„Eftir að krakkar eru búnir í grunnskóla þá tekur eiginlega ekkert við af félagsmiðstöðvum annað en bjórkvöld eða pub quiz, nema maður sé í skipulögðum tómstundum“ segir Sunna Kristinsdóttir einn skipuleggjanda keppninnar. Með henni í skipulagningunni eru Jósef Smári Brynhildarson og Eyvindur Steinmars.

Linda Magnúsdóttir sér um aðstöðuna í Bríetartúni, en hún hafði samband við Sunnu því henni datt í hug að halda viðburði fyrir ungmenni þar sem ekki væri boðið upp á áfengi, og Sunna hefur verið virk í félagsstarfi fyrir ungt fólk. Í kjölfarið fór af stað hugmyndavinna um hverskonar viðburði væri sniðugt að halda. „Það komu upp hugmyndir um að halda tónleika, uppistand og ýmislegt, en að lokum ákváðum við að gera bara allt saman. Fá alla sem vilja koma og gera það sem þeir vilja. Ég er búin að vera á fullu að safna vinningum þannig það verða veglegir vinningar í boði.“

Þá verða veitt verðlaun fyrir flottasta atriðið, frumlegasta atriðið og skemmtilegast atriðið. „Svo finnst mér ekki ólíklegt að allir þátttakendurnir fái allavega eitthvað í verðlaun“ segir Sunna.

Skipuleggjendur keppninnar stefna á að halda áfram með viðburði fyrir ungt fólk sem vill skemmta sér án vímuefna. Það eru enn laus pláss í keppnina, til að skrá sig er best að hafa samband við Sunnu með því að senda tölvupóst á [email protected]