„Þetta var vika Strákanna okkar. Það er snilld að skipuleggja fjölþjóðlegt stórmót í janúar, þegar timburmenn hátíðarhalda standa sem hæst með tilheyrandi aukakílóum og blankheitum. Strákarnir okkar hafa komið, séð og sigrað og fengið þyngsta fólk til að hoppa upp úr sófunum í æsingi,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingman Samfylkingarinnar.

„Reyndar vorum við nokkur að velta fyrir okkur hvort það væri ekki örugglega brot á einhverjum alþjóðasamningum að láta sömu þjóð lenda í Covid smiti hvort tveggja í Eurovision og Evrópumóti, en ég hef ekki enn fundið þann lagabálk. En þeir hafa staðið sig frábærlega og ég hlakka til að horfa á leikinn í kvöld gegn Frökkum. Við stöndum með ykkur – alla leið.

Þetta var líka vikan þar sem ráðherrar ríkisstjórnar og þingmenn stjórnarflokkanna töluðu út og suður, flugu út og suður, tókust á í fjölmiðlum og skildu heilbrigðisráðherrann eftir með Svarta Pétur enn einn ganginn.

Þá var þetta enn ein vikan þegar íbúar á norðanverðum Vestfjörðum sátu fastir og komust hvergi vegna snjóflóða í Súðavíkurhlíð og Eyrarhlíð sem lokaði þjóðveginum í báðar áttir. Við stöndum með ykkur.

Síðast en ekki síst er þetta vikan okkar, áfram Ísland – áfram við öll!“