Risto Izev hefur starfað sem húsvörður á Hlíðarenda í sex ár og er að mati flestra algerlega ómissandi starfskraftur sem kann að láta þjónustuglaðar hendurnar standa fram úr ermum.

Risto Izev er ættaður frá Strumica í Makedóníu og hefur búið á Íslandi í 18 ár. Hann hóf störf sem húsvörður í hlutastarfi á Hlíðarenda fyrir sex árum eftir að sérstaklega hafði verið mælt með honum í starfið. „Það var bara fólk sem þekkti til mín sem mælti með mér og sagði að ég yrði frábær í starfið,“ segir Risto. „Ég er mjög ánægður hér á Hlíðarenda. Hér er alltaf frábær stemning, nóg að gera og mikið um að vera í húsinu á kvöldin og yfir helgarnar. Það er alltaf nóg af fólki í húsinu en þá eru yngri flokkarnir að spila leiki, taka þátt í mótum og síðan eru Domino’s- og Pepsi-deildin.“

Eins og fimm manneskjur

Hlutverk húsvarðarins er gífurlega krefjandi og fjölþætt enda er Risto eini húsvörðurinn á vakt í húsinu á kvöldin. „Ég þarf eiginlega að vera eins og fimm manneskjur,“ segir hann hlæjandi, „þegar kallað er á mig úr öllum áttum og síminn hringir á meðan ég er að redda hinu og þessu.“ Risto segist hafa verið snöggur að koma sér inn í starfið þrátt fyrir að hafa aldrei unnið sem húsvörður áður. „Ég er þannig gerður að ég vil alltaf gera vel við alla og ef eitthvað kemur upp, þá er ég snöggur að finna lausn á vandanum og hleyp til ef vantar upplýsingar og fleira. Ég er á vöktum eftir klukkan fjögur á daginn og um helgar. Þá vinn ég í sjoppunni sem er líka afgreiðslu- og upplýsingamiðja hússins. Ég svara þar öllum fyrirspurnum, ef leikmenn koma til mín ef þá vantar til dæmis að vita eitthvað, í hvaða sal æfingar eða leikir eru og fleira. Þá er ég líka reiðubúinn ef foreldra vantar aðstoð með börnin sín sem eru kannski á æfingu í húsinu, eða ef fólk hefur fyrirspurnir um leiki sem eru á döfinni og fleira. Þá undirbý ég alla leiki sem spilaðir eru á mínum vöktum, raða öllum í klefa sem er oft flókið þar sem mikill fjöldi leikmanna er í húsinu um helgar. Síðan er margt margt fleira sem gera þarf svo allt gangi smurt fyrir sig. Ég er svo alltaf seinastur út úr húsi á kvöldin og læsi Hlíðarenda á eftir mér.“