Hraðtískurisar, eins og H&M, Zara og Topshop, ýta undir óhólflega ofneyslu á tískuvarningi sem ætti hreint ekki að vera eins og hver önnur neysluvara sé litið til mannréttinda og umhverfissjónarmiða,“ segir Sólveig Adora sem vill vekja neytendur til vitundar og umhugsunar um meðvituð fatakaup.

„Það vita til dæmis ekki allir að hraðtískurisinn H&M á einnig hraðtískukeðjurnar Cos, Monki og Weekday sem opna verslanir á Íslandi á næstu dögum, og verslanakeðjuna & Other Stories sem er vinsæl hjá Íslendingum á ferðalögum í útlöndum,“ segir Sólveig.

Hún segir siðferðisþröskuldinn lágan við fjöldaframleiðslu hraðtískurisanna.

„Fyrir utan þá staðreynd að hraðtískukeðjur stela hugmyndum annarra hönnuða og gera úr þeim ódýrar eftirlíkingar, vanvirða þær mannréttindi og dýravernd. Þess vegna styðja neytendur ómeðvitað slæmt viðskiptasiðferði þegar þeir versla í þessum búðum.“

Sólveig segir þó ekki við neytendur eina að sakast.

„Það er strembið að vera neytandi þegar ógjörningur er að komast að sannleikanum á bak við framleiðsluhættina, því allt er svo falið. Mitt ráð væri að fara aldrei aftur inn í hraðtískuverslun en þá að muna hvað felst í lága verðinu og lélegu gæðunum. Það eitt er stórt skref í rétta átt. Það býr ótrúlegur kraftur í fjöldanum og því fleiri sem sniðganga hraðtískurisana, því sterkari verða skilaboðin. Því þarf að gera neytendum ljóst að þeir eiga kröfu um gegnsætt ferli. Það kæra sig fæstir um að kaupa vörur sem unnar voru í barnaþrælkun eða með aðferðum sem valda óafturkræfri mengun fyrir náttúruna, en hendur neytenda eru bundnar þegar skortir gegnsæjar heimildir um framleiðsluferlið og hvort ódýrt vinnuafl var notað til að búa til flíkina.“

Verð sem stenst ekki skoðun

Sólveig starfar í hringiðu tískubransans í heimsborginni Lundúnum og hefur meðal annars unnið fyrir tískuhönnuðina Calvin Klein, Rihard Malone og Hillier Bartley.

„Sem hönnuður þarf ég að gera mínar eigin rannsóknir til að tryggja gott framleiðsluferli og efnanotkun þar sem hvorki eiturefni né barnaþrælkun koma við sögu. Öll þurfum við að hugsa fatakaup upp á nýtt og líta á þau sem fjárfestingu í vönduðum efnum sem endast í stað þess að kaupa lélegar vörur á spottprís. Auðvitað þykir flestum kostur að geta keypt tískufatnað fyrir lítið fé en fylgir því góð samviska þegar upp er staðið og það er svona dýru verði keypt?“ spyr Sólveig.

Hún veltir fyrir sér hvernig bolur úr verslun tískurisanna geti kostað aðeins 795 krónur.

„Sú verðlagning stenst auðvitað enga skoðun þegar horft er til efnisnotkunar, vinnu og flutnings. Skýringin er einfaldlega „made by children for children“ eins og sagt er í þessum bransa og ég vil að fólk sé meðvitað um þann veruleika. Í mínum huga eru mannréttindi og jörðin mun meira virði en bolur sem kostar 795 krónur. Við þurfum að hætta fatasóun og einnota hugsunarhætti. Spörum frekar ögn lengur og kaupum vandaðan, endingargóðan fatnað þar sem hvorki hefur verið unninn skaði á náttúrunni né vinnuafl verið misnotað í framleiðsluferlinu.“

Stjórnvöld setji skýrar reglur

Fataiðnaðurinn er annar mest mengandi iðnaður heims.

„Ekki síst vegna þess hversu mikið af fatnaði fer í landfyllingar og brennslu. Auk þess þarf mikið vatn til að lita einn bol og við litunina eru notuð eitruð efni sem fara út í jarðveginn og aftur inn í líkamann þegar við borðum mat úr sama jarðvegi,“ útskýrir Sólveig sem vill sjá stjórnvöld setja strangari lög og reglur þegar kemur að fataframleiðslu.

