Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta keppir lokaleik sinn í D-riðli á Evrópumóti kvenna á Englandi á mánudag þegar þær mæta sterku liði Frakklands. Fjöldi Íslendinga hefur fylgt liðinu til Manchester og stemningin meðal stuðningsmanna hefur verið frábær. Meðal þeirra sem hafa stutt við bakið á liðinu eru kærustuparið Dýrfinna Arnardóttir, fyrrverandi landsliðskona í körfubolta og systir Guðrúnar Arnardóttur, varnarmanns íslenska liðsins, og Kári Jónsson, landsliðsmaður í körfubolta.

Um eitt og hálft ár er liðið síðan landsliðið tryggði sér sæti á EM á Englandi en vegna heimsfaraldursins frestaðist EM 2021 um eitt ár. Dýrfinna og Kári, ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum Guðrúnar, eru því búin að bíða lengi eftir þessari stund að sögn Dýrfinnu. „Þetta er nokkuð stór hópur sem fylgir henni út og það má eiginlega segja að undirbúningur hafi hafist strax og ljóst var að liðið hafði tryggt sér miða á EM. Við vissum þá að öll fjölskyldan myndi fara út og því hefur ríkt mikill spenningur fyrir þessari ferð.“

Íslendingar alls staðar

Þetta er fyrsta stórmót þeirra beggja sem áhorfendur. „Stemningin fyrir fyrsta leikinn gegn Belgíu var ótrúlega góð. Spennan var mikil og við fundum fyrir smá fiðringi í maganum. Fan zone-ið fyrir leikinn var mjög vel heppnað enda var frábært veður og mikið stuð á stuðningsmönnum. Stelpurnar voru virkilega flottar í leiknum gegn Belgíu og eiginlega bara óheppni að hafa ekki náð að taka sigur úr honum, fannst okkur,“ bætir Kári við.

Það hefur ekki farið fram hjá þeim að Manchester er mikil fótboltaborg. „Það er mjög góð stemning í borginni, fullt af fólki í fan zone-inu hjá sínum liðum og leikirnir eru sýndir á flestum börum í borginni. Svo er mjög mikið af Íslendingum hérna sem er skemmtilegt, við rekumst á Íslendinga á nánast öðru hverju götuhorni. Við kunnum heldur betur að styðja okkar fólk eins og hefur sést, það er til fyrirmyndar mundum við segja.“

Manchester komið á óvart

Lífið í Manchester snýst þó ekki bara um fótbolta þessa dagana. Á milli leikja er auðvitað margt í boði að þeirra sögn. „Þetta er fyrsta skiptið okkar í Manchester þannig að við erum búin að skoða okkur um. Borgin hefur komið okkur mikið á óvart sem er bara ánægjuleg viðbót. Við höfum kynnst matarmenningunni hér og í raun aðeins sögu borgarinnar líka í skipulögðum matartúr um borgina sem var mjög áhugavert.

Einnig fékk fjölskyldan að verja degi með Guðrúnu. Þá var mikið fjör og reynt að dreifa huganum frá fótboltanum, sem er líka nauðsynlegt á svona stórmóti.“

Leikurinn á fimmtudag gegn Ítölum var erfiður en stemningin í stúkunni var þó frábær að Dýrfinnu og Kára sögn. „Hópurinn mætti snemma í fan zone-ið og gíraði sig vel upp fyrir leikinn. Dagskráin þar var virkilega flott og svo þrammaði hópurinn saman á leikvanginn.

Auðvitað var spennan mikil fyrir leik og eftir frábæra byrjun hjá stelpunum, þegar Karó skorar geggjað mark snemma, trylltist allt í stúkunni. Ítalir tóku svolítið yfir leikinn í seinni hálfleik, fannst okkur, en við gerðum virkilega vel að halda út og berjast. Það er samt ekki hægt að neita því að það var komið smá stress í stúkuna undir lokin.“

Hörku verkefni

Lokaleikurinn á mánudag gegn Frökkum verður erfiður en þau eru hæfilega bjartsýn. „Frakkarnir eru klárlega með gríðarlega sterkt lið og þetta verður hörku verkefni en við höfum fulla trú á að liðið geti náð í góð úrslit úr þeim leik. Franska liðið er búið að tryggja sig upp úr riðlinum þannig að mögulega koma þær aðeins slakari inn í þennan leik og vonandi getum við nýtt okkur það. Ef íslensku stelpurnar einbeita sér að sínum leik og gefa allt í þetta, þá getur allt gerst. Við erum að minnsta kosti mjög spennt fyrir leiknum og bjartsýn á góð úrslit.“