Þórunn Högna, stílisti og fagurkeri með meiru, hefur ávallt gaman af því að hafa fallegt í kringum sig og sér fegurðina í hverri árstíð, hátíða- og tyllidögum og viðburðum. Þá fer hún af stað og undirbýr eitthvað dásamlegt, hvort sem það eru kræsingar, umgjörð eða skreytingar.

Missir sig í skreytingum

„Ég hef alla tíð haft gaman af því að nostra í kringum í mig en ástríðan fyrir matar- og kökukræsingum kviknaði fyrir um það bil tíu árum. Og magnaðist upp eftir að ég eignaðist Leuh Mist, þá fór ég alveg alla leið og hef eiginlega síðan þá misst mig í öllum afmælum og öðrum veislum. Ég spái mikið í hvernig ég ætli að stílisera bæði matinn og annað borðskraut og er alltaf með eitthvað þema. Ég fer bara á flug þegar ég byrja, ég hreinlega elska þetta,“ segir Þórunn.

Til upplýsingar fyrir þá sem vilja setja upp svona fallegt borð þá fékk Þórunn blómin í Blómavali, diskar, servíettur, rör, glös fyrir blóm, krukkur og blómalengjur eru frá Confettisisters og bakkarnir frá Magnolia. Fremst er snakk í bréfpokum.

Þórunn útbjó dásamlegt nesti sem er fullkomið fyrir hvaða pikknikk-ferð sem er þegar metnaðurinn á að vera við völd. „Fyrir þetta pikknikk á pallinum ákvað ég að vera með svart, hvítt og náttúrlegt og allar kræsingar á svörtum bökkum og kökudiskum.“

Nesti í bíltúrinn

Yfir verslunarmannahelgina naut fjölskyldan samverustunda við hlaðborð kræsinga bæði í sveitinni sem og heima við. „Við vorum í sumarbústaðnum okkar, en síðan hittum við stórfjölskylduna í sveitinni okkar á Hörgslandi á Síðu og nutum saman. Svo þurfti líka að dytta að ýmsu heima og gott að fá svona langa helgi.“

Þórunn segist stundum undirbúa ljúffengt nesti til að njóta, fyrir bíltúrinn eða lengri ökuferð en þessa dagana sé það sumarbústaðurinn sem þau nýta sem mest fyrir stundir með kræsingar.

Ekta mömmu samlokur, með sætu sinnepi, skinku, gúrku og osti.

„Við förum ekki oft í „road trip“ núna, en gerðum meira af því áður en við eignuðumst bústaðinn. Þá var ég alltaf með eitthvað nesti í tösku. Oftast nær var stoppað við foss og borðað og notið.“

Þórunn deilir hér með lesendum sælkeranesti sem erfitt er að standast. Hér eru á ferðinni ljúffengir sælkeraréttir sem bornir eru fram á fallegan hátt fyrir bæði auga og munn. Það má með sanni segja að matur sé mannsins megin.

Beikonvafðar kokteilpylsur sem velt hefur verið upp úr tómatsósu hitta í mark hjá yngri kynslóðinni. Þær eru hitaðar á pönnu.
Þriggja hæða Nutella-kaka sem bráðnar í munni. Þórunn notaði þrjá svampbotna, einn lítra af rjóma, eina krukku Nutella-súkkulaði og skreytti og bragðbætti með jarðarberjum, bláberjum og brómberjum.
Girnilegar beyglur með Philadelphia-osti, hráskinku, basilíku og tómötum.
Syndsamlega ljúffeng píta með reyktum laxi, fersku dilli, kapers og rauðlauk.
Pestó-salat með tómötum, ferskri basilíku og mozzarella-osti.
Appelsínudjús og heilsusafi.