Í dag, laugardaginn 16. október klukkan 13, verður haldin smiðja í Bókasafni Garðabæjar, Garðatorgi. Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur leiðir smiðjuna, sem ætluð er allri fjölskyldunni.

Um smiðjuna, sem ber yfirheitið Prakkarar við langeldinn, segir Brynhildur: Landnámsöld var tími bardaga. Allir bændur áttu vopn sem þeir hikuðu ekki við að beita ef þeir meiddust eða móðguðust. Eða þannig lýsa Íslendingasögurnar þessu tímabili. Þessar sögur af víkingum og vopnaskaki voru sagðar við langeldinn, kynslóð fram af kynslóð, uns þær voru skráðar á bækur.

En hvernig var að vera barn á landnámsöld? Hvar eru sögurnar um krakkana sem fylgdust með átökunum eða lentu í eigin ævintýrum? – Þær verða til við langborðið í Bókasafni Garðabæjar.

Brynhildur rifjar upp fornar sögur og kemur börnunum af stað við að skapa eigin Íslendingasögur. Smiðjan er ókeypis.