Narfeyrarstofa er elsta veitingahús Stykkishólms og fögnuðu þau 20 ára afmæli staðarins nú í byrjun júní. Fjölskyldan er samheldin og nýtur sín í rekstri staðarins. Hjónin hafa mikla ástríðu fyrir því sem þau eru að gera og staðurinn er þeirra hugarfóstur. „Við höfum mikinn áhuga á mat og matarmenningu ásamt hönnun en við hönnuðum sjálf Narfeyrarstofu eins og hún er í dag. Undanfarin ár höfum við tekið inn allt lambakjöt í heilu og unnið það þannig og Sæþór hefur kafað ofan í ræktun á sauðfé ásamt öllum ferlum sem því viðkemur. Við höfum t.d. þróað okkar eigið hangikjöt sem inniheldur mun minna saltmagn og fer mun betur í skrokkinn, bara svo eitthvað sé nefnt. Eins förum við rúnt alla daga til að sækja ferskt hráefni hjá fiskvinnslum hér í Stykkishólmi,“ segir Steinunn.

Narfeyrarstofa í Stykkishólmi er fallegt hús.

Stóðu á tímamótum

„Árið 2001 bauðst okkur að kaupa Narfeyrarstofu, sem var þá kaffihús, og þáverandi eigandi bjó á efri hæðinni. Við sjálf stóðum á tímamótum hvað vinnu varðar og slógum til, keyptum staðinn og breyttum honum í veitingahús. Við þurftum að gera talsverðar breytingar á staðnum. Fyrir 4 árum byggðum við síðan nýtt eldhús.“

Sæþór og Steinunn keyptu gamalt hús í Stykkishólmi þegar þau voru 19 ára og höfðu verið að gera það upp. „Við ákváðum að selja húsið til þess að geta keypt Narfeyrarstofu,“ segir Sæþór.

Sagan mikilvæg

Hvernig var þetta fallega nafn valið á staðinn?

„Í gamla daga í Stykkishólmi báru húsin ekki götuheiti heldur hétu nöfnum og voru þá oft kennd við eigendur eða einhver kennileiti. Húsið heitir Narfeyrarhús og er kennt við Guðmund sem kemur frá Narfeyri á Skógarstönd og byggði húsið fyrir Málfríði Möller, ekkju Möllers apótekara. Þegar fyrrverandi eigandi hússins opnaði kaffihús efndi hann til nafnasamkeppni og þar varð nafnið Narfeyrarstofa til.“

Bláskel með kryddsósu.

Ferskt hráefnið úr Breiðafirði

Aðalsmerki Narfeyrarstofu er að nýta allt það úrvals hráefni sem umhverfið og nærsveitin hefur upp á að bjóða. „Við búum við matarkistu Íslands. Breiðafjörðurinn gefur alveg einstakt hráefni, eins og hörpuskel, bláskel, sjófugl og egg. Vinsælustu réttirnir eru hörpuskelin, þorskurinn, bláskelin, sem er hágæða sælkerafæða, og íslenska lambið. Þorskhnakkinn er alltaf jafn vinsæll. Frá árinu 2015 höfum við verið að vinna með kjötafurðir þar sem íslenska lambið leikur stærsta hlutverkið. Við höfum fengið viðurkenningu íslenskra sauðjárbænda fyrir að vinna með rekjanlegt, ræktað lamb úr héraði. Við leggjum metnað okkar í að leita uppi gott íslenskt hráefni, lífrænt og vottað, sem við sækjumst eftir úr okkar nágrenni. Með allt þetta að leiðarljósi teljum við að markmiðum okkar sé náð og vonumst til að gestir okkar njóti matargerðarinnar.“

Þorskurinn er alltaf vinsæll enda nýveiddur og góður.

