Leikkonan Heather Massie er hingað komin frá New York, með stuðningi sendiráðs Bandaríkjanna, og sýnir margverðlaunaðan einleik sinn, HEDY! The Life & Inventions of Hedy Lamarr, á Fringe Festival í Tjarnarbíói í dag.
„Ég kom hingað í stutt stopp í febrúar 2017 og sá sýningu á íslensku í Tjarnarbíói,“ segir Heather, sem hefur ferðast með einleikinn víða um lönd.

„Það var síðan fyrir hálfgerða tilviljun að ég frétti af Reykjavík Fringe Festival, ákvað að sækja um og hér er ég,“ segir Heather og hlær.
Þráðlaus snilld
„Ég rek sögu snillingsins, uppfinningakonunnar og Hollywood-leikkonunnar Hedy Lamarr, sem hannaði stýrikerfi fyrir tundurskeyti í seinni heimsstyrjöldinni sem er nú notað í farsíma, þráðlaust net og GPS,“ segir Heather um Hedy Lamarr og tæknina, sem kennd er við Frequency-Hopping Spread Spectrum.
„Tilgangur minn er meðal annars að hvetja ungar konur til þess að reyna fyrir sér í tækni og vísindum og renna um leið stoðum undir Hedy Lamarr sem fyrirmynd, með áherslu á hugvitssemi hennar og uppfinningar.“
Heather segir Lamarr hafa verið sannkallaða glamúrgyðju í Hollywood þegar henni var lýst sem fegurstu konu heims, en undir fögru skinni hennar leyndist sjálfmenntað tækniséní.
Beint í mark
„Hún var leikkona á kafi í tækni og uppfinningum,“ heldur Heather áfram um Lamarr sem fæddist í Vín í Austurríki og hét Hedwig Eva Maria Kiesler áður en hún hélt á vit heimsfrægðarinnar í Bandaríkjunum þar sem hún varð ein skærasta stjarna Hollywood milli 1930 og 1950.
„Í stríðinu vildi hún styðja bandamenn og nýja landið. Hún hafði öðlaðist mikla þekkingu á hergögnum á meðan hún var gift austurríska hergagnaframleiðandanum Fritz Mandl og lagði bandaríska flotanum lið með því að þróa þessa tækni sem gerði eldflaugaskeyti miklu nákvæmari.

Hún skildi hvernig þetta virkaði og greindi vandamálin. Uppfinning hennar komst því miður ekki í gagnið í stríðinu en þessi tækni er síðan allsráðandi í þráðlausum samskiptum í dag.“
Tæknigyðjan
Lamarr föndraði við vísindastörf sín í hjáverkum og fékk ekki viðurkenningu fyrir þau fyrr en undir lok ævi sinnar. „Það er meira á síðari árum sem fólk hampar henni fyrir snilligáfuna og fleiri og fleiri eru að komast að þessu. Hún er samt átrúnaðargoð hjá mörgum sem starfa við tölvur og upplýsingatækni.“
Sjálf lagði Heather stund á stjarneðlisfræði og ætlaði að verða geimfari, þannig að hún tengir sterkt við Lamarr sem leikkona með brennandi tækniáhuga.
„Þetta er mín leið til þess að blanda saman vísindunum og listinni. Mig langaði að skrifa verk um konu í vísindum og einhver stakk upp á Hedy Lamarr og hún er fullkomið viðfangsefni.“
Í kvikmyndum er Lamarr þekktust fyrir að hafa leikið Delílu í biblíusögumynd Cecil B. DeMille, Samson and Delilah, frá 1949. Hún hafnaði aftur á móti hlutverkum í bæði Gaslight og Casablanca, sem telja má afdrifarík mistök á Hollywood-mælikvarða.
Sýningin um Hedy Lamarr hefst í Tjarnarbíói klukkan 15 í dag og verður streymt beint heimsálfa á milli og gestir hátíðarinnar National Arts Festival í Suður-Afríku geta horft með þeim sem sitja í Tjarnarbíói.
„Það er spennandi og áhugavert fyrir mig að sýna á Íslandi og í Suður-Afríku samtímis,“ segir Heather, sem mun svara spurningum áhorfenda í báðum álfum að sýningu lokinni. ■