Aldraðir í Noregi voru spurðir út í aukna öryggistækni á heimilinu. Kaffivél sem slekkur á sér sjálf eða lætur vita þegar þarf að slökkva á henni, eða sjálfvirkur umönnunaraðili sem lætur vita ef manneskja dettur heima fyrir. Fólk var almennt jákvætt gagnvart upptökuvélum sem sýna einungis skugga með lágri upplausn. Það mun sennilega ekki líða langur tími þar til slík tækni verður fáanleg og mun veita öldruðum mikið öryggi heima. Sumir sem svöruðu í könnuninni vildu jafnvel hafa upptökubúnað á baðherberginu og sögðu að það væri hættulegasti staðurinn, að því er Anne Lund iðjuþjálfi hjá OsloMet segir við forskning.no.

Margir aldraðir eru mjög hræddir við að detta. Þeir eru óöruggir á nóttunni, til dæmis ef þarf að fara á salerni. Öryggishnappar gera mikið gagn, en sumir eru tregir til að ýta á þá þurfi þeir á hjálp að halda. Verkefnið hjá OsloMet hefur leitt til þess að skynjarar hafa verið settir upp á raunverulegum heimilum til reynslu. Aldraðir hafa tekið virkan þátt í rannsókninni og verið afar jákvæðir. Rætt var við fólk á aldrinum 70-90 ára. Með því að setjast niður í kaffi og ræða við fólkið lærðu vísindamennirnir margt um lífshætti og þarfir. Nú standa þeir frammi fyrir þeirri áskorun að þróa lausnir sem geta komið sér vel í daglegu lífi eldri borgara og er markmiðið að fólkið geti lifað með reisn og verið sjálfstætt. Tækjabúnaðurinn mun geta sagt starfsmönnum í umönnun hvort allt sé í góðu á heimilinu, fólkið sé sofandi, að klæða sig, eða hvort það liggur á gólfinu og þarf hjálp. Tækið sendir boð um að það vanti aðstoð.

Tækin gætu hugsanlega verið forrituð þannig að rödd minni íbúa á að taka lyfin eða lyklana þegar farið er út af heimilinu. Jafnvel vara við að ísskápurinn sé ekki lokaður eða kveikt sé á bakarofni. Til að þessi tækni geti virkað þarf gott, þráðlaust net á heimilinu. Þróunin er komin nokkuð á veg, en hún er flókin og að mörgu þarf að huga.

Þótt snjallsímar og önnur snjalltæki leiki í höndum unga fólksins sem alist hefur upp með slíkum tæknigræjum, getur verið flókið fyrir eldra fólk að læra á tækin. Margir sem eru komnir á eftirlaun eiga iPad og hann getur veitt fólki mikla ánægju. Ættingjar þurfa einungis að gefa sér tíma til að kenna þeim eldri hvernig best er að nota hann. Facebook og Instagram eru góðar leiðir til að fylgjast með afkomendum og vinum. Bankaviðskipti í heimabanka er sömuleiðis nauðsynlegt að kunna á. Svo eru auðvitað margir sem nýta sér snjalltæki til að lesa blöðin eða jafnvel horfa á sjónvarp. Í iPad er hægt að leggja kapal eða fara í einfalda leiki sem örva hugsunina. Þar fyrir utan er hægt að tala við ættingja í útlöndum í mynd.

Spjaldtölva er þess vegna mjög góður kostur fyrir gamla fólkið og gæti verið sniðug jólagjöf fyrir þá sem ekki eiga slíkt tæki. Aldraðir sem eiga snjalltæki eru í raun mun betur settir en þeir sem ná ekki tökum á tækninni. Snjalltækin geta komið í veg fyrir einmanaleika þótt þau komi ekki í stað heimsókna. Eftir fáein ár verða allir eldri borgarar sennilega vel snjallvæddir, ef fer sem horfir.