Leyndarmál bak við velgengnina

„Við erum samrýnd fjölskylda og eigum auðvelt með að vinna saman. Börnin okkar hafa hvatt okkur, sem er dýrmætt, og lagt hart að sér til að hjálpa okkur að láta Narfeyrarstofu vaxa og dafna. Við höfum öll mikla ástríðu fyrir því sem við erum að gera. Við höfum líka verið alveg einstaklega heppin með starfsfólk sem hefur unnið hjá okkur í gegnum árin.“

Steinunn og Sæþór eiga tvö börn, Þorberg Helga, 28 ára matreiðslumann, og Anítu Rún, 25 ára, sem er að klára 3. árið í Osteopath-námi í London. Síðan er tengdadóttirin, Anna Lind, og barnabarnið Ágúst Heiðar.

Þau ljóstra hér upp uppskriftum að vinsælustu réttunum þeirra.

Hörpuskelin er borin fram á listilegan hátt.

Pönnusteikt hörpuskel með sætkartöflumauki og perlubyggi

Fyrir 4

1 sæt kartafla

u.þ.b. 1-2 tsk. íslenskt flögusalt

u.þ.b. 200 g perlubygg

1-2 hvítlauksgeirar, saxaðir

u.þ.b. ½ chili-aldin, saxað smátt

20-30 g smjör, ósaltað

u.þ.b. 50 g parmesanostur, rifinn

16-20 stk. hörpuskel, snyrt

Þegar hörpuskel er matreidd er mikilvægt að hreinsa hana vel og fjarlægja lítinn flipa sem hangir oft utan á henni, það er sin sem heldur henni inni í skelinni og verður mjög seig við eldun.

Hitið ofn í 200 °C. Bakið sæta kartöflu í u.þ.b. 1 klst. eða þar til hún er elduð í gegn. Látið kólna örlítið, takið hýðið utan af kartöflunni og maukið hana í matvinnsluvél þar til myndast hefur slétt mauk. Bragðbætið með salti. Sjóðið perlubygg samkvæmt leiðbeiningum á pakka og bætið 1 hvítlauksgeira og örlitlu chili-aldin út í vatnið. Takið byggið af hitanum, hrærið smjöri og parmesanosti saman við, bragðbætið með salti. Þerrið hörpuskelina, hitið pönnu með olíu og hafið á háum hita. Steikið hörpuskelina í u.þ.b. 1 mín. á hvorri hlið, blandið saman við hvítlauk og chili-aldin í lokin og sáldrið yfir salti.

Bláskel með kryddsósu

Fyrir 4

4 kardimommur

2 anísstjörnur

1 msk. kumminfræ

2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt

1 rautt chili-aldin, fræhreinsað og saxað smátt

1 laukur, saxaður smátt

olía, til steikingar

500 ml tómatar, maukaðir í dós

u.þ.b. 50 ml kókosmjólk

1-2 tsk. hunang

bláskel, fyrir 4

Við mælum með breiðfirskri bláskel þar sem hún hefur mikla holdfyllingu. Bláskelin á að opnast við eldun og hafið í huga að borða ekki bláskel ef skelin opnast ekki.

Steytið saman kardimommur, anísstjörnur og kumminfræ í morteli. Hitið víðan pott og hafið á miðlungsháum hita. Ristið kryddið í pottinum í 1-2 mín. þar til það byrjar að ilma, hér þarf að passa að kryddið brenni ekki.

Bætið olíu saman við ásamt lauk og eldið saman þar til laukurinn er orðinn glær. Bætið því næst hvítlauk og chili-aldin saman við og eldið í u.þ.b. 1 mín.

Hellið tómötum og kókosmjólk saman við blönduna, lækkið örlítið undir pottinum og látið malla í u.þ.b. 30 mín. eða þar til sósan hefur soðið svolítið niður. Bragðbætið með hunangi.

Hitið stóran pott sem til er á lok og hafið á vægum hita. Setjið bláskelina út í pottinn ásamt vel af kryddsósunni, setjið á lok. Hristið pottinn af og til og eldið bláskelina í nokkrar mín. eða þar til hún hefur opnast. Það er ekki nauðsynlegt að setja vökva með bláskelinni þegar hún er elduð þar sem hún losar frá sér töluverðan vökva við eldun. Hristið pottinn af og til í eldunarferlinu.