmiðaðar vísanir í raunverulega atburði og uppákomur á níunda og tíunda áratug síðustu aldar hafa þannig vakið athygli og umtal frá fyrsta þætti og í þeim síðasta koma heimagert gos úr SodaStream-tæki einna sterkast inn.

Hlýðnum 80’s börnum brugðið

Þegar útgerðarhjónin Freydís, sem Unnur Ösp Stefánsdóttir leikur, og Einar eignast SodaStream-tæki kemur það í hlut þess síðarnefnda að prufukeyra tækið og eins og kom meðal annars skýrt fram á Twitter, að þættinum loknum, sýndist sitt hverjum um aðfarirnar.

Margir muna enn vel eftir því þegar SodaStream kom fyrst til sögunnar á Íslandi og sló í gegn sem fótanuddtæki væri. Persóna Góa þykir í ljósi minninganna hins vegar bera sig kolrangt að við gosgerðina. Handtökin voru í raun svo vitlaus að netverjum þótti mörgum hverjum nóg um.

„Öll hlýðnu 80’s börnin að horfa á sírópið sett í flöskuna fyrir gosun … Ó, tækið sprakk þá EKKI í loft upp eftir allt saman?“ skrifaði til dæmis einn á Twitter.

Frumkvöðullinn Gummi síróp

„Þetta atriði var útpælt og í raun algjörlega magnað að fólk hafi ekki lesið þessa sterku og mögnuðu senu. Því ég í alvöru gaf allt í þetta,“ segir Gói og hlær þegar hann er spurður hvort þetta hafi allt verið með ráðum gert og eftir handritinu.

Hann tekur fram að senan byggi meira að segja á sannri sögu eins og reyndar fjölmargar uppákomur í Verbúðinni. „Það var maður í Hafnarfirði sem gerði þetta 1987 ef ég man rétt. Hann setti sem sagt sírópið á undan og okkur fannst mjög sterkt að vísa í þessa mögnuðu sögu. Hann var alltaf kallaður Gummi síróp eftir þetta,“ heldur Gói áfram og hlær enn.

„En annað sem okkur fannst líka skipta miklu máli var að þetta var glæný SodaStream-vél og Einar hafði aldrei gert svona áður. Þannig að það er fullkomlega lógískt að hann geri þetta vitlaust.“

Vonandi jafnar þjóðin sig

Þegar talið berst að leikaranum sjálfum og því hvort hann eigi einhverjar SodaStream-minningar sjálfur segist Gói eiga þær nokkrar, enda að slíta barnsskónum á sögutímanum.

„Ég á margar minningar af SodaStream-vélum frá æskuárunum. Heima áttum við SodaStream-vél en vinkona mín og hennar fjölskylda átti SodaStream með glerflöskum, svipaða og Stella í orlofi átti. Ég var alltaf mjög hrifinn af þeirri vél og fannst vatnið verða betra úr glerflöskum en plastinu,“ segir Gói. Hann þurfti þess vegna ekki að hugsa sig tvisvar um þegar hann komst sjálfur á fullorðinsaldur.

„Þess vegna keypti ég þegar ég varð fullorðinn geggjaða SodaStream-vél frá Þýskalandi sem við notum mikið á mínu heimili. Glerflöskuvél, að sjálfsögðu,“ segir Gói og skellir upp úr.

„Það kemur algjörlega geggjað sódavatn úr þessari vél. Eitthvað sem er ólýsanlegt. En ég er ekki sírópsmaður og set aldrei bragðefni í vatnið mitt. En það veit Guð að ef ég myndi gera það, þá myndi ég setja bragðefni í eftir að gosið er komið í vatnið! En svona ef ég má nota tækifærið þá vil ég bara nefna það að ég vona að þjóðin jafni sig á þessu atriði. Það var ekki meiningin að særa neinn.“