Ég gef honum uppáhaldsmatinn hans að borða, sem eru smjörsteiktar lambakótilettur í raspi, kryddaðar eingöngu með salti og pipar. Meðlætið eru soðnar kartöflur, grænar baunir frá Ora, rabarbarasulta, rauðkál, og ekki má gleyma stórri skál af bræddu smjöri. Svo passa ég að steikja nógu margar kótilettur svo hann eigi nokkrar til að naga kaldar í hádeginu daginn eftir. Það er hluti af prógramminu hjá mér, honum finnst þær svo góðar. Hann er svolítið eins og lítill strákur á jólunum sem fær nýja glansandi járnbrautarlest með mörgum vögnum og lestarstjórahúfu í jólagjöf og getur ekki beðið eftir að vakna næsta dag og byrja að leika sér með lestina sína. Ég má ekkert skipta mér af þeim, ekki breiða plastfilmu yfir afganginn eða stinga þeim í ísskápinn, ekki koma nálægt þeim. Nei, þær skulu standa á disk á eldhúsbekknum þar til hann seilist í þær daginn eftir. Hann er svolítið skemmtilega ráðríkur með þetta.“

Glampinn í augunum ógleymanlegur

Anna Björk hefur ávallt haldið upp á bóndadaginn fyrir sinn bónda. „Ég er að halda upp á hann með honum, núna í 37. sinn, svo það eru nokkur skipti. Venjulega undirbý ég huggulegt kvöld fyrir okkur, elda góðan mat, eitthvað sem ég held að honum þyki mjög gott, kaupi rósavönd, kveiki á kertum og svoleiðis. Ég hef stundum keypt þorramat, en hann var ekki að slá í gegn. Ég hef eldað mat sem mér hefur þótt spennandi, það hefur heldur ekki alltaf verið að gera stormandi lukku. En eftir að ég sá hvernig augun hans lifnuðu við og það kom skær glampi í þau þegar hann sá kótiletturnar í fyrsta sinn, þá varð ekki aftur snúið. Þær hafa verið á bóndadaginn síðan, enda eiga þær sérstakan stað í hjarta hans, algjöran heiðurssess. Hann bíður spenntur eftir deginum og byrjar að spyrja nokkrum dögum áður hvort ég sé búin að kaupa kótilettur og hvað margar, hvort þær séu ekki örugglega nógu margar til að eiga daginn eftir. Ég hef mjög gaman af þessu og grínast í honum með þetta stundum.“

