Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropinn og Íslensku bókmenntaverðlaunin voru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, í kvöld við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Glæpasagnahöfundurinn Skúli Sigurðsson hlaut Blóðdropann 2022 fyrir bókina Stóri bróðir. Um er að ræða fyrstu bók Skúla og í þakkarræðu sinni sagði hann þetta vera ómetanlega viðurkenningu.
„Ég þakka kærlega þennan heiður. Að fá þessi verðlaun er ómetanleg viðurkenning fyrir höfund sem er að gefa út sitt fyrsta verk, ekki síst vegna þess hve öflug samkeppnin var í þetta sinn. Það er eins gott að eitthvað verði varið í næstu bók. Bækur eru svolítið eins og börn; það þarf heilt þorp til að ala þær upp. Og koma þeim út,“ sagði Skúli.
Bækur eru svolítið eins og börn; það þarf heilt þorp til að ala þær upp.
-Skúli Sigurðsson

Umsögn lokadómnefndar:
Stóri bróðir er haganlega saman sett saga um ofbeldisglæpi og vandlega undirbyggða hefnd með löngum aðdraganda sem flett er ofan af eftir því sem dýpt frásagnarinnar eykst. Fjölbreytt persónusköpun og markviss notkun ólíkra sjónarhorna eykur bæði á spennuna og skýrir hvernig hægt er að réttlæta óhæfuverk fyrir sjálfum sér (og jafnvel láta þau yfir sig ganga án þess að segja frá þeim). Um leið verða knýjandi innri ástæður hefndarinnar trúverðugar. Vel er haldið utan um hina mörgu og saman fléttuðu söguþræði í bland við breiða samfélagslýsingu og afhjúpun á stofnanatengdu ofbeldi gagnvart drengjum – sem á stóran þátt í óhugnaðinum og áhrifamætti sögunnar.
Eftirfarandi höfundar voru tilnefndir til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans:
Eva Björg Ægisdóttir: Strákar sem meiða, útg. Drápa
Lilja Sigurðardóttir: Drepsvart hraun, útg. JPV útgáfa
Ragnar Jónasson og Katrín Jakobsdóttir: Reykjavík glæpasaga, útg. Veröld
Skúli Sigurðsson: Stóri bróðir, útg. Drápa
Stefán Máni: Hungur, útg. Sögur útgáfa
Dómnefnd fyrir tilnefningar skipuðu: Sigríður Kristjánsdóttir, formaður dómnefndar, Áslaug Óttarsdóttir og Einar Eysteinsson.