Hvað þeir gera á þessu tímabili er hulin ráðgáta sem ólíklega verður svarað í nánustu framtíð. Líklegt þykir þó að þeir lifi tvöföldu lífi og dulbúi sig sem almennir borgarar megnið af árinu. Blaðamaður hitti fyrir Skyrgám á förnum vegi óvenju snemma fyrir jólin, þegar hann var í árlegri heilsugöngu í Öskjuhlíðinni. Líkt og sannur blaðasnápur var undirrituð reiðubúin með upptökutækið og vatt sér upp að honum.

Hlakkarðu til jólanna?

„Heldur betur! Spenningurinn byrjar yfirleitt að byggjast upp um páskana og vex svo dag frá degi!“

Skyrgámur var á kraftgöngu í Öskjuhlíðinni þegar blaðamaður hitti á hann.

Hvernig eru jólin hjá jólasveinunum?

„Við erum lúnir á aðfangadag eftir vinnutörnina. En jólahátíðin er yndisleg. Kertasníkir kveikir á kertunum sem börnin gefa honum á aðfangadag, Þvörusleikir er ábyrgur fyrir möndlugjöfinni og svo sér Gáttaþefur um að stilla útvarpsgarminn á jólamessuna kl. 18.00 svo helgiandanum sé hleypt inn.“

Hvað borða jólasveinar á aðfangadagskvöld?

„Við blöndum hefðum. Í forrétt er kæst skata með kampavínslegnum rófum. Í aðalrétt er tvíreykt hangikjöt með uppstúfi og nutella og í eftirrétt er hafragrautur með pepperoní.“

Gefið þið systkinin hvert öðru jólagjafir?

„Já, svo sannarlega. En þú platar mig ekki til að segja þér frá hvað ég gef þeim. Það má alls ekki fréttast að ég sé búin að kaupa AirFryer handa þeim öllum.“

Það má alls ekki fréttast hvað Skyrgámur ætlar að gefa systkinum sínum í jólagjöf.

Hvernig er dagskráin hjá ykkur í desember?

„Jólaböllin sem við mætum á eru óteljandi eins og stjörnurnar á himninum. Svo elskum við Jólaþorpið í Hafnarfirði og erum duglegir að koma þangað í heimsókn. Ég minni áhugasama á heimasíðuna mína www.skyrgamur.is, en ég var á vefnámskeiði og er mjög stoltur af henni!“ Þar má óska eftir því að fá jólasveinana í heimsókn á jólaböll eða aðra viðburði tengda jólunum.

Hvað er að frétta af þér Skyrgámur?

„Mínir persónulegu hagir eru góðir. Ég var að panta ferð til Tene um mánaðamótin janúar-febrúar, svo er ég með eina vörtu á annarri litlu tánni, en annars er ég góður.“

Hvað er að frétta af systkinum þínum, gömlu hjónunum og kettinum?

„Þau ætla að koma með til Tene, gamla settið verður reyndar bara seinni vikuna. Kötturinn var úti í mýri síðast þegar ég sá hann.“

Skyrgámur er með vörtu á litlu tánni en annars er hann góður.

Hvers vegna heitir þú Skyrgámur?

„Ég er sólgnastur okkar bræðra í þennan bráðholla próteingjafa og þetta nafn festist á mér.“

Áttu þér uppáhaldsskyrtegund?

„Það er best að borða þetta hreint eins og Íslendingar gerðu í aldir og drekka mysu með. En ég fæ mér stundum nýtínd bláber með á haustin því þau er svo rík af andoxunarefnum.“

Hvað finnst þér þá um öll þessi brögð sem eru sett út í skyrið nú til dags?

„Ég fagna því bara ef þetta fær fleiri til að borða skyr!“

Færðu ekkert í magann af öllu þessu skyri?

„Ónei, ég með einstaka þarmaflóru, sennilega út af súrsaða matnum sem við borðum.“

Það er alltaf nóg um að vera hjá Skyrgámi fyrir hátíðirnar.

Hefurðu smakkað skyr sem framleitt er í útlöndum? Hvernig finnst þér það?

„Siggi litli sem byrjaði að framleiða Siggi´s skyr í Bandaríkjunum er mjög glúrinn í að gera skyr. Ég kynntist því þegar mamma fór í hnjáskiptaaðgerðina í Minnesota.“

Því miður náði blaðamaður ekki að draga það upp úr Skyrgámi að þessu sinni hvar jólasveinarnir og fjölskylda þeirra hafast við yfir sumartímann því heilsuúrið sem Skyrgámur bar á úlnliðnum byrjaði að gefa frá sér ógurlegt tíst. Til þess að missa ekki púlsinn alveg niður, kvaddi Skyrgámur snögglega, bað að heilsa Ásbirni Þorsteinssyni og hélt áfram kraftgöngunni inn í skógarþykknið.