Theodór Már Guðmundsson vakti nokkra athygli þegar fréttastofa Ríkisútvarpsins náði tali af honum aðfaranótt sunnudags en hann var þá að vinna sem öryggisvörður á bráðamóttöku Landspítala þegar úrslit Alþingiskosninganna voru að skýrast.
Klippunni hefur nú verið deilt víða á samfélagsmiðlum, til að mynda á YouTube og TikTok, og vekur það þar athygli hversu hávaxinn Theodór er samanborið við aðra starfsmenn spítalans sem stóðu honum við hlið en hann er tveir metrar og átta sentímetrar á hæð.
„Það er bara gaman að gleðja,“ segir Theodór sjálfur um málið í samtali við Fréttablaðið en hann sá klippuna þegar hún var sýnd í kosningasjónvarpinu í kringum klukkan fjögur um nóttina.
Nokkrir sem skrifuðu ummæli við klippuna bentu á það að það hafi tekið langan tíma fyrir myndatökumanninn að færa sig úr hæð hinna starfsmannanna og í hans hæð. „Já einmitt, hann sagði að hann ætlaði að gera þetta svona,“ segir Theodór léttur í bragði.
„Ég vissi ekki að þetta væri svona fyndið, mér fannst það ekki, en svo eru bara allir að hlæja voða mikið að þessu, þannig það er bara gaman að geta látið fólk hlæja.“
Hæðin vekur reglulega athygli
Aðspurður um hvort að hæð hans veki reglulega athygli segir Theodór svo vera. „Ég lendi oftast í því nokkrum sinnum á dag, þetta einhvern veginn virðist vera eitt af því sem skilgreinir einhvern veginn hver ég er,“ segir Theodór.
Það er þó mikið meira á bakvið Theodór sem er 27 ára og býr á höfuðborgarsvæðinu ásamt fjórum kisum. Hann er í aflraunum og segir að það sé í mestum forgangi í lífi sínu að æfa og verða sífellt betri.
Hann hefur keppt á hinum ýmsu mótum í aflraunum um land allt, þar á meðal Sterkasti maður Íslands. Þá er hann einnig og virkur á samfélagsmiðlum á borð við Instagram þar sem hann leyfir fólki að fylgjast með framförum sínum.