Laufey Haraldsdóttir og félagar í leikhópnum Slembilukku opna geymslu allra landsmanna fyrir almenningi í Borgarleikhúsinu í desember, eftir að hafa leitað fanga og fyrirmynda í alvöru geymslum úti um allar trissur.

Laufey Haraldsdóttir hjá leikhópnum Slembilukku leitaði á náðir almennings í Fréttablaðinu í október, þegar hún sagði frá undirbúningsvinnu leikritsins Á vísum stað, sem gekk meðal annars út á að fá að róta í geymslum fólks.

Þá upplýsti hún að hópurinn hafði þá þegar fundið gamlan bolla úr eigu Páls Óskars í geymslu ónefndrar konu. „Þetta voru einhverjar 26 geymslur sem við heimsóttum,“ segir Laufey mánuði síðar þegar stutt er í frumsýningu Á vísum stað.

„Þetta er meira eins og að mæta í geymslu hjá einhverjum heldur en að mæta í leikhús og sjá Draum á Jónsmessunótt. Þetta verður interaktívt upplifunarleikhús,“ útskýrir Laufey.

Hún segir að hópurinn hafi haft úr nógu að moða eftir fjársjóðsleitina í síðasta mánuði. „Við fundum ótrúlegustu hluti sem við höfum komið fyrir hérna í leikhúsinu og ætlum núna að kynna niðurstöður okkar fyrir gestum,“ segir hún.

Áhorfendum mun meðal annars gefast kostur á að velja það sem þeim þykir merkilegast á sýningunni. „Svo stefnum við á að opna lítið safn með hlutunum hérna í leikhúsinu,“ segir Laufey. Hún segir ekki einungis veraldlega hluti hafa fundist heldur líka tónlist.

Fundu Friends

„Við fundum ýmsar kassettur. Uppáhaldsspólan okkar var alveg ómerkt,“ segir Laufey en þar mátti heyra ónefnda söngkonu syngja. Smáforritið Shazam, sem greinir tónlist, náði ekki einu sinni að bera kennsl á söngkonuna.

„En það var kannski vegna þess að eini kassettuspilarinn sem við fundum var gamalt útvarp sem spilar allar spólurnar svolítið hægt,“ skýtur Laufey inn í hlæjandi. „Við fundum líka spólu í geymslu hjá mömmu sem er með upptöku af mér að syngja.“

Þá fann hópurinn gamlar upptökur af vinsælustu grínþáttum í heimi, Friends. „Það var einhver sem gat alls ekki sofnað nema með því að hlusta á Friends á tíunda áratugnum og tók hljóðið þess vegna upp.“

Laufey segir Þjóðminjasafnið hafa átt eftirminnilegustu geymsluna. „Þetta var trúarleg upplifun fyrir okkur. Þau farga engu og ætla, eins og hún sagði okkur sérfræðingurinn á safninu, að geyma allt þangað til að maðurinn tortímir sjálfum sér eða þar til það kemur eldgos og eyðileggur geymsluna. Þetta sagði hún við okkur!“

Olnbogabörn herbergja

Laufey segir hópinn hafa lært það í ferlinu að geymslur eru ekkert annað en mjög persónuleg herbergi. „Það er samt ekki talað nógu mikið um þær. Þær eru svo persónulegar og algjör olnbogabörn herbergjanna,“ segir hún.

Leikritið verður fjölbreytt enda litað af heimildasöfnun hópsins. „Við gerðum í raun það sem okkur fannst passa best hverju sinni. Ég verð til dæmis með glærukynningu af því að mér fannst það þjóna forminu og þetta verður alls konar samsuða af atriðum.“

„Við viljum bjóða fólki inn í geymslur landsmanna og sýna því að við erum öll svipuð í þessum geymslumálum. Fólk er oft eitthvað að fela þetta. Við erum öll með flöskupoka í geymslunni og það er bara allt í lagi.“