Ég baka mínar eigin bollur fyrir þennan skemmtilega dag, ég elska hefðir og held fast í þær. Þetta er algjör bolludagur í allri sinni mynd.“ Marentza er eigandi og rekstraraðili Klambra bistró á Kjarvalsstöðum og þar fær matarástríða hennar að njóta sín til fulls gestum hennar til mikillar gleði.

Vegan bollurnar í hávegum hafðar

„Þar sem góður hluti af fjölskyldunni minni er vegan er ég farin að baka vegan bollur þannig að allir geta borðað þær, það er enginn munur á bragðinu alla vega ekki á þessum bollum. Það er líka auðvelt að skipta út nýmjólk fyrir haframjólk og smjör fyrir smjörlíki og venjulegan rjóma fyrir vegan rjóma.“

Fiskibollur með ferskum kryddjurtum og laxi

„Ég geri líka mínar eigin fiskibollur en þær eru ekki alltaf eins. Það er svo gaman að prófa alls konar bæði með ferskum kryddjurtum og öðru kryddi og svo að bæta laxi saman við farsið. Við borðum mikinn lax og það er freistandi að prufa að blanda honum saman við farsið. Útkoman er hreint út sagt ótrúlega góð og bollurnar gleðja bragðlaukana til fulls. Það má auðvita sleppa laxinum fyrir þá sem finnst hann ekki góður, bollurnar eru góðar fyrir það.“

Bolludagurinn á Klambra bistró

Fyrir þá sem hafa ekki tíma til að útbúa bollur á bolludaginn geta komið við á Klömbrum á Kjarvalstöðum og gætt sér á þessum dásamlegu fiskibollum ásamt öðrum góðum rjómabollum og látið dekra við sig í tilefni dagsins. En Marentza er þekkt fyrir sína alúðlegu framkomu og einstaklega ljúffenga matseld og bakstur sem lætur engan ósnortinn.

Fiskibollur með ferskum kryddjurtum og laxi ásamt sítrus-kartöflumús.

Fiskibollur að hætti Marenztu

20 stykki

700 g þorskur

300 g nýr lax

3 skalottlaukar, fínt saxaðir

2 msk. hveiti má vera glútenlaust

3 egg

½ dl rjómi

2 tsk. salt, má vera meira fer eftir smekk

1-2 tsk. pipar

1 tsk. fiskikrydd frá Krydd og tehúsinu

2 dl fínt saxað ferskt dill

Setjið þorskinn í hakkavél eða matvinnsluvél, síðan er allt hráefnið nema laxinn sett í hrærivélarskálina og hrært mjög vel saman. Það skiptir miklu máli að hræra hráefninu vel saman, þannig verða bollurnar þéttar og fínar. Laxinn er síðan skorinn í teninga og bætt varlega saman við fiskfarsið.

Búið til 20 fallegar bollur. Mér finnst best að gera bollurnar deginum áður en ég steiki þær og þær standa í kæli yfir nótt.

Sítrus-kartöflumús

3 bökunarkartöflur afhýddar, skornar í bita og soðnar þar til þær eru orðnar mjúkar

4 msk. smjör, má vera vegan

½ dl rjómi, má vera vegan

Rifinn börkur af einni sítrónu

1 msk .sítrónusafi

salt og pipar eftir smekk.

Hellið vatninu af soðnu kartöflunum og stappið þær frekar gróft með þeytara, bætið öllu hráefninu saman við og hrærið varlega, ekki er gott að hræra of mikið í kartöflumúsinni, þá getur hún orðið seig.

Appelsínu-gulrætur

Gulrætur eru skrældar og skornar til helminga eða í fjóra hluta, settar í eldfast mót ásamt rifnu hýði af einni appelsínu, safa af heilli eða hálfri, allt eftir hversu stór skammturinn er, ásamt olíu, salti og pipar.

Vökvinn á ekki að flæða yfir gulræturnar. Bakið í ofni í nokkrar mínútur eða þar til gulræturnar eru passlega mjúkar.

Agúrku remúlaði

½ agúrka

2 meðalstórar gulrætur

½ dl sýrður rjómi eða Oatly Naturel Maustamaton

3 msk. majónes, má vera vegan

2 tsk. karrí

50 g syltede agurker ( cornichoner)

½ dl saxað ferskt dill

salt og pipar.

Skerið agúrkuna til helminga langsum og takið kjarnann úr með teskeið, skerið agúrkuna í strimla og síðan í litla teninga. Gulræturnar eru skrældar, skornar í strimla og síðan í litla teninga. Sýrðu gúrkurnar (cornichoner) eru einnig skornar í strimla og síðan í teninga.

Sýrði rjóminn og majónesið er hrært vel saman ásamt kryddinu og síðan er grænmetinu blandað saman við. Smakkið til með salti og pipar.

Vegan bolludagsbollurnar hennar Marentzu líta svona líka flottar út og bragðast einnig vel.

Klambra Bistró vegan bolludagsbollur

5 dl fingurvolgt mjólkurvatn, vatn og haframjólk til helminga

100 g blautt pressuger eða 1 bréf þurrger u.þ.b. 12 g

50 g sykur

100 g smjörliki brætt eða 1 dl olía

1 tsk. salt

800-1000 g hveiti.

Byrjið á því að hita ofninn í 200°C. Blandið geri saman við volgt mjólkurvatnið ásamt sykri, salti og olíu eða smjörlíki og það hrært vel saman, síðan er hveitinu bætt út í rólega og hnoðað þar til deigið losnar frá skálinni. Deigið er látið hefast í um það bil 30 mínútur. Deigið er sett á hveitistráð borð og hnoðað aðeins með höndunum og búnar eru til bollur úr deiginu. Þeim síðan raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og látnar hefast í um það bil 15 mínútur. Bakið bollurnar við 200°C í 15 til 20 mínútur.

Kremið ljúfa á milli

2 ½ dl vegan rjómi þeyttur

1 tsk. flórsykur

3 tsk. núgat eða heslihnetusmjör

Byrjið á því að hræra vel saman flórsykur og núgat eða heslihnetusmjör og og setjið síðan varlega saman við þeytta rjómann. Setjið á milli í bollurnar.

Súkkulaðitoppurinn á bollurnar

Bræðið hvítt vegan súkkulaði yfir vatnsbaði bætið örlitlu af rauðum matarlit út í súkkulaðið og blandið því vel saman. Þetta er sett ofan á lok á bollunum og síðan skreytt með ferskum berjum að eigin vali.