„Ég mæli með göngutúr á hverjum degi. Það er það besta sem við getum gert fyrir líkama og sál, ekki síst ef fólk hefur ekki hreyft sig lengi, eða lítið. Hálftími eða klukkutími á dag er frábært, en líka þótt það sé ekki nema korter. Það er korteri meira en í gær og mikil framför,“ segir einkaþjálfarinn Nanna Guðbergsdóttir, beðin um heilræði handa þeim sem vilja taka skref í átt að betri lífsstíl á nýja árinu.

„Mestu skiptir að finna hreyfingu sem gleður og veitir vellíðan, þá hlakkar maður til þess að hreyfa sig aftur og meira. Á tímum strangs samkomubanns, eins og nú er í gildi, skiptir máli að hlúa vel að andlegri og líkamlegri heilsu. Þá er auðvelt að fara í göngutúr sem frískar hugann og fer vel með hjartað. Á líkamsræktarstöðvum gildir það sama; að byrja hægt og rólega til að hafa úthald í framhaldið og enginn tími er of skammur þar inni; jafnvel þótt maður mæti bara í hálftíma, því allt er betra en ekkert,“ segir Nanna.

Hún mælir heilshugar með því að fólk prófi að mæta á líkamsræktarstöðvar, því þar sé ótalmargt í boði fyrir jafnt unga sem aldna.

„Það hjálpar fólki að finna hreyfingu við hæfi og einstakt að geta fengið leiðsögn þjálfara sem tekur þig í prógramm eða kennir þér á tækin, að ógleymdum hóptímum sem mæta ólíkum þörfum fólks. Þá er félagslegi þátturinn ekki síður mikilvægur, sérstaklega fyrir þá sem eru mikið einir, að hitta fólk og mynda kunningsskap við aðra.“

Nanna var vinsæl fyrirsæta á árum áður og starfaði lengst af á Ítalíu og í Þýskalandi þar sem hún prýddi forsíður tímarita og gekk tískupallana. MYND/NADJA OLIVERSDÓTTIR

Aldrei reykt né drukkið áfengi

Nanna starfaði um árabil sem vinsæl fyrirsæta í Mílanó og Þýskalandi.

„Ég var í 10. bekk þegar ég var beðin um að taka þátt í Elite-fyrirsætukeppninni og eftir það hóf ég fyrirsætustörf á vegum Icelandic Models sem listakonan Hendrikka Waage rak í þá daga. Ég var auðvitað barn, maður sér það þegar maður horfir á börnin sín í dag, aðeins sextán ára þegar ég vinkaði bless og fór út í heim, eins og ekkert væri sjálfsagðara,“ segir Nanna og hlær.

Hún lærði bæði ítölsku og þýsku reiprennandi á módelárunum og er enn í miklum tengslum við Þýskaland.

„Ég ferðaðist um allan heim vegna vinnunnar, sýndi á tískusýningum og sat fyrir í tískublöðum. Þetta var ævintýri, en eins og hver önnur vinna í Þýskalandi þar sem módelbransinn var ekki sveipaður glamúr eins og víða. Það þótti mér gott. Þá var staðið við allt sem sagt var og fólk bar virðingu fyrir tíma annarra. Þannig var þýska leiðin alltaf 100 prósent og þetta var dýrmætur skóli fyrir unga konu sem vildi skoða heiminn og hafa það skemmtilegt,“ segir Nanna.

Hún æfði frjálsar íþróttir og dans á æskuárunum og byrjaði fimmtán ára að mæta reglulega í ræktina.

„Ég mætti ekki í ræktina til að halda mér grannri heldur til að líða vel í líkamanum. Ég hef alltaf haft áhuga á heilbrigðum lífsstíl, aldrei reykt né drukkið áfengi, og viljað að skrokkurinn sé í lagi. Því var eðlilegt framhald að læra einkaþjálfun þegar fyrirsætuferlinum lauk og þar vil ég miðla heilbrigðu lífi, ekki síst til kvenna, því konur þurfa að halda í vöðvamassann sem rýrnar þegar við eldumst og við þurfum á að halda til að takast á við allt í lífinu. Það verður auðveldara þegar við hugsum vel um líkama okkar og andlega heilsu.“

Langmestu gleðigjafarnir

Nanna útskrifaðist sem einkaþjálfari árið 2009 og hefur síðan starfað við einkaþjálfun í World Class Kringlu og Seltjarnarnesi.

„Hvort þýski aginn fylgi mér sem þjálfara læt ég ósagt, en við getum sagt að fólk kemst ekki upp með að maula Snickers í tíma hjá mér,“ segir hún og hlær. „Sumir þurfa strangan aga, aðrir meiri stuðning. Ég held fólki við efnið og met hvað hver og einn þarf og leitar eftir.“

Nanna þjálfar allt frá unglingum upp í eldri borgara, en undanfarin tólf ár hefur hún einnig verið með námskeiðið Breyttur lífsstíll fyrir fólk með þroskahömlun.

