Sandra ítrekar að hún hafi verið að taka þátt í Þrekmótaröðinni, ekki keppa. „Við erum bara ekki í þeirri deild. Við vorum bara að ögra sjálfum okkur og hafa gaman,“ segir Sandra sem dró þrjár stelpur með sér í keppnina. „Við vorum ekki með metnað fyrir neinu sæti en okkur fannst þetta svo skemmtilegt að það er aldrei að vita nema við gerum þetta aftur.“

Sandra æfði fimleika og fótbolta sem barn en þegar hún varð unglingur urðu aðrir hlutir mikilvægari eins og er svo algengt. „Ég byrjaði ekki að æfa að ráði aftur fyrr en ég byrjaði í Bootcamp árið 2012. Ég rambaði inn á hlaupanámskeið þar og hef ekki hætt hjá þeim síðan.“

Fyrst þegar Sandra var að byrja að æfa var hún frekar stressuð því Bootcamp hafði orð á sér fyrir að vera „rosalega hardcore“ eins og hún orðar það. „Ég er bara mjög venjuleg manneskja, ég fer ekki í ræktina sex sinnum í viku eða er með geggjaðan bakgrunn í íþróttum en í Bootcamp var rosalega vel tekið á móti mér. Allir eru bara að gera sitt besta. Vissulega er mikið af ofurfólki að æfa þar en svo eru líka bara venjulegar manneskjur eins og ég.“

Sandra náði nýlega að lyfta 100 kílóum í réttstöðulyftu sem hafði lengi verið markmið hjá henni.

Æfingarnar snúast að miklu leyti um að æfa með líkamsþyngd sína en einnig er mikið um hlaup og þrekæfingar. „Við gerum líka æfingar sem reyna á hugarfarið, að gefast ekki upp og finna kraftinn í að klára. Þú þarft ekki að vera fyrst eða best. Heldur bara klára það sem sett er fyrir. Ef mér tekst það þá líður mér best, ég verð svo ánægð með mig. Ég hugsa kannski fyrst að ég eigi aldrei eftir að geta þetta. En svo fær maður svo mikinn stuðning og hvatningu. Allir hvetja alla, sama hvort þú ert fyrst eða síðust, það er bara stemningin þarna. Ég get komið inn og verið ég sjálf og æft á mínum eigin hraða og ég get oft gert miklu meira en ég held fyrst. Það er mjög gott fyrir sjálfstraustið,“ segir Sandra.

Gott andlega og líkamlega

Í upphafi byrjaði Sandra að æfa með það í huga að léttast og komast í gott form. „En ég er alveg búin að bakka út úr því. Mér finnst bara gaman að fara á æfingu. Það gerir mér ótrúlega gott bæði andlega og líkamlega. Ég vinn á skrifstofu þar sem ég sit mikið svo það að koma blóðinu af stað með hreyfingu veitir mér vellíðan. Það er miklu mikilvægara heldur en einhver kílóatala eða eitthvað ákveðið útlit sem ég var fyrst að sækjast eftir.“

Sandra vildi ögra sjálfri sér og skráði sig til þátttöku í Þrekmótaröðinni ásamt þremur vinkonum sínum.

Undanfarið hefur Sandra verið að æfa lyftingar hjá Bootcamp. „Ég blanda svolítið saman lyftingunum og venjulegu Bootcamp æfingunum. Ég elska að lyfta og er farin að keppast við hve miklu ég næ í þyngdum. Kílóin snúast núna um kílóin á stönginni en ekki kílóin á líkamanum mínum. Ég náði því markmiði í desember að taka 100 kíló í réttstöðulyftu sem ég var búin að stefna að lengi,“ segir Sandra stolt.

Sandra segir að hreyfingin sé orðin lífsstíll hjá henni og hún setur það í forgang að komast á æfingu. „Núna, ef ég fer í frí, þá tek ég æfingu, ég reyni að æfa alltaf þrisvar í viku, tvisvar er algjört lágmark en ef ég kemst fjórum sinnum þá er það bara bónus. Það er betra að gera eitthvað en ekkert og ég hef ekkert endilega tíma til þess að vera alltaf í ræktinni. Vikan er svo ekki lengur ónýt hjá mér þó ég missi úr æfingu, ég mæti bara næst. Lykilatriðið er að hætta ekki þó maður komist stundum ekki í að hreyfa sig.“