HEMA stendur fyrir „Historical European Martial Arts“ eða „Western Martial Arts“, sögulega, evrópska bardagalist þar sem skylmingar eru í aðalhlutverki. Þjálfunin byggir að mestu leyti á miðaldaritum eftir þýska skylmingameistarann og sverðasmiðinn Joachim Meyer.

Þýski stíllinn vinsæll

Atli Freyr Guðmundsson er einn af þjálfurunum í Reykjavík HEMA-klúbbnum. „Við æfum miðaldaskylmingar og erum þá aðallega að fara eftir gömlum handritum skylmingameistara frá miðöldum og aðhyllumst einkum þýska stílinn, eins og hann er kallaður. Þá förum við mestmegnis eftir handriti Joachim Meyer frá 1571. En við döðrum við aðra meistara, bara til þess að fylla inn í og til að skoða aðrar hliðar á skylmingum.“

Þó að íslenski hópurinn sé tiltölulega nýr þá er að finna fjölda sams konar hópa úti um allan heim. „Það er frekar stórt og mikið samfélag í kringum þetta. Það eru margar alþjóðlegar keppnir, sú stærsta er væntanlega Swordfish, sem er haldin seint á árinu, í september eða október. Okkur dreymir náttúrulega um að geta sent einhvern á hana en það fá bara þeir sem eru efstir á listum að taka þátt, þeir fá alltaf miðana fyrst. Það þyrfti að senda fleiri á erlend mót, það eru einhverjir okkar sem hafa farið á mót erlendis og verða væntanlega fleiri og fleiri eftir því sem líður á.“

Atli segir mikinn áhuga meðal erlendra félaga á Íslandi. „Við ætluðum að halda fyrsta íslenska mótið í apríl en það gekk ekki út af Covid þannig að við þurftum að fresta því og ætlum að bíða þangað til öllum helstu höftum hefur verið aflétt og halda þá innanlandsmót. En það er rosa mikill áhugi á að koma á mót að utan, við höfum alveg fengið að heyra það. Um leið og við höldum opið mót verður alveg örugglega strax uppselt. Það eru mörg félög úti sem vilja endilega fá að koma.“

Það er mikið um að vera á æfingum félagsins.

Áhersla á skylmingar

Blaðamaður spyr Atla hvort það sé mikill áhugi á sagnfræði innan hópsins. „Já, svona inn á milli þá erum við algjörir nördar í rauninni,“ segir hann og hlær. „Ef þú vilt lesa upprunalegu handritin, eins og til dæmis bara handritið hans Joachim Meyer þar sem hann skrifar á háþýsku, þá þarf svolítið að kunna að lesa í handritin. Það er líka gott að kunna að lesa í myndirnar og velta fyrir sér af hverju hann kennir þetta svona eða hinsegin. Það þarf svolítið að setja sig í spor tímanna, eða tímans, og huga að því að þeir hafa náttúrulega verið að berjast á móti fólki í brynjum.“

Félagið leggur fyrst og fremst áherslu á skylmingar. „Við einbeitum okkur að langsverðum og saber, svona bjúgsverði, og svo einnar handar sverði og skjöldum. Það er það sem við einbeitum okkur helst að, en reynum að taka líka glímu, og hnífa sem tengjast þessu.“

Vel er tekið á móti byrjendum. „Félagið sér byrjendum fyrir plastsverðum, skjöldum og brynjum svo að hægt sé að stunda skylmingarnar. En svo eftir því sem þú ert lengur í félaginu, þá er mjög líklegt að einstaklingar fari að kaupa sér sjálfir sínar eigin brynjur og sverð. Það er ekkert alltof gaman að vera að fara í lánaðar brynjur sem eru kannski orðnar svolítið sveittar og illa lyktandi,“ segir Atli og hlær. „Það eru nokkrir sem eiga sín eigin stálsverð, þau eru að sjálfsögðu ekki beitt. Það væri auðvitað frekar leiðinlegt að meiða liðsfélagana og svo kæmust þeir ekki á æfingu fyrr en eftir nokkra mánuði.“

Öryggið er í fyrirrúmi. „Sverðin eru ekki beitt en annars eru þau alvöru, eða svipar til þeirra sem var verið að nota í þá daga, svona æfingasverð. Þetta heitir fjaðursverð, þar sem því svipar til fjaðrar. Við erum með hjálma, hanska og brynjur og erum alltaf að bæta við í safnið okkar, aðallega brynjum og svona og núna ættum við að eiga nokkuð vel af slíku.“

Félagið stendur fyrir æfingu í dag og gefst áhugasömum þá kostur á að kynna sér fræðin. „Æfingin er klukkan fjögur. Við verðum á Klambratúni og mér skilst að það eigi að vera gott veður, svo það ættu einhverjir að mæta.“