Helga Gabríela er matreiðslumaður að mennt og nú komin með nýjan titil: Smurbrauðsjómfrú Brauð & Co. Hún segir að eftir að hún fékk móðurhlutverkið skipti hefðirnar enn meira máli.

„Eftir að ég eignaðist strákana mína hefur mér þótt einstaklega gaman að þróa nýjar hefðir með fjölskyldunni. Þær eru svo skemmtilegar og skapa mjög dýrmætar minningar.“

Lærði af þeirri bestu í faginu

Smurbrauðsjómfrú er nýjasti titill Helgu Gabríelu og aðspurð segir hún að forsagan sé í raun smörre-ævintýrið sem hófst hjá Marentzu.

„Það má með sanni segja að smörre-ævintýrið hafi byrjað þegar ég vann sem yfirkokkur á Klambrar Bistró á Kjarvalsstöðum. Þá lærði ég að útbúa smörre frá þeirri bestu í faginu, henni Marentzu Poulsen, sem er drottningin í þessu. Hún er fyrirmynd í eldhúsinu og ég var svo ótrúlega lánsöm að hafa fengið að læra af henni. Síðan vildi það einfaldlega þannig til að Brauð & Co var að leita að nýjum hugmyndum til að bjóða upp á, til að byrja með í nýja flotta bakarís-kaffihúsinu þeirra á Laugavegi, þannig að þeir höfðu samband við mig og við hittumst í kaffi og ræddum málin. Alls konar pælingar voru í loftinu en smurbrauðið varð síðan ofan á, þar sem undirstaðan í því öllu saman er þetta geggjaða danska rúgbrauð sem þeir baka á hverjum degi. Þetta einfaldlega smellpassaði inn í konseptið þeirra.“

Aðspurð segir Helga Gabríela að danskt yfirbragð smurbrauðsins hafi fyrst og fremst heillað.

„Í fyrsta lagi er ég bara ofsalega hrifin af öllu sem er danskt. Við Íslendingar höfum tekið upp svo margar skemmtilegar hefðir frá þessum gömlu nýlenduherrum okkar og mér finnst það eitthvað svo fallegt. Að danskar hefðir séu líka íslenskar hefðir. Svo eru smurbrauðin gerð úr ferskum norrænum hráefnum sem við eigum að vera stolt af. Þetta er einfaldlega herramannsmatur.“

Fleiri ný verkefni eru í farvatninu hjá Helgu Gabríelu.

„Ég er með mjög spennandi verkefni í þróun sem heitir Smakk og sérhæfir sig í kökum og eftirréttum við öll tækifæri. Þá er ég einnig að setja saman námskeið tengd því þar sem hægt verður að læra að útbúa til dæmis míní pavlóvur og sítrónutart.“

Dýrindis smörrebröd gleður bæði munn og maga.

Skreyta borðið með íslenska fánanum

Helga Gabríela hefur ákveðnar hefðir og siði í tengslum við 17. júní sem hún hefur skapað sjálf.

„Síðustu ár höfum við boðið fjölskyldunni heim í bröns og mímósur. Þá útbý ég egg benedict og baka mína allra bestu brownie sem slær alltaf í gegn. Strákarnir skreyta borðið með íslenska fánanum og ljúfir tónar eru settir á fóninn. Eftir brönsinn finnst okkur voða gaman að taka smá rölt um bæinn, fá okkur ís, candyfloss og blöðrur ef sólin lætur sjá sig.“

Sjálf segist Helga ekki hafa alist upp við ákveðna siði á þessum degi.

„Ég man ekki eftir neinum sérstökum siðum síðan ég var lítil. En ég man að mér fannst alltaf æðislega gaman að kíkja niður í bæ með fjölskyldunni og upplifa stemninguna. En ég get klárlega sagt að eftir að ég varð mamma hafi orðið til þessi sterka löngun til að skapa skemmtilegar fjölskylduhefðir með strákunum mínum.“

Smurbrauðsjómfrúin Helga Gabríela gefur lesendum uppskrift af smurbrauði með rækjum og eggi, sem selst alltaf upp þegar hún smyr það fyrir gesti Brauð & Co.

Helgu Gabríelu finnst mikilvægt að halda upp á 17. júní og gera það með reisn.

„Við Íslendingar megum vera stolt af sögu okkar og sigrum. Það er í raun mjög merkilegt hvað við höfum skapað okkur gott samfélag hérna lengst úti á ballarhafi. Svo er alltaf gaman að gleðjast með vinum og fjölskyldu.“

Þegar kemur að því að vera prúðbúin á þessum degi þá er það engin spurning hjá Helgu Gabríelu.

„Ég hef reyndar alltaf mjög gaman af því að klæða mig upp í fínni föt og þá er þjóðhátíðardagurinn engin undantekning. Þá finnst mér sérstaklega gaman að klæða mig í einhverja sumarlega liti, eins og bleika skyrtu eða eitthvað skemmtilegt.“

Í tilefni dagsins er heimilið skreytt og hið þjóðlega fær að njóta sín.

„Það er alltaf dreginn fáni á stöng og svo tókum við fjölskyldan upp þann skemmtilega sið að skreyta bröns-borðið með íslenska fánanum. Mér finnst það notalegt, og einmitt líka svolítið danskt. Danir eru svo duglegir að skreyta allt með litlum dönskum fánum, í afmælum, við útskriftir og allt mögulegt. Mér finnst það til fyrirmyndar.“

Helga Gabríela gefur lesendum uppskrift af því sem hún ætlar að bjóða upp á í tilefni 17. júní þetta árið.

„Þennan þjóðhátíðardag stend ég einmitt vaktina í Brauð & Co á Laugavegi og útbý ljúffengt smörre. Því er við hæfi að deila með ykkur uppskrift af klassísku smörre með eggi og rækjum, enda selst það alltaf upp hjá okkur þá daga sem það er í boði.“

Girnilegt rækjusmurbrauð Helgu Gabríelu er með hátíðlegu ívafi og á sannarlega vel við í tilefni 17. júní, þjóðhátíðardags Íslendinga.

Smurbrauð að hætti Helgu Gabríelu

4 sneiðar af danska rúgbrauðinu hjá Brauð & Co

4 soðin egg

360 g stórar rækjur

2 msk. ólífuolía

Klípa af cayenne

Sjávarsalt og nýmalaður pipar eftir smekk

Ferskt dill og graslaukur, fínsaxaður

Sítróna

Smjör

Byrjið á að setja rækjurnar í skál og dressið þær með ólífuolíu, cayenne, salti og pipar eftir smekk. Smyrjið sneiðarnar með smjöri og raðið einu eggi öðru megin á hverja sneið, saltið og piprið eggin. Raðið síðan rækjunum á hinn helminginn og kreistið vel af sítrónusafa yfir. Toppið sneiðarnar með sítrónumæjó og fullt af fersku dilli og graslauk.

Sítrónumæjó

200 g majónes

Rifinn börkur af einni sítrónu

2-3 tsk. sítrónusafi

sjávarsalt eftir smekk

Majónes sett í skál ásamt sítrónuberki, tveimur teskeiðum af sítrónusafa og klípu af sjávarsalti. Hrærið saman og smakkið til með meira salti og sítrónusafa.

Berið fram á fallegan og hátíðlegan hátt. Gleðilegan 17. júní!

Danska smurbrauðið hennar Helgu Gabríelu er einkar girnilegt og glæsilega fram borið. Hér er það steikt rauðspretta.
Girnilegt og fallega framreitt roast beef smurbrauð hjá Helgu Gabríelu.