Bækur
Lifandilífslækur
****
Bergsveinn Birgisson
Útgefandi: Bjartur
Fjöldi síðna: 295

Í nýjustu skáldsögu Bergsveins Birgissonar, Lifandilífslækur, mætir upplýsingarmaður 18. aldar veruleikanum á Ströndum sem kemur verulegu róti á fyrirframgefnar hugmyndir hans. Skaftáreldar hafa geisað á Íslandi og ráðamenn í Kaupmannahöfn velta fyrir sér að flytja vinnufæra Íslendinga til Danmerkur en ákveða síðan að láta meta ástand þjóðarinnar.

Til að kanna stöðuna í Strandasýslu velst hálfíslenskur háskólamaður, Magnús Árelíus, sem telur sig vera boðbera nýrra tíma. Hann ætti að hafa sitthvað fram að færa fáfróðu fólki á Ströndum til upplýsingar. Raunveruleikinn þar passar hins vegar ekki við hugmyndaheim hans.

Bergsveinn hefur hér fundið ágætis söguefni sem býður upp á alls kyns vangaveltur um vísindi, skynsemishyggju, trú og hjátrú, þjóðfélagsstöðu, ást og sitthvað fleira. Svo að segja á hverri síðu er varpað fram hugleiðingum og spurningum og svörin liggja ekki ætíð beint við, það þarf að leita þeirra. Að því leyti er sagan krefjandi fyrir lesandann.

Hún er það líka þegar kemur að stíl. Bergsveinn hefur sannað og sýnt að hann kann ýmislegt fyrir sér í stíl. Söguefnisins vegna er nær óhjákvæmilegt að kansellístíll sé áberandi í verkinu framan af í köflum sem gerast í Kaupmannahöfn og í bréfum sem Magnús Árelíus ritar. Slíkur stíll er ekki auðveldur öllum lesendum, en hverfur síðan og nútímalegri stílbrögð taka við. Stíllinn er þó ætíð þeirrar gerðar að hann heimtar athygli lesandans, enginn flýgur í gegnum lesturinn. Framvindan er nokkuð hæg, sérstaklega í fyrri hluta. En svo koma draugarnir við sögu og verkið rís einna hæst í sögum þeirra af lífi sínu og óblíðum örlögum.

Gamansemi stingur víða upp kollinum, eins og í hugleiðingum um það hversu prýðilegur draugur Magnús Árelíus myndi reynast, með parruk á höfði og kvaðrant í hendi, spyrjandi fólk til vegar. Þáttur drauganna í sögunni gefur henni alveg sérstakan blæ, með sanni má kalla þá senuþjófa. Ástin kemur við sögu og þar stendur Magnús Árelíus frammi fyrir vali sem ögrar öllu því sem hann áður trúði á.  Undir lokin birtist á sviðinu aukapersónan Hallvarður Hallsson, en höfundur hefði mátt smíða mun meir úr honum en gert er.

Margar afbragðs góðar skáldsögur eru á markaði um þessi jól. Lifandilífslækur er í hópi þeirra bestu. Óhætt er svo að slá því fram að enginn rithöfundur eigi þetta árið jafn góðan lokakafla og þann sem kemur frá Bergsveini í þessari bók. Þetta er kraftmikill og snjall kafli með gríðarlega sterka og beitta tengingu við nútímann. Kafli sem getur ekki annað en hreyft verulega við lesandanum.

Niðurstaða: Einstaklega vel skrifuð og afar áhugaverð saga með hreint aldeilis mögnuðum lokakafla.