Stærsta þorrablót í heimi verður haldið í Kórnum í kvöld, sjálft Kópavogsblótið. Að því standa íþróttafélög í bænum, Breiðablik, HK og Gerpla.

„Þetta eru náttúrulega íþróttafélög sem eru stærst á sínu sviði,“ segir Jón Sigurður Garðarsson, einn skipuleggjenda blótsins og það má heyra á honum að hann er allur að gírast upp fyrir herlegheitin. Búist er við 2.500 gestum á blótið sem er met frá því fyrstu tvö árin sem það var haldið, 2019 og 2020, en þá mættu rúmlega 2.000 manns.

„Bara gólfflöturinn sem þarf að kovera er í kringum 5.000 fermetrar í knatthöll sem lítur þannig út þegar þú kemur inn á kvöldinu að þú ert ekki að labba inn í íþróttahús, þú ert að labba inn á veitingastað, sem er náttúrulega bara geggjað,“ segir Jón sem gírast meira upp í spennu fyrir blótinu eftir því sem líður á spjallið.

Hann eys alla samstarfsaðila lofi. „Svo þurfum við að ræða veislustjórana,“ segir Jóhann en veislustjórarnir eru þeir Auðunn Blöndal og Steindi jr. „Þeir eru náttúrulega svo miklu meira en veislustjórar, þeir eru einfaldlega bara partíhaldarar. Ég hitti þá á fundi í gær eða fyrradag og það kom mér á óvart hvað Steindi er skynsamur. Ég hélt að hann væri algjör sauður en þeir eru alveg með þetta,“ segir Jóhann skellihlæjandi.

„Með öllu þessu og svo undrakokkinum í Café de Múl, hann er ekki að fara að gefa smáfuglunum að borða þarna, hann er að fara að gefa fólki alvöru mat,“ segir Jóhann sem segir iðnaðareldhús hafa verið byggt í Kórnum.

„Við byrjuðum að skipuleggja þetta í september. Að sjálfsögðu er þessu svo ekki lokið fyrir okkur, því svo þarf að taka allt niður og það tekur tíma og svo þurfum við að halda fund og fara yfir hvað betur má fara,“ segir Jón.

„Félögin í Kópavogi eru líka frábær, að þau hafi sameinast. Ekki geta FH og Haukar haldið svona, eða KR og Grótta. Þar er allt logandi í illdeilum og leiðindum en það er ekki að finna það hér. Þetta kemur rosalega mörgum á óvart og bærinn er gríðarlega velviljaður líka,“ segir Jón.

Það hafi farið gríðarlegur tími í að koma öllu saman fyrir kvöldið og ljóst að það verður heimsmet slegið, stærsta þorrablót í heimi. „Ég segi nú líka sko: Ég er uppáhalds tengdasonur tengdamóður minnar. Og hún getur ekkert neitað því, því ég er sá eini,“ segir Jón hlæjandi.

„Það er það sama með þetta. Það er mjög auðvelt að setja heimsmet í því að halda þorrablót, það er bara að vera stærri heldur en Kópavogsblótið. Það er hvergi haldið annars staðar í heiminum, þannig að þetta er bæði Íslands- og heimsmet og við gerum mikið úr því,“ segir Jón hress í bragði.