Karl Skírnis­son, sníkju­dýra­fræðingur hjá Til­rauna­stöðinni að Keldum, birti magnaðar myndir á Face­book af lús­mýi sem hann tók með ljós­smá­sjá. Á myndunum má sjá tvær flugur sem Karl veiddi um miðjan júlí á Höfn í Horna­firði. Flugan til vinstri er karl­dýr og sú til hægri er kven­dýr og út­skýrir Karl muninn á kynjunum í texta sem hann ritaði við myndirnar.

„Lengdin er um 2 mm. Líkams­bygging kynjanna er svipuð en mikill munur er samt til dæmis á út­liti fálmaranna sem skaga fram úr hausnum, fálmararnir eru kaf­loðnir á körlunum - öfugt á við kerlingarnar. Og kerlingin er með sograna sem hún notar til að stinga fórnar­lömbin með til blóðs (sést á myndinni skaga niður úr hausnum). Karl­flugurnar sjúga ekki blóð og því ekki með sograna, heimildir greina að þeir sæki grimmt í að lepja upp blóma­safa! Fæðu­að­laganir kynjanna eru því ó­líkar!“

Karldýrið er til vinstri, kvendýrið til hægri.
Myndir/Karl Skírnisson

Allir eru bitnir

Karl segist ekki hafa rann­sakað lús­mý sér­stak­lega í vinnu sinni en segist hafa fundið flugurnar tvær í glugga­kistu í húsi sem hann dvaldi í á Horna­firði í júlí­mánuði. Náttúru­fræði­stofnun var þá að­eins nokkrum dögum fyrr búin að stað­festa að lús­mý væri komið til Horna­fjarðar og er það austasti staður á landinu þar sem þessi ó­væra hefur fundist, að því er Karl best veit.

„Þarna voru bæði kven­flugur og karl­flugur og það er á­stæðan fyrir því að ég get borið saman kynin, út­litið á þeim. Flugurnar eru steyptar inn með sér­stökum hætti og myndirnar eru teknar í ljós­smá­sjá,“ segir Karl.

Hann segist ekki hafa lent í slæmum bitum frá lús­mýi sjálfur.

„Sem betur fer, því menn fara af­skap­lega illa ef þeir lenda í árás margra flugna,“ segir Karl sem gefur lítið fyrir þá kenningu að flugurnar sæki meira í suma ein­stak­linga um­fram aðra.

„Ég held að það séu allir bitnir, þetta er mis­munur á ó­næmis­kerfi ein­stak­linga hvernig menn bregðast við. Sumir sýna ó­næmis­við­brögð en aðrir ekki,“ segir hann.