Rapparinn Birnir og popp­guðinn Páll Óskar Hjálm­týs­son gáfu í dag út mynd­band við smellinn Spurningar, sem gefið er út af plötuútgáfunni Sticky Records. Ó­hætt er að full­yrða að erfitt sé að toppa gleði­sprengju af þessu tagi en Palli og Birnir fara báðir á kostum í nýja mynd­bandinu.

Lagið hefur verið lengi í bí­gerð að sögn Páls Óskars, yfir­leitt kallaður Palli. „Við skutum mynd­bandið í sumar og tókum lagið upp í nóvember 2019.“ Eftir að búið var að taka upp mynd­bandið tóku sam­starfs­mennirnir sam­eigin­lega á­kvörðun um að hinkra með út­gáfuna.

Smjör­þefur af sumrinu

„Við vildum ekki gefa lagið út árið 2020. Við­spyrnu­árið 2021 passar þessu lagi mun betur,“ segir Palli spenntur. Hlust­endur geti nú fengið smjör­þefinn af því sem koma skal í sumar. „Þetta er ná­kvæm­lega það sem þjóðin þarf núna!“

Palli segir sam­starfið hafa gengið eins og í sögu. Lagið er pródú­serað af Þor­móði Ei­ríks­syni og mynd­bandinu er leik­stýrt af Magnúsi Leifs­syni. „Þetta var alveg dá­sam­leg drauma­ferna. Þor­móður hefur náttúru­lega stjórnað upp­tökum allra helstu popp­smella síðustu ára og Magnús Leifs­son er al­ger risi í þessum heimi.“

Páll Óskar bregst engum í ljósbleiku jakkafötunum sínum.
Mynd/Skjáskot

Palli er ljósið í myrkrinu

Í mynd­bandinu birtist popp­guðinn rapparanum Birni eins og ljós í myrkrinu. Palli segir það vera undir á­horf­endum komið að túlka hvort hann gegni hlut­verki verndar­engils, sam­visku Birnis eða sé jafn­vel hliðar­sjálf rapparans.

„Hvað sem ég er í mynd­bandinu þá fer ég auð­vitað ekki neitt án þess að það elti mig dansarar. Þeir poppa alltaf upp,“ segir Palli hlægjandi. Fylgdar­lið Palla eru hinir vin­sælu diskó­dansarar sem stíga æsandi dans í takt við tón­listina.

Goð­sögnin segir mikið glens og gaman hafa fylgt upp­tökum. „Það voru ófá hláturs­köst á setti.“

Öskursungið í kjöt­heimum

Lands­menn geti nú dillað sér aftur í gang í takt við nýja smellinn. Palli kveðst vonast til þess að sam­fé­lagið fari bráð­lega í fyrr horf. „Ég ætla að vona að þessi þjóð veðri sprautuð í bak og fyrir og bólu­sett sem fyrst.“ Því fyrr sem það gerist því betra.

„Þá verður hægt að dansa við lagið og öskur­syngja það í kjöt­heimum.“