Internal Human er sameiginlegt verk tónskáldsins Lilju Maríu Ásmundsdóttur og dansarans Inês Zinho Pinheiro. Verkið er bæði sviðsverk og myndbandsinnsetning og verður frumsýnt 26. júlí í Hörpu. Á föstudaginn verður það svo einnig gefið út á geisladiski sem mun innihalda aðgang að myndbandsverkinu.

„Við Inês kynntumst fyrst í London 2018 þegar við vorum báðar í meistaranámi og við höfum verið að vinna saman síðan þá,“ segir Lilja María. „Hún flutti aftur til Portúgals og við höfum verið að skiptast á mynd- og hljóðbrotum og hugsunum tengdum innra lífi flytjandans undanfarin tvö ár. Út úr þessum pælingum varð Internal Human til.“

Verkið hverfist í kringum hljóðskúlptúr sem byggir á verki Lilju Maríu frá meistaranáminu og er hannaður út frá hugmyndum um hvers konar hreyfingar myndast náttúrulega þegar leikið er á strengina. Skúlptúrinn tengir þannig saman listform Lilju Maríu og Inêsar undir myndvörpun, þar sem sjá má teikningar og arkitektúr sem tengjast hönnun verksins.

„Bæði ég og Inês erum flytjendur og höfum pælt mikið í því hvað og hvernig það er að koma fram, og hvernig maður undirbýr sig fyrir það,“ útskýrir Lilja María. „Titillinn á verkinu er vísun í vangavelturnar um það hvað er að gerast innra með manni í því ferli.“

„Þegar ég hannaði skúlptúr­inn þá hugsaði ég mikið um hann út frá hreyfingu, þar sem ég var að vinna með Inês.“

Lilja María kynntist dansaranum Inês Zinho árið 2018
Mynd/Aðsend

Skúlptúrinn sem Lilja María leikur á er stór strengjarammi þar sem strengjunum er skipt í tvennt með öðrum streng.

„Það myndast bjöllukenndari hljómur þegar maður spilar á strengina en ef það væri spilað á þá í píanói, til dæmis,“ segir hún. „Þegar ég hannaði skúlptúr­inn þá hugsaði ég mikið um hann út frá hreyfingu, þar sem ég var að vinna með Inês.

Upphaflega hugsaði ég þetta mikið út frá píanóramma, en svo reyndi ég að leggja upp með að finna hljóðheim sem yrði einkennandi fyrir skúlptúrinn og kanna fjölbreyttar hreyfingar sem Inês gæti þróað út frá sjónarhorni dansarans.“