„Þetta er rosalega sérstakt. Það er óhætt að segja það,“ segir Hallfríður Hólmgrímsdóttir, oddviti Miðflokksins í Grindavík, sem orðin er síðasta vígi flokksins í sveitarstjórn eftir að hann fékk 32,45% atkvæða þannig að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll.

„Ætli það séu ekki þessir sterku leiðtogahæfileikar,“ heldur hún áfram og hlær þegar hún er innt eftir skýringum á þessum árangri hennar hjá flokknum sem var við það að þurrkast út á landsvísu í kosningum á laugardaginn.

Hallfríður, sem alltaf er kölluð Didda, segist sultuslök og hún upplifi sig ekkert sérstaka þegar hún er spurð hvernig tilfinning það sé að vera orðin síðasti Miðflokks­móhíkaninn.

Sigmundur ánægður

„Nei, nei. Málið er að við höfum bara staðið okkur ótrúlega vel á síðasta kjörtímabili og vorum bara að uppskera eins og við sáðum til. Ég var náttúrlega eini bæjarfulltrúinn og kannski hef ég bara náð að stimpla mig svona vel inn,“ segir Didda sem er ekki ein lengur þar sem kosningasigurinn skilaði henni og tveimur fulltrúum til í bæjarstjórn.

Diddu hafa að sjálfsögðu borist hamingjuóskir frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins. „Já, já, já, heldur betur. Hann er ægilega ánægður með mig. Væntanlega,“ segir Didda og hlær dátt.

Aðspurð bætir hún svo við að vel geti verið að Grindavík og hið eldheita lið hans þar geti orðið flokknum leiðarljós í nánustu framtíð. „Það er ótrúleg ástríða í liðinu hérna í Grindavík, skal ég segja þér, og kannski næ ég að kenna þeim eitthvað. Það er aldrei að vita,“ segir Didda hlæjandi.

Síðasti móhíkaninn

„Við fórum bara af stað 2018. Náðum manni inn og svo höfum við bara unnið vel á þessu kjörtímabili. Ég er ekki ein. Við erum fjórtán manna hópur sem er sko gríðarsterkur,“ segir Didda og bætir aðspurð við að ekkert slái á kraftinn í henni þótt segja megi að hún sé síðasti Miðflokksmóhíkaninn.

„Nei, nei. Nema síður sé. Við erum auðvitað bara að starfa fyrir samfélagið okkar og höfum áhuga á málefnunum hér,“ segir hún og nefnir sérstaklega málefni eldri borgara sem eru og hafa verið henni hugleikin.

„Þau voru til dæmis ástæðan fyrir því að ég ákvað að slá til. Það var mikið búið að vera að reyna að ná mér inn í pólitík undanfarin kjörtímabil en ég var ekki til í að stökkva á vagninn fyrr en þarna 2018.

Þetta er bara það sem ég brenn fyrir og ég fór í pólitík til þess að laga ákveðin málefni varðandi eldri borgarana. Svo sagði ég alltaf að ég ætlaði bara að vera eitt kjörtímabil en svo varð ég að náttúrlega að taka annað vegna þess að ég var ekki alveg búin að klára þetta. Það er spurning hvort ég verði þarna enn þá eftir sex kjörtímabil að reyna að klára,“ segir Didda og hlær.

Ævintýralegt kjörtímabil

„Sveitarfélagið er sterkt þannig að nú þarf bara aðeins að bæta í og við viljum sjá þetta aðeins vaxa og dafna. Við erum með ákveðnar áherslur og fólki bara leist vel á þetta og trúir því og treystir að ég sé manneskjan til að leiða þessa vinnu.“

Didda segir að sér hafi orðið vel ágengt hingað til og kjörtímabilið og síðasta ár hafi verið ævintýri líkast. „Það var fínasta samstarf á síðasta ári og við náðum bara ótrúlega mörgum stefnumálum okkar í gegn. Þótt ég væri ein í minnihluta. Það segir bara allt sem segja þarf að maður nær sínu fram. Ekkert með einhverjum látum. Það voru alls engin læti sko en ég næ kannski svolítið að lokka þau í lið með mér. Þetta fólk í kringum mig.“ n