Fyrirmenni og frægðarfólk lét sig ekki vanta á áhorfendapallana á Wimbledon-mótinu í London í vikunni sem leið.

Wimbledon-mótinu í tennis lauk um helgina með sigri Serbans Novak Djokovic, sem vann mótið í sjöunda skipti á ferlinum. Elena Rybakina frá Kasakstan vann kvennamótið deginum áður. Wimbledon er eitt af fjórum Grand slam-tennismótunum, ásamt Áströlsku, Frönsku og Bandarísku opnu mótunum, en Wimbledon-mótið er einstakt að því leyti að það fer fram á grasvelli.

Hér er um að ræða eitt frægasta íþróttamót heims en á sama tíma er mótið sannkallaður yfirstéttarviðburður, enda eru meðlimir bresku konungsfjölskyldunnar fastagestir. Hefðir Wimbledon fela í sér alhvítan klæðaburð fyrir keppendur. Það er einnig hefð að borða jarðarber og rjóma á mótinu.

Ólíkt því sem gerist á öðrum mótum eru auglýsingar í lágmarki. Þær auglýsingar sem sjást eru gjarnan lágstemmdar og frá lúxusfyrirtækjum á borð við Rolex.

Wimbledon-mótið fer fram í Wimbledon-þorpinu svokallaða, sem er stórt úthverfi í suðvesturhluta London. Wimbledon-mótið fór fyrst fram árið 1877 í Enska krikket- og tennisklúbbnum, eins og hann kallaðist í þá daga.n

David Beckham var mættur á svæðið og var ánægður með gott mót.
Mynd/getty
Melinda Gates mætti á mótið í sínu fínasta pússi.
Mynd/getty
Sir Cliff Richard lét sig ekki vanta á mótinu.
Mynd/getty
Enska Bridgerton-stjarnan, leikarinn Regé-Jean Page, ásamt kærustunni, Emily Brown, sem starfar í auglýsingabransanum.
Leikaraparið Rami Malek og Lucy Boynton kynntist við tökur á kvikmyndinni Bohemian Rhapsody.
Mynd/getty
Nýlega einhleypur Tom Cruise fagnaði sextugsafmælinu í síðustu viku.
Hollywood-stjörnuna Kate Winslet má sjá fyrir miðri mynd. Árið 2012 hlaut Winslet heiðursorðu bresku krúnunnar fyrir leiklist.
Mynd/getty