„Það eru langmestu gleðigjafarnir sem koma í World Class, yndislegir einstaklingar og alltaf mikil gleði í tímunum hjá okkur. Fyrstu árin vorum við í Laugum, en flestir vinna hjá Styrktarfélaginu Ási sem flutti starfsemi sína í Ögurhvarf og þá flutti ég tímana í World Class Ögurhvarfi, þangað sem þau geta gengið yfir götuna til mín. Það er frábært að fá þennan hóp inn á stöðina og sjá þau læra á tækin og blandast fólki af öllum þjóðfélagsstigum. Þar er þeim ávallt tekið fagnandi, bæði af starfsfólki og iðkendum; algjörir sólargeislar,“ segir Nanna, sem er heilluð af hópnum sínum.

„Já, ég kolféll fyrir þessum hópi og gæti ekki hugsað mér að vera einkaþjálfari án þess að hitta þessa gleðigjafa þrisvar í viku. Það er svo gefandi og gott, bæði fyrir mig og þau. Á æfingum ríkir alltaf hlátur og gleði og enginn tími er eins. Þau eru spennt að mæta, þvílíkt dugleg og mæta sko ekki til að hangsa. Þau koma til að standa sig vel og finna að líkamsræktin gerir þeim gott, styrkir þau og eflir. Svo eru einstaklingar á námskeiðinu sem fá ekki nóg og koma líka til mín í einkaþjálfun. Þeim þykir svo gott að hreyfa sig og vilja taka þetta alla leið.“

Nanna í kátum hópi iðkenda sinna á námskeiðinu Breyttur lífsstíll sem er fyrir fólk með þroskahömlun og Nanna hefur kennt í tólf ár. MYND/NADJA OLIVERSDÓTTIR

Eiga stórt pláss í hjarta Nönnu

Nanna segir greinilega þörf á lífsstílsnámskeiðum fyrir fólk með þroskahamlanir.

„Á tímabili var eftirspurnin svo mikil að ég var með tvö námskeið á viku og þau fylltust strax. Því tel ég þörf á fleiri þjálfurum til að sinna þessu skemmtilega starfi og svo vilja margir koma í einkaþjálfun. Kannski eru slík námskeið ekki nógu sýnileg, en miðað við eftirspurnina að komast að gæti ég verið með urmul námskeiða því það er sárt að segja nei þegar allt er orðið fullt.“

Nanna er líka með einkaþjálfun fyrir einstaklinga með einhverfu.

„Einhverfir eru á misjöfnum stað og með mismunandi þarfir. Þeir eru kannski óöruggir í byrjun en svo sér maður þá blómstra og elska að mæta í ræktina. Félagslegi þátturinn hefur þar mikið að segja og fólki verður vel til vina þótt það þekki engan í upphafi. Í daglegu lífi umgangast fæst okkar þroskahamlaða einstaklinga, en einmitt þess vegna er svo gott að hafa þá á hefðbundnum líkamsræktarstöðvum og hluta af okkar lífi. Það gerir þeim gott, og ekki síst okkur, að hafa þau samferða í lífinu. Ég veit ekki hversu oft hefur verið komið til mín á stöðvunum og sagt: Svo yndislegt að sjá hópinn og gleðina sem honum fylgir. Þau eru þá kannski á brettum eða að reyta af sér brandara sem vekja hlátrasköll um allan sal og gleðin er smitandi,“ segir Nanna, sæl í sínu starfi.

„Þessi yndi verða miklir vinir manns og þau eiga stórt pláss í hjarta mínu, svo mikið er víst. Þau veita ofsalega mikla hlýju og gleði og ég er þakklát fyrir að hafa þau í lífi mínu. Þau mæta til mín í síðasta tíma dagsins þrisvar í viku og það er yndislegt og endurnærandi að klára daginn með þeim,“ segir Nanna.

Hægt er að fylgjast með hópnum hennar áInstagram: @Breyttur lífsstíll.

„Þar getur fólk séð gleðina í tímunum hjá okkur sem aldrei eru eins. Það þykir iðkendunum skemmtilegt og að geta sýnt fjölskyldum sínum hvað þau eru að gera. Stærsti fylgjendahópurinn er ungt fólk af stöðvunum, sem hefur sent þeim falleg skilaboð og hrósað þeim fyrir dugnaðinn og það er þeim kært. Við höfum líka fengið heimsóknir í tíma og alls konar pepp, veitingastaðir hafa boðið okkur í mat og margt fleira skemmtilegt, enda eru þau langflottust,“ segir Nanna.