Æfingar á Skugga-Sveini eru í fullum gangi hjá Leikfélagi Akureyrar en verkið verður frumsýnt 14. janúar. Jón Gnarr verður þar í aðalhlutverki útilegumannsins Skugga-Sveins en leikararnir Vilhjálmur Bragason, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Árni Beinteinn og Björgvin Franz láta einnig svo hressilega að sér kveða að ætlast er til þess að þau séu í sínu besta líkamlega formi.

„Við þurfum að vera í svolítið góðu formi, sko,“ segir Þórdís Björk. „Leikstjórinn setti þá kröfu á okkur að við myndum nú aðeins koma okkur í gott form fyrir átökin þannig að við erum að mæta í ræktina tvisvar á dag,“ segir Þórdís og bætir aðspurð við að um átakasýningu sé að ræða.

„Þetta er náttúrlega Skugga-Sveinn og það er verið að leika útilegumenn, fólk sem býr á fjöllum og er öllu vant, þannig að við þurfum bara að setja okkur svolítið í þau spor.“

Hvað nýtilkomnar hnefaleikaæfingar varðar vísar Þórdís síðan allri ábyrgð á Björgvin Franz. „Þetta er eiginlega Björgvin Franz að kenna. Hann dró okkur eiginlega í þetta box og við höfum nú bara gaman af.“

Útrás í hringnum

„Þetta er allt mér að kenna. Ég fékk þessa biluðu hugmynd,“ segir Björgvin Franz hlæjandi. „En þau eru miklu duglegri en ég. Þau fara í ræktina einu sinni til tvisvar á dag fyrir utan þetta box. Ég læt mér alveg bara nægja að fara í jóga og svo þetta. Ég er orðinn svo gamall og kominn af léttasta skeiði ólíkt börnunum sem ég er með,“ heldur Björgvin áfram og hlær.

Björgvin rekur þetta uppátæki til þess að fyrir eitthvað um tuttugu árum hafi eitthvað sem kallaðist „fitness box“ verið vinsælt meðal leikara. „Ég held að hafi svo verið undanfari cross fit eða bootcamp eða hvað þetta heitir nú allt,“ segir Björgvin og heldur því vandlega til haga að boxið sé frábær líkamsrækt.

„Ég hef aldrei verið í eins góðu formi af því box er eitthvað það erfiðasta sem ég hef allavegana gert. Það er ekki það að ég þrái svo mikið að fara að kýla einhvern í hringnum en það er eitthvað bara við hreyfinguna og þessa útrás og svo er þetta svo mikil samhæfing.

Gott hópefli

Síðan er bara gott að hafa eitthvað fyrir stafni hérna fyrir norðan af því að hér erum við náttúrlega fjarri fjölskyldu og öllu. Þannig að það er bara gott að halda sér uppteknum,“ segir Björgvin og Þórdís tekur undir.

„Við erum náttúrlega þrjú af fjórum sem búum í Reykjavík þannig að við höfum svo sem ekki mikið annað að gera hérna heldur en að mæta í ræktina og svo vera að vinna,“ segir hún og hlær.

„Þannig að við sáum okkur bara leik á borði. Svo er þetta líka bara gaman og mikil stemning. Gott hópefli að vera alltaf að djöflast saman. Nema náttúrlega þegar við mætumst í hringnum, þá er fjandinn laus,“ segir Þórdís og hlær.

Boxað við helvítin

Persónur Þórdísar og Björgvins, Ásta og Lárensíus sýslumaður, eru bæði mjög áfram um að hafa hendur í hári Skugga-Sveins og gefa ekkert eftir frekar en leikararnir í hringnum.

„Ég leik hana Ástu sem er alveg grjóthörð og vill verða sýslumaður. Það tíðkaðist kannski ekki á þessum tíma að kona myndi vilja sækja í svoleiðis starf en hún reynir að synda á móti straumnum. Hún er svolítill nagli og vill drepa útilegumennina og svona. Þá passar hrikalega vel að hún sé bara svolítið að boxa þarna við helvítin.“

Björgvin bendir á að í hans hlutverki sé búið að sameina tvær persónur, fyrrnefndan Lárensíus og Sigurð í Dal. „Þeir áttu báðir sameiginlegt að vilja klófesta Skugga-Svein þannig að ég er að reyna að klófesta Jón Gnarr út allt leikritið.“

Björgvin bætir hlæjandi við að þau hafi heldur ekki enn náð Jóni í hringinn en það muni koma að því. „Við drögum hann einhvern tímann.“