Við fengum Katrínu til að deila með okkur uppskriftinni af þessari vinsælu köku. Aðspurð segir Katrín þetta vera kökuna sem gestirnir hennar panta fyrirfram, áður enn þeir mæta og á því verður pottþétt engin undantekning um páskana. „Saga Garðars vinkona elskar þessa köku og er alveg tryllt í hana. Pantar hana oft. En þetta er hrákaka sem ég lærði að gera á Gló þegar ég vann þar samhliða leiklistarnáminu og uppskriftin er eftir Sollu Eiríks. Ég hef þó aðeins tvistað hana til. Kakan ber heitið Snickerskakan og hún er meinholl, getum líka kallað hana Bombu.“

Snickerskaka Gló

Botninn

100 g möndlur
100 g döðlur
Smá salt
1 tsk. vanilla
1 dl lífrænt hnetusmjör gróft
1 tsk. maca-duft
1 msk. kókosolía fljótandi
Salthnetur

Blandið saman möndlum og döðlum í matvinnsluvél. Restinni af uppskriftinni síðan bætt út í og blandað saman. Þjappið blöndunni saman í form.
Stráið 1½-2 dl af salthnetum ofan á og setjið svo botninn í frysti á meðan þið útbúið karamelluna og súkkulaðið.

Karamellan
1 ½ dl hlynsíróp
1 dl kókosolía
1 dl hnetusmjör
½ tsk. gróft sjávarsalt
1 tsk. kakóduft

Setjið allt í blandara og blandið saman á lágum hraða. Hellið síðan karamellunni yfir botninn og salthneturnar.

Súkkulaðið
½ dl kókosolía fljótandi
½ dl kakóduft
Örlítið salt
5 dropar af stevíu
5 dropar af súkkulaðidropum

Hrærið öllu saman í skál og hellið yfir karamelluna. Setjið aftur inn í frystinn í smástund til að leyfa súkkulaðinu að storkna.