Rapparinn Birnir og poppguðinn Páll Óskar Hjálmtýsson gáfu í dag út myndband við smellinn Spurningar, sem gefið er út af plötuútgáfunni Sticky Records. Óhætt er að fullyrða að erfitt sé að toppa gleðisprengju af þessu tagi en Palli og Birnir fara báðir á kostum í nýja myndbandinu.
Lagið hefur verið lengi í bígerð að sögn Páls Óskars, yfirleitt kallaður Palli. „Við skutum myndbandið í sumar og tókum lagið upp í nóvember 2019.“ Eftir að búið var að taka upp myndbandið tóku samstarfsmennirnir sameiginlega ákvörðun um að hinkra með útgáfuna.
Smjörþefur af sumrinu
„Við vildum ekki gefa lagið út árið 2020. Viðspyrnuárið 2021 passar þessu lagi mun betur,“ segir Palli spenntur. Hlustendur geti nú fengið smjörþefinn af því sem koma skal í sumar. „Þetta er nákvæmlega það sem þjóðin þarf núna!“
Palli segir samstarfið hafa gengið eins og í sögu. Lagið er pródúserað af Þormóði Eiríkssyni og myndbandinu er leikstýrt af Magnúsi Leifssyni. „Þetta var alveg dásamleg draumaferna. Þormóður hefur náttúrulega stjórnað upptökum allra helstu poppsmella síðustu ára og Magnús Leifsson er alger risi í þessum heimi.“

Palli er ljósið í myrkrinu
Í myndbandinu birtist poppguðinn rapparanum Birni eins og ljós í myrkrinu. Palli segir það vera undir áhorfendum komið að túlka hvort hann gegni hlutverki verndarengils, samvisku Birnis eða sé jafnvel hliðarsjálf rapparans.
„Hvað sem ég er í myndbandinu þá fer ég auðvitað ekki neitt án þess að það elti mig dansarar. Þeir poppa alltaf upp,“ segir Palli hlægjandi. Fylgdarlið Palla eru hinir vinsælu diskódansarar sem stíga æsandi dans í takt við tónlistina.
Goðsögnin segir mikið glens og gaman hafa fylgt upptökum. „Það voru ófá hlátursköst á setti.“
Öskursungið í kjötheimum
Landsmenn geti nú dillað sér aftur í gang í takt við nýja smellinn. Palli kveðst vonast til þess að samfélagið fari bráðlega í fyrr horf. „Ég ætla að vona að þessi þjóð veðri sprautuð í bak og fyrir og bólusett sem fyrst.“ Því fyrr sem það gerist því betra.
„Þá verður hægt að dansa við lagið og öskursyngja það í kjötheimum.“