Ís­lensku glæpa­sagna­verð­launin Blóð­dropinn og Ís­lensku bók­mennta­verð­launin voru veitt af for­seta Ís­lands, Guðna Th. Jóhannes­syni, í kvöld við há­tíð­lega at­höfn á Bessa­stöðum.

Glæpa­sagna­höfundurinn Skúli Sigurðs­son hlaut Blóð­dropann 2022 fyrir bókina Stóri bróðir. Um er að ræða fyrstu bók Skúla og í þakkar­ræðu sinni sagði hann þetta vera ó­metan­lega viður­kenningu.

„Ég þakka kær­lega þennan heiður. Að fá þessi verð­laun er ó­metan­leg viður­kenning fyrir höfund sem er að gefa út sitt fyrsta verk, ekki síst vegna þess hve öflug sam­keppnin var í þetta sinn. Það er eins gott að eitt­hvað verði varið í næstu bók. Bækur eru svo­lítið eins og börn; það þarf heilt þorp til að ala þær upp. Og koma þeim út,“ sagði Skúli.

Bækur eru svo­lítið eins og börn; það þarf heilt þorp til að ala þær upp.

-Skúli Sigurðsson

Stóri bróðir er fyrsta bók Skúla Sigurðssonar.
Mynd/Samsett

Um­sögn loka­dóm­nefndar:

Stóri bróðir er hagan­lega saman sett saga um of­beldis­glæpi og vand­lega undir­byggða hefnd með löngum að­draganda sem flett er ofan af eftir því sem dýpt frá­sagnarinnar eykst. Fjöl­breytt per­sónu­sköpun og mark­viss notkun ó­líkra sjónar­horna eykur bæði á spennuna og skýrir hvernig hægt er að rétt­læta ó­hæfu­verk fyrir sjálfum sér (og jafn­vel láta þau yfir sig ganga án þess að segja frá þeim). Um leið verða knýjandi innri á­stæður hefndarinnar trú­verðugar. Vel er haldið utan um hina mörgu og saman fléttuðu sögu­þræði í bland við breiða sam­fé­lags­lýsingu og af­hjúpun á stofnana­tengdu of­beldi gagn­vart drengjum – sem á stóran þátt í ó­hugnaðinum og á­hrifa­mætti sögunnar.

Eftir­farandi höfundar voru til­nefndir til Ís­lensku glæpa­sagna­verð­launanna Blóð­dropans:

Eva Björg Ægis­dóttir: Strákar sem meiða, útg. Drápa
Lilja Sigurðar­dóttir: Drep­s­vart hraun, útg. JPV út­gáfa
Ragnar Jónas­son og Katrín Jakobs­dóttir: Reykja­vík glæpa­saga, útg. Ver­öld
Skúli Sigurðs­son: Stóri bróðir, útg. Drápa
Stefán Máni: Hungur, útg. Sögur út­gáfa

Dóm­nefnd fyrir til­nefningar skipuðu: Sig­ríður Kristjáns­dóttir, for­maður dóm­nefndar, Ás­laug Óttars­dóttir og Einar Ey­steins­son.