Karen Jónsdóttir frumkvöðull, ávallt kölluð Kaja, sem á og rekur Matarbúr Kaju og Café Kaju, býður upp á safahreinsun að minnsta kosti tvisvar á ári sem hefur notið mikilla vinsælda og hefur aðsóknin farið fram úr björtustu vonum undanfarið. Kaja hefur mikla ástríðu fyrir bústum og söfum og byrjaði að þróa slíka fyrir mörgum árum og enn í dag er Kaja að koma með nýjungar. Hvaðan kemur ástríða þín og innblástur? „Ég held að ástríðan eigi sér upphaf í fyrstu uppskriftunum að bústum sem komu fram í dagsljósið fyrir um það bil 20 árum. Öll þessi nýju og forvitnilegu hráefni sem höfðu góð áhrif á heilsuna gjörsamlega heilluðu mig. Ég held ég hafi lesið allt sem fjallaði um heilsusamlega safa og bústa. En á þessum tíma var ég að klára nám í Tækniháskólanum sem vörustjórnunarfræðingur svo safar og bústar voru algjört áhugamál.“

Nauðsyn að núllstilla líkamann

Þú hefur verið að bjóða upp á safahreinsun, segðu okkur aðeins frá tilurð hennar?

„Eftir veikindi sneri ég við blaðinu og fór að huga að heilsunni. Í Heilsumeistaraskólanum var til dæmis einn kúrs um safaföstur. Hugmyndin heillaði svo úr varð að ég prufaði þetta og fann þá bæði kosti og gallana. En markmiðið hjá mér var alltaf að hreinsa líkamann og leyfa honum að fara í viðgerðarham. Eftir þrjú ár í eldhúsinu heima varð til Safahreinsun Kaju.“

Er safahreinsun góð fyrir líkama og sál?

„Já, mér persónulega finnst það algjör nauðsyn, maður nær að núllstilla sig og líkaminn fær frið til að vinna í viðgerðum sem er aðal tilgangurinn með safahreinsunni.“

Segðu okkur aðeins frá því hráefni sem þú notar í safana. „Ég nota eingöngu lífrænt vottuð hráefni en í versta falli íslenskar agúrkur og tómata. Með hreinum hráefnum og lifandi næringu fær líkaminn hvíld og tíma til að vinna í viðgerðum.“ Hvaða árangri getum við náð með safahreinsuninni? „Þeir sem hafa farið í safahreinsun hjá mér hafa getað hætt á ýmsum lyfjum sem verið er að taka vegna lífsstílssjúkdóma, til dæmis blóðþrýstingslyfjum, en vandamálið þar er að ef þú ferð í sama gamla farið aftur þá þarftu þau aftur. Svo árangurinn er alltaf undir hverjum og einum kominn.“

Ertu til í að deila með lesendum uppskriftinni að þínum uppáhaldsheilsudrykk þessa dagana og sögunni bak við hann?

„Minn uppáhalds núna er svolítið skrítinn, ég fékk nefnilega gjafakassa með wasabi-rót í jólagjöf. Og þar sem ég kann ekki að búa til sushi þá fór ég að lesa mér til um wasabi-rótina, hvað ég ætti að gera við hana, og viti menn, wasabi er ofurjurt með marga góða heilsusamlega þætti. Svo úr varð að jólafríið fór í að finna not fyrir wasabi-rótina. Ég prufaði að setja wasabi í græna bústinn minn og þar sem ég elska bragðið af wasabi þá hentaði þetta mér mjög vel. Wasabi-rótina er hægt að nota í staðinn fyrir engifer.“

Kaja fór á stúfana að lesa sér til um wasabi-ið og eiginleika þess og komst þá að því að wasabi-rótin hefur marga góða eiginleika fyrir líkama og heilsu. „Ég fór inn á nokkrar erlendar heilsusíður og niðurstaðan var samhljóma um helstu eiginleika wasabi-rótarinnar. Hún er ekki ósvipuð og engiferrótin en bara með allt annað bragð.

Á heimasíðunni Healthline Nutrition – Healthy Eating in Real Life er farið yfir þau atriði sem wasabi-rótin er góð fyrir. Náttúruleg efnasambönd í wasabi sem kallast ITC geta verið bakteríudrepandi, bólgueyðandi, örvað brennslu og lækkað blóðþrýsting. Auk þess er verið að skoða áhrif ITC á vöxt krabbameinsfrumna og svo á Parkinsons. Fyrir áhugasama er upplagt fara inn í vefsíðuna og lesa sér til gagns.“

Græni wasabi-bústinn hennar Kaju

300 ml vatn og ½ lúka möndlur, einnig hægt nota tilbúna möndlumjólk

1 msk. fræblanda (hörfræ, chiafræ)

½ avókadó

½ kíví

½ epli

10 g spínat

50 g frosið mangó

1 bolli gulrótasafi Beutelsbacher

1 msk. wasabi-mauk

¼ tsk. Græna bomban frá Kollu grasa

Allt hráefnið sett í blandara og blandað saman. Síðan er þessu hellt í meðalstórt glas eða bolla, hægt að skreyta með wasabiblómum og svo er bara að njóta. Kaja prufaði einnig að að setja wasabi-mauk í ólífuolíu og segir það algjöra snilld á matinn til að gera hann svolítið spæsí, það minni svolítið á piri piri-olíu.