Skurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson birti í dag myndband á Facebook þar sem hann svarar því með kómískum hætti af hverju læknapör á Íslandi séu svona algeng.
Að hans sögn hefur þetta mikið að gera með kúrsinn skurðlæknisfræði hjá Háskóla Íslands en samkvæmt Tómasi er hann „eins og Tinder á sjálfstýringu.“
Hann fer í myndbandinu yfir myndir af öllum nemendum áfangans og segir Tómas að læknaritarinn sinn beri mikla ábyrgð á því hvernig nemendur hafa endað saman.
„Ég var með ritara sem hafði mikinn áhuga á því, þegar námskeiðið var að byrja hjá okkur á haustin, hverjir voru á lausu og hverjir ekki,“ segir Tómas kíminn.
„Þannig hún kom inn til mín og strikaði yfir alla sem voru á föstu og svo var hún að velta fyrir sér hverjir væru flott par. Ég get stoltur sagt það að slatti af samböndum sem hafa orðið til í kúrsinum því okkar tókst að para saman þá sem voru einhleypir í allskonar verkefnavinnu og aðgerðir,“ segir Tómas.
Hann bætir við að lokum að öll þessi sambönd hafa hins vegar ekki enst en að þetta sé skemmtilegur hluti af starfinu. „Þau vita ekki af þessu krakkarnir en hér er allt lagt undir,“ segir Tómas að lokum.
Myndbandið má sjá hér að neðan.