Kvik­mynda­gerðar­maðurinn Gísli Darri Hall­dórs­son er til­nefndur til Óskars­verð­launa fyrir stutt-teikni­myndina Já-fólkið á­samt Arnari Gunnars­syni. Hann er nú staddur í Los Angeles þar sem hann af­plánar fimm daga sótt­kví til að geta komist á verð­launa­af­hendinguna næst­komandi sunnu­dag.

„Ég er bara í sótt­kví núna á hóteli í LA. Ég fer á at­höfnina og er bara mjög spenntur. Þetta er svo­lítið skrýtið að vera bara að bíða upp á hóteli. En ég er í við­tölum þannig það er nóg að gera þar,“ segir Gísli.

Verð­launa­af­hendingin verður með