Þessi plata gæti eiginlega ekki verið persónulegri – þetta var eins og að skera ostsneiðar af sjálfri mér, segir tónlistarkonan Hera Hjartardóttir sem gaf út plötuna Hera í gær. Þetta er tíunda breiðskífa Heru og fyrsta sólóplatan hennar í átta ár.

„Ég trúi í rauninni ekki að platan sé loksins komin út,“ segir Hera, en platan sjálf var í vinnslu í rúm þrjú ár og var tekin upp í fjölda landa. „Hún er búin að vera svo lengi í vinnslu að mér finnst ótrúlegt að ég fái loksins að deila henni með fólki.“

Meðal laga á plötunni eru How Does a Lie Taste? sem kom út í fyrra og Process sem náði fyrsta sæti á vinsældalista Rásar 2.

AC/DC og Óli Prik

Barði Jóhannsson stýrði upptökum á plötunni og segir hún hann hafa sett ákveðinn blæ á hana. „Hann er algjör snillingur og frábær tónlistarmaður. Hann hjálpaði mér að smíða heiminn í kringum lögin, og þótt þau standi vel sjálf, þá eru þau nú komin til síns heima.“

Tónvinnslan að baki plötunni er annars mjög alþjóðleg, en Hera vann meðal annars með tónlistarmönnum frá Bandaríkjunum, Englandi og Nýja-Sjálandi.

Hera er sérstaklega spennt fyrir vínylútgáfu plötunnar, sem verður hennar fyrsta. „Ég hlustaði mikið á vínylplötur sem barn. Þær sem ég man einna helst eftir eru AC/DC, Rocky Horror og Óli Prik,“ segir Hera og hlær. „Platan er svo áþreifanleg í þessari mynd, og ég er þakklát öllum þeim sem komu að því að móta þessa lokaútgáfu.“

„Það er rosa gott að vera komin heim aftur,“ segir Hera.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Túrað um landið

Hera flutti heim til Íslands í fyrra en hún bjó áður á Nýja-Sjálandi. „Það er rosa gott að vera komin heim aftur,“ segir Hera, sem væri undir venjulegum kringumstæðum nú að spila erlendis í tilefni plötunnar. „Ég átti að vera að spila á South by Southwest hátíðinni í Texas og var með skipulagða tónleika hér og þar um heiminn, en því var náttúrulega öllu aflýst vegna COVID.

Hún lét þó ekki aflýst millilandaflug stöðva sig og hefur í staðinn verið að ferðast innanlands. „Ég var að koma úr tónleikaferðalagi af Vestfjörðum og er að fara austur í næstu viku,“ segir Hera, sem mun meðal annars heimsækja Djúpavog, Breiðdalsvík og Neskaupstað. „Það er yndislegt að fá að rifja upp kynnin við þessa staði.“

Tímamótatónleikar

Útgáfutónleikar í tilefni plötunnar verða haldnir fimmtudaginn 23. júlí, í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Um er að ræða tímamótatónleika, en þetta verða fyrstu tónleikar sem Hera flytur ásamt hljómsveit á Íslandi í meira en fimmtán ár.

„Þetta verður svona one-off og virkilega sérstakt kvöld. Ég er með algjöra snillinga með mér,“ segir Hera, en hljómsveitina skipa Kristinn Snær Agnarsson, Ingibjörn Ingason, Stefán Örn Gunnlaugsson og Daníel Helgason.

„Ég er rosalega stolt af þessari plötu sem er pínu eins og dagbók á köflum,“ segir Hera. „Þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem ég sendi eitthvað frá mér þar sem allt er eins og það á að vera og mér þykir vænt um að fólk skuli hlusta á hana.“