„Rétt eins og gert hefur verið með banni á plastpokum er hægt að banna eitraða fataliti og flíkur sem eru seldar á verðlagi sem stenst ekki skoðun sé horft til lágmarkstekna. Þá þarf að sýna fram á hvar og hvernig varan var framleidd. Neytendur verða að hafa gegnsæi til að geta keypt skaðlausan fatnað með góðri samvisku; ellegar versla þeir áfram í blindni. Þetta geta hraðtískukeðjurnar sjálfar lagað, hönnuðir og stjórnvöld með strangara regluverki og sé hraðtískukeðjum hleypt inn í landið ætti að gera skýlausa kröfu um að allt í framleiðsluferlinu sé löglegt.“

Hvað getum við gert? Hvað ætti að forðast?

Hér gefur Sólveig heilræði og upplýsingar um fataiðnaðinn sem er annar mest mengandi iðnaður heims vegna óhóflegrar neyslu á ódýrum fatnaði sem fer fljótt í ruslið og endar í urðun.

Hvað ætti að hafa í huga?

Er notast við lífræna bómull? Það eru mörg vandamál tengd við bómullarframleiðslu, þar á meðal barnaþrælkun og víðtæk notkun á eitruðum varnarefnum (e. pesticides). 100% lífræn bómull er málið!

Fairtrade, hver gerði fötin mín? Margar stórkeðjur treysta á ólaunað eða mjög lágt launað vinnuafl sem vinnur langan vinnudag í hræðilegum aðstæðum. Gott dæmi er Rana Plaza, fataverksmiðja á Indlandi, sem hrundi árið 2010 með þeim afleiðingum að 1.100 manns létu lífið. Þar voru framleidd föt fyrir Primark, Mango, El Corte Ingles og Benetton sem allt eru hraðtískurisar. Hvernig gæti bolur annars verið á 795 krónur ef ekki er eitthvað gruggugt á bak við framleiðsluna á honum? Með því að kaupa vörur sem eru „fair­trade“, hvort sem það er fatnaður eða matur, er tryggt að manneskjan sem gerði vöruna fái borgað fyrir hana og um leið sniðgengur þú þrælahald.

Forðastu að kaupa leður og feldi. Yfir ein milljón dýra er drepin á ári hverju til þess eins að komast yfir feld þeirra eða skinn. Þetta er ekki bara spurning um hræðilega meðferð á dýrum heldur hefur þetta slæm áhrif á umhverfið og dýralíf yfirhöfuð.

Eru eitruð efni notuð við framleiðsluna? Í ódýrri fataframleiðslu, eins og hjá hraðtísku­risum, er auðvitað notast við ódýr efni í framleiðslu, hvort sem það er skordýraeitur, litarefni eða annars konar varnaefni. Þau eru virkilega skaðleg umhverfinu þar sem þeim eru skolað út í jarðveginn en þau eru einnig mjög skaðleg fyrir notendur flíkanna.

Forðist að kaupa flíkur úr efninu viscose. Viscose er hálfgerviefni sem hefur verið vinsælt í fataframleiðslu hjá hraðtískurisum síðustu ár. Framleiðsla á viscose-efni veldur mikilli vatnsmengun sem hefur orsakað mikinn umhverfisskaða og mannréttindaskaða.

Forðist að kaupa flíkur úr pólýester. Við framleiðslu á pólýester er notað gríðarlegt magn jarðolíu. Pólýester er því plastefni, það er mest notaða efnið í fataframleiðslu og hefur beina tengingu við mengun sjávar.

Hvað getum við gert núna?

Notaðu fötin sem þú átt! Ekki henda þeim eftir stutta notkun. Fatnaður er fjárfesting en ekki neysluvara.

Þú ert meira virði en að kaupa ódýra draslflík sem endist stutt og verður fljótt bæði ljót og slitin. Vandaðu valið á því sem þú kaupir í fataskápinn og ekki fylgja trendum. Skapaðu heldur þinn persónulega fatastíl.

Kauptu notuð föt eða fatnað frá hönnuðum sem þú treystir og veist hvaðan fatnaðurinn kemur.

Ef þú þarft að losa þig við föt, farðu þá með þau í endurvinnslu, gefðu flíkina áfram eða gerðu eitthvað nýtt úr henni.

Það sterkasta sem þú getur gert sem neytandi er að kaupa minna, vanda valið, eiga lengur og endurnýta.