Hljómsveitin Sólstafir tilkynnti nýverið útgáfu nýrrar plötu, sem ber heitið Endless Twilight of Codependent Love og kemur út 6. nóvember. Aðalbjörn Tryggvason, söngvari Sólstafa, segir að platan hafi verið í vinnslu í um eitt og hálft ár og það hafi hist vel á fyrir sveitina að meðlimir hennar hafi verið uppteknir við plötugerð og barneignir á meðan heimsfaraldurinn stendur yfir. Hann segir að það skemmtilegasta við að vera í hljómsveit sé að vita aldrei hvað kemur út úr því að hittast og töfra eitthvað fram með félögunum.

Aðalbjörn býr einn í miðbæ Reykjavíkur, en hann er nýbakaður faðir og barnsmóðir hans býr annars staðar með barni þeirra og syni sínum. „Ég eyði miklum tíma með þeim og undanfarið hef ég verið í dagvinnu við að smíða, þannig að ég hef mætt í vinnu sjö á morgnana, fer svo og eyði tíma með stelpunni og kem heim um tíu á kvöldin,“ segir hann.

Aðalbjörn talar líka inn á teiknimyndirnar Bubbi byggir og Sammi brunavörður. „Það er skemmtilegt aukastarf en þetta er erfiðara en maður heldur,“ segir hann. „Ég er til dæmis að talsetja með Ladda og Steini Ármanni og þeir eru svo mikil „legend“ að maður á aldrei séns í að vera eins góður.

En ég er kominn í frí frá smíðavinnunni og er farinn að sinna Sólstöfum. Nú hefst kynningarstarfið fyrir plötuna og í næstu viku er ég að fara í þrjú til fjögur viðtöl á dag. Þó að platan komi ekki út fyrr en í nóvember þá er líka alls konar vinna sem fylgir því að gefa út smáskífurnar og við þurfum að græja ólíkar útgáfur af plötunni og plötuumslög fyrir þær. Platan kemur út á geisladisk, vínyl, kassettu og í svaka fínum kassa úr svörtu leðurmixuðu flaueli. Síðasta plata, Berdreyminn, var gefin út í trékassa og við höfum gert alls konar, klakabox, fána og ég veit ekki hvað. Þannig að ég er í skrifstofuhljómsveitarvinnu, sem ég skráði mig nú reyndar aldrei í,“ segir Aðalbjörn léttur.

Þyngri áhrif laumast inn

Aðalbjörn hlustar minna á tónlist í frítímanum en áður. „Eftir að ég varð flakkandi tónlistarmaður sem spilar kannski á 200 tónleikum á einu ári hefur þetta minnkað. Ef ég er heima hlusta ég á dót eins og Thin Lizzy, Neil Young og Townes Van Zandt, en þegar ég fer í ræktina tek ég oft einhverja plötu fyrir. Til dæmis gamlar dauðarokksplötur sem ég hef ekki hlustað á lengi eða einhverja nýja svartmálmsplötu,“ segir hann. „Ég er líka með annað verkefni, sem er Crust punk-hljómsveit og hef verið í miklum rannsóknum fyrir það í eitt til tvö ár.

Aðalbjörn segir að nýja platan hafi verið í vinnslu í um eitt og hálft ár og hann sé mjög sáttur við hana. Fyrsta lagið er komið út og heitir Akkeri, en það er von á tveimur öðrum smáskífum fyrir útgáfu plötunnar.

Eftir að hafa gert svona þunga Crust punk-plötu og öskrað aðeins meira laumaðist smá af þeim fíling á nýju Sólstafaplötuna, það er meira um öskur en hefur verið á síðustu þremur plötum. Í fyrra túruðum við líka í tilefni af tíu ára afmæli plötunnar Köld og spiluðum hana í heild um alla Evrópu,“ segir Aðalbjörn. „Þá enduruppgötvaði ég ást á því að spila þyngri tónlist á sviði. Það var mjög gaman að taka hraðari lög og svo erum við líka svo miklu meiri fagmenn núna. Við erum með betri græjur, okkur eigið starfsfólk og erum ekki lengur fullir að spila. Þetta var öðruvísi.

Svo komum við á æfingar og þá koma út þyngri riff og öðruvísi hugmyndir. Það er svo fyndið hvernig allar upplifanir og allt sem þú gerir hefur áhrif á einn eða annan hátt. En á sama tíma og ég er að fá þyngri áhrif er Sævar gítarleikari bara að stúdera Pink Floyd og hann kemur inn með allt aðrar áherslur.“

Þrjár dauðadrukknar eiginkonur

Sólstafir hafa náð miklum árangri á erlendum vettvangi og Aðalbjörn þakkar það þrautseigju fyrst og fremst. „Það og ást á því sem við erum að gera. Verðlaunin eru skrítin, við slógum aldrei í gegn á einni nóttu og urðum ríkir og frægir. Þetta hefur verið mjög hæg þróun, en við höfum alltaf verið á uppleið og það hefur haldið okkur að verki. Það eru komin tíu ár síðan við fórum að ferðast um heiminn, en hin tíu árin vorum við að spila í bílskúr í Breiðholti eða fullir á Grand Rokk tvisvar á ári. Þannig að þetta er svona tvískipt.“

