Sara hafði vistaskipti í sumar. Hún yfirgaf franska stórliðið Lyon sem hún varð í tvígang Evrópumeistari með og gekk í raðir Juventus í Tórínó. Þrátt fyrir þétta leikjadagskrá í jólamánuðinum og að deildin á Ítalíu byrjar að loknu jólafríi þann 5.janúar, ætlar Sara ásamt manni sínum, fótboltakappanum Árna Vilhjálmssyni og Ragnari Frank, eins árs syni þeirra, að bregða sér heim til Íslands og halda jólin hér á landi í faðmi fjölskyldunnar. Síðasti leikur Söru með Juventus fyrir jólin er á móti gamla liðinu hennar, Lyon, í Meistaradeildinni sem fram fer í Frakklandi þann 21. þessa mánaðar.

„Það er krafa frá ömmum og öfum að koma heim um jólin með litla kútinn,“ segir Sara Björk, sem eignaðist sitt fyrsta barn fyrir rúmu ári síðan.

„Það verður gaman að koma heim og hitta fjölskylduna í kringum jólin. Við stoppum í stuttan tíma og ætlum að njóta hans saman,“ segir Sara, sem stefnir á að koma heim 22. desember og halda aftur út til Tórínó á fyrsta degi ársins 2023.

Alltaf heima um jólin

Sara Björk hefur spilað sem atvinnumaður frá árinu 2011. Fyrst í Svíþjóð, síðan í Þýskalandi, þá Frakklandi og nú á Ítalíu.

„Frá því ég fór út í atvinnumennsku hef ég alltaf verið heima á Íslandi um jólin, sem hefur verið æðislegt. Við fengum langt jólafrí þegar ég spilaði í Svíþjóð og í Þýskalandi en eitthvað aðeins minna þegar ég spilaði með Lyon,“ segir Sara Björk, sem í haust hélt áfram að bæta landsleikjametið en leikir hennar með íslenska landsliðinu telja nú 139.

Sara hefur á atvinnumannsferli sínum sankað að sér titlum en hún var fjórum sinnum sænskur meistari, fjórum sinnum þýskur meistari og varð bikarmeistari nokkrum sinnum á báðum stöðum. Þá varð hún bikarmeistari og Evrópumeistari með Lyon. Auk þess hefur Sara sjö sinnum verið valin knattspyrnukona ársins á Íslandi og í tvígang hefur hún orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera útnefnd íþróttamaður ársins. Sannarlega glæsilegur ferill, sem hófst með Haukum í Hafnarfirði.

Spurð að því hvort hún sé jólabarn segir Sara: „Já ég held að ég geti alveg sagt það. Mér finnst jólahátíðin ótrúlega kósí og sérstaklega þegar maður getur verið með allri fjölskyldunni, notið saman og borðað góðan mat. Svo gerir það enn meira gaman að vera komin með lítinn gutta. Bróðir minn er með einn strák sem er fæddur þremur vikum á eftir Ragnari svo það verður mikið fjör þegar við komum saman.“

Erum mikil matarfjölskylda

En hvað skyldi nú vera í matinn hjá Söru á jólunum?

„Við erum mikil matarfjölskylda. Bróðir minn er mikill veiðimaður og hann er búinn að veiða vel fyrir jólahátíðina. Hann verður með gæsir og rjúpur og svo er alltaf humar á boðstólum. Humarinn er mitt uppáhald og það er alltaf passað upp á að hann sé til þegar ég kem heim um jólin. Það má eiginlega segja að við sláum upp hlaðborði af kræsingum og allir éta á sig gat,“ segir Sara Björk.

Sara segist vera lítið fyrir að fara í kirkju eða sækja tónleika í kringum jólahátíðina.

„Við stórfjölskyldan reynum að vera eins mikið saman og hægt er. Við röltum oft niður í bæ eins og á Þorláksmessu og setjumst niður til að fá okkur eitthvað gott að borða. Ég nýt þess best að vera heima með fjölskyldunni, spjalla saman og kíkja kannski út í göngutúra. Ég er ekki oft heima á Íslandi svo þegar ég kem heim þá vil ég hitta fólkið mitt og vera sem mest með því.“