Töfrarnir þegar bóndadagshefðin fæddist

Hefðin fyrir lambakótilettunum á sína sögu og Anna Björk heldur mikið upp á þá stund. „Það er svolítið skemmtileg saga að segja frá því. Á þeim árum þegar við Guðjón vorum á kafi í hestamennskunni í Hestamannafélaginu Herði í Mosfellsbænum vorum við í mjög skemmtilegum hópi fólks, sem reið mikið út saman og fór í skemmtilegar hestaferðir um landið. Þetta var mjög hress hópur, gítarspilarar og söngvarar og allt mikið matarfólk, sumir jafnvel listakokkar. Ein úr hópnum, Birna Sigurðardóttir, er snilldarkokkur, hennar sérgrein er hefðbundinn, góður, íslenskur matur. Við hinar erum kannski meira í nútímaeldhúsinu, erum að gera alls konar tilraunir í eldhúsinu. Birna bauð hópnum einu sinni sem oftar í mat heim til sín og í einu af þeim boðum þá gerðust töfrarnir. Þegar þessi annars fyrirferðarmikli og háværi hópur var sestur við fallega, dúkaða borið hjá Birnu birtist hún með stórt fat og lagði á borðið. Á fatinu var fjall af sjóðheitum gullnum, stökkum kótilettum í raspi. Síðan kom allt tilheyrandi í röð á borðið, grænar baunir, rabarbarasulta, hvítar fallegar kartöflur, rauðkál og skálar fleytifullar af bræddu smjöri. Það sló þögn á hópinn, enginn talaði, sem var einsdæmi í þessum hóp. Næsta sem heyrðist var skarkali í hnífapörum og diskum, svo komu unaðshljóðin, stunur, dæs og kjamms. Upp úr eins manns hljóði spurði einn félaginn konuna sína: „Af hverju fæ ég aldrei svona mat heima?“ Hinir karlarnir tóku undir, margefldir af kjarki og dirfsku félagans og beindu sömu spurningu til sinnar konu. Það var skemmtilegt að hlusta á þá, þeir voru allir svo sammála um hvernig ætti að elda kótilettur og það var nákvæmlega svona, eins og Birna gerði. Ekki á neinn fansý, nýmóðins hátt eins og steikja upp úr kókos- eða ólífuolíu eða að krydda með einhverju sem enginn hafði heyrt minnst á fyrir seinna stríð, bara með salti og pipar. Og baunirnar, ég hef aldrei heyrt karlmenn hafa svona ákveðnar skoðanir á grænum baunum og raspi. Þeir gáfu litið fyrir heimagert fínerí. Við vinkonurnar hlógum mikið að því hvað þeir væru miklir afturhaldsseggir og tregir að tileinka sér nútímann, frekar púkalegir. En sannleikurinn var sá, að við vorum alveg hjartanlega sammála þeim. Þarna ákvað ég hvað ég ætlaði að gera að bóndadagshefð heima hjá mér og gleðja minn bónda. Hann segir stundum að hann sé frekar einfaldur í venjum, bolur inn við bein, eins og í laginu hans Björgvins Halldórssonar og ég er fullkomlega sátt við það. Ef hann borðaði ekki á sig gat af kótilettunum, væri upplagt að vera með Royal-búðing í eftirrétt. En svona skapaðist þessi hefð hjá okkur og það glittir ekki í neinar breytingar á henni í framtíðinni.“

Kótilettur í raspi með sultu, grænum baunum og rauðkáli er uppáhaldsmatur margra Íslendinga og sérstaklega hjá karlmönnum, að sögn Önnu.

Smjörsteiktar lambakótilettur í raspi upp á gamla mátann

1-2 egg

Paxo-rasp

Salt og pipar eftir smekk

Smjör til að steikja upp úr og hafa með, mikið af því, ekki spara það

Meðlæti

Ora grænar baunir

Rauðkál

Íslensk rabarbarasulta, frá Mömmu

Fallegar íslenskar kartöflur, soðnar og skrældar

Ofninn er hitaður í 180°C. Gamli buffhamarinn hennar Önnu Kidda, ömmu, kemur sterkur inn þegar þarf að berja kótiletturnar þunnar. Eggin eru léttþeytt í víðri skál og góð hrúga af raspi sett á flatan disk. Síðan er kótilettunum velt upp úr léttþeyttum eggjunum og að lokum þrýst þétt ofan í Paxo rasp til að passa að hver kótiletta sé vel þakin raspi. Stór klípa af smjöri er brædd á miðlungshita á rúmgóðri pönnu og kótiletturnar steiktar í smjörinu, á báðum hliðum í nokkrar mínútur. Kryddaðar með salti og pipar og steiktar þar til þær eru orðnar gylltar á litinn og stökkar að utan. Þær sem eru tilbúnar eru settar á ofnplötu og henni stungið í ofninn á meðan þú bætir smjöri á pönnuna eftir þörfum og steikir restina. Ágætt að hafa þær í ofninum í um það bil 10-12 mínútur í allt. Kartöflurnar eru soðnar og skrældar, baunirnar og rauðkálið hitað. Þegar allar kótiletturnar eru steiktar, er stórum bita af smjöri bætt á pönnuna og það brætt og látið brúnast pínulítið, síðan er því hellt í sósukönnu og borið á borð með öllum herlegheitunum og einum ísköldum að hans vali.

Gleðilegan þorra og njótið.