Hann segir að í gamla daga hafi verið mikið fyllerí í kringum hljómsveitina, en nú drekkur bara einn í sveitinni og það mjög hóflega. „Þetta er allt annað. Við vorum komnir út á hálan ís þegar brennivínsneyslan var sem öfgafyllst. Þetta var eins og að eiga þrjár eiginkonur sem eru dauðadrukknar og að rífast á hverjum degi. Það nennir því enginn.“

Eins og Ísland í stríðinu

Aðalbjörn segir að Sólstafir hafi verið heppnir í heimsfaraldrinum. „Við erum svolítið eins og Ísland í seinni heimsstyrjöld, það eru margir sem hafa það slæmt, en ekki við. Við vorum búnir að ákveða að nota tímann í plötugerð og barneignir og það hægðist á öllu,“ segir hann. „Ég eignaðist barn í apríl og Hallgrímur trommari eignaðist son í byrjun júlí, þannig að við þurftum ekki að aflýsa neinum tónleikum, þó að tónlistarhátíðum sem við áttum að spila á hafi reyndar verið aflýst.

Það hefði komið tónleikaferðalag núna í haust, en það er allt lokað og það þýðir ekkert að æsa sig yfir því,“ segir Aðalbjörn. „Það er kaldhæðnislegt að þetta var svona vel tímasett, þetta hefði getað verið miklu verra. En það var auðvitað skrítið að eignast barn í miðjum heimsfaraldri og það var leiðinlegt að það mátti enginn fara á spítalann. En við getum ekki kvartað.“

Ekkert eitt lag sem lýsir plötunni

„Það er eitt og hálft ár síðan við byrjuðum að semja nýju plötuna, en langmest gerðist síðustu fjóra mánuðina,“ segir Aðalbjörn. „Ég er mjög sáttur við hana. Það eru mörg góð lög á henni og þau er mismunandi, það er ekkert eitt lag sem lýsir henni.

Nýjasta plata Sólstafa heitir Endless Twilight of Codependent Love og hún kemur út 6. nóvember næstkomandi.

Það er aldrei neitt planað þegar við semjum. Við hittumst bara til að fara að gera plötu og sjáum hvað gerist. Einn daginn kemur einhver með hugmynd og svo verður það eitthvað gott. Þetta er kannski það skemmtilegasta við að vera í hljómsveit, einhvers konar töfrar eiga sér stað þegar þú ert að galdra með vinum þínum. Þú veist ekkert hvað kemur.“

Fyrsta lagið af nýju plötunni er komið út og heitir Akkeri. Von er á tveimur öðrum smáskífum fyrir útgáfu plötunnar. „Þetta er fyrsta lagið á plötunni og ef það er nógu sterkt til að opna plötuna er það nógu sterkt til að vera fyrsta smáskífan,“ segir Aðalbjörn. Hann segir að nokkur lög á plötunni hafi verið í uppáhaldi hjá sér, en lagið Rökkur standi líklega upp úr. „Það er mjög öðruvísi, smá Nick Cave- fílingur í því. Ég get hlustað á þetta núna, en svo get ég ekki hlustað á tónlistina okkar þegar við erum búnir að fara með hana á tónleikaferðalag. Þetta skemmist eiginlega, á skrítinn hátt. Þegar ég er búinn að spila eitthvað 700 sinnum tengi ég bara við „live“ útgáfuna, en ekki útgáfuna sem er á plötunni.“

Kunna lögin ekki

Aðalbjörn er ekki viss hvernig kynningarstarfinu fyrir nýju plötuna verður háttað. „Við héldum stutt streymi fyrir blaðamenn um daginn sem gekk ágætlega, en við þurfum líka að læra að spila plötuna áður en við getum haldið tónleika. Við kunnum ekki lögin á þessari plötu,“ segir hann. „Við semjum svo mikið svo hratt og það gerist mikið í einu. En svo tökum við eitt lag fyrir í einu og lærum það. Það hefur alltaf verið þannig. Ef við ætlum að fara að kynna þetta lærum við eitt eða tvö lög og skellum svo gömlum slögurum með. Kannski gerist það á næstunni, annars bíður þetta bara til næsta árs.

Það er mikið talað um það í tónleikaheiminum hvort heimurinn verði tilbúinn fyrir stórar tónlistarhátíðir næsta sumar. En fólk heldur í vonina,“ segir Aðalbjörn. „Þegar allt opnar aftur verður flóð. Það verða allir staðir bókaðir alla daga og samkeppnin verður svo hörð að það verður ringulreið, því fólk á ekki endalausa peninga til að ferðast og fara á tónleika.

Svo er líka spurning hvaða hátíðir og tónleikastaðir lifa þetta af, það er mikil óvissa,“ segir Aðalbjörn. „En ekkert er ómissandi. Ef Wacken fer á hausinn kemur bara Spracken árið eftir. Kirkjugarðarnir eru nú yfirfullir af ómissandi fólki.“