Ragnheiður Erla Björnsdóttir tónskáld og einn skipuleggjenda þáttanna Saman í sóttkví, sem sýndir eru á Hringbraut, segir ákveðna vitundarvakningu á meðal listafólks um hvernig hægt sé að nýta streymi sem vinnutæki.

„Það verður gaman að sjá hvert tilraunirnar leiða okkur og hvort þetta muni hafa einhver raunveruleg áhrif á starfsumhverfi listafólks til framtíðar.“

Spjall á kaffihúsi varð að sjónvarpsviðburði

Daginn sem samkomubannið skall á hér á landi var Ragnheiður með vinkonum sínum á kaffihúsi. Mörg verkefna Ragnheiðar erlendis höfðu verið aflýst vegna kórónaveirunnar og voru vinkonurnar að ræða almenn áhrif ástandsins á sjálfstætt starfandi listafólk.

Ragnheiður átti að flytja tónverk á hátíð í Austurríki sem síðar var aflýst. Hún ákvað því að sleppa fluginu og vera áfram á Íslandi til að setja á svið viðburðinn í Tjarnarbíói.

Úr því varð til spennandi verkefni þar sem listafólk úr alls konar áttum gat komið saman til að flytja efni sem annars myndi ekki heyrast vegna samkomubannsins. Verkefnið er einnig fjáröflun fyrir flytjendur og leið til að vekja athygli á atvinnuumhverfi listafólks.

Nýtt listafólk og þaulreyndir reynsluboltar

„Viðbrögðin hafa verið frábær og ég held að það muni bara ágerast því við eigum eftir að sjá ýmsa snillinga koma fram í næstu þáttum,“ segir Ragnheiður í samtali við Fréttablaðið. Hún vonar að fólk heima í stofu skemmti sér vel og jafnvel uppgötvi nýtt listafólk.

Svavar Knútur mun stíga á stokk.

„Margir þeirra sem koma fram eru að frumflytja nýtt efni. Til dæmis Tendra, jazzdúó sem samanstendur af Marínu Ósk og Mikael Mána sem koma fram í kvöld. Þaulreyndir reynsluboltar munu einnig stíga á stokk þegar líður á þættina, eins og til dæmis hann Svavar Knútur. Svo vonast ég að sjálfsögðu til þess að áhorfendur muni styrkja listafólkið og halda áfram að fylgjast með þeim í framtíðinni.“

Tendra kemur fram í þættinum í kvöld.

Möguleikarnir endalausir

Ragnheiður segir að tæknin hafi ekki breyst með samkomubanni en nú sjái margir fleiri möguleika um hvernig hægt sé að nýta hana.

„Ég sé marga kollega mína, hérlendis og erlendis, vera að prófa sig áfram með form og uppsetningu í þeim fjölda sóttkvíartónleika sem á aðeins fáeinum vikum spruttu upp á síðustu vikum og eru nú aðgengilegir á samfélagsmiðlum. Það verður gaman að sjá hvert tilraunirnar leiða okkur og hvort þetta muni hafa einhver raunveruleg áhrif á starfsumhverfi listafólks til framtíðar.“

Hér fyrir neðan má sjá fyrsta þáttinn af Saman í sóttkví, sem var frumsýndur í síðustu viku. Annar þáttur verður í kvöld klukkan 20:00 á Hringbraut og einnig á viðburðarsíðu á Facebook.

Ragnheiður tekur þátt í viðburðinum og lærir öndunaræfingar hjá Kristrúnu Lárusdóttur Hunter.

Ragnheiður Erla Björnsdóttir er einn skipuleggjenda Saman í sóttkví en aðrir sem koma að þáttunum eru Ingibjörg Sædís, Laufey Haraldsdóttir og Ingunn Lára Kristjánsdóttir sem er blaðamaður á Fréttablaðinu.

Listafólk sem kemur fram í þáttunum eru:

Margrét Maack
Villi Netó
Svavar Knútur
Ásta
Stefán Ingvar
Tendra
Ævar Vísindamaður
Kimi Tayler
Þorvaldur S. Helgason
K.óla
Jono Duffy
Kristrún
Vísur & Skvísur

Verkefnið er gert í samstarfi við Hringbraut og Tjarnarbíó. Hægt er að styðja alla þá sem koma fram á þessum viðburði með því að leggja inn á reikninginn hjá Tjarnarbíói eða með því að hringja í símanúmerið 901 7115. Allir styrkir fara beint í vasa listafólksins.

Banki:
101-15-631393
Kennitala

590810-1180