Flugfreyjan og einkaþjálfarinn Sara Davíðsdóttir og Ásgrímur Geir Logason, betur þekktur sem Ási, stjórnandi hlaðvarpsins Betri helmingurinn og Heitt á könnunni, skipuleggja utanlandsferðir og aðrar minniháttar samverustundir til að gæta að samverustundum í sambandinu þar sem þau hafa í nógu að snúast dagsdaglega.
Parið kynntist fyrir þremur og hálfu ári síðan og trúlofuðu sig síðastliðið sumar.
Að sögn Söru hafa þau ekki mikinn tíma yfir vikuna að rækta sambandið en eru dugleg að brjóta upp dagana þó svo það sé ekki nema að fara í ísbíltúr eða út að borða stöku sinnum.
„Við þrífumst mjög vel í óreglulegum vinnutíma þar sem okkur finnst gaman að gera svo margt, þannig það er fullkomin blanda,“ segir Sara.


Hægt og rólega sá ég að maður getur alltaf gert það sem maður ætlar sér
Hreyfing orðin sameiginlegt áhugamál
Aðspurð segir Sara hvað hafi aðalega breyst í þeirra sambandi eftir að þau byrjuðu saman er að hún náði að smita Ása af hreyfiþörf: „Þegar við Ási kynntumst var hann svona týpa sem var í áskrift í ræktinni, þegar hann svo mætti vissi hann eiginlega ekkert hvað hann er að gera,“ segir Sara og hlær: „Þegar hann kynntist mér, sem er mikil ástríðukona fyrir hreyfingu, fór hann hægt og rólega að mæta hreyfa sig meira og er í dag að elska það að mæta í Boot Camp í Sporthúsinu.“
Sara segir þau fari stundum saman út að hlaupa en hreyfing sér allra helst hennar „me time“ og heilun: „Hreyfing hefur alla tíð verið hluti af mínu lífi og hefur mér lengi dreymt að vinna við þjálfun,“ segir Sara sem lét drauminn rætast í heimsfaraldrinum og stofnaði sitt eigið þjálfunarkerfi undir nafninu Zone.
„Ég fékk smá reality-check og langaði að prófa nýja hluti þar sem ég hafði ekki farið þessa hefðbundnu leið eins og vinkonur mínar að fara í skóla strax eftir menntaskóla. Ég sótti um í lögguskólanum eftir að ég missti vinnuna hjá Icelandair árið 2020 og fór að einbeita mér að markmiðasetningu og hreyfingu. Á þremur mánuðum komst í mjög gott form og komst inn. Ég kláraði fyrsta árið í lögguskólanum samhliða því að vinna í löggunni en fann fljótt að þetta átti ekki við mig og ákvað að hlusta á innsæið,“ upplýsir Sara ánægð með ákvörðunina.
„Hægt og rólega sá ég að maður getur alltaf gert það sem maður ætlar sér. Minn draumur var að gera allt sem ég vil og hafa marga bolta á lofti, ég er svolítið fiðrildi,“ segir hún og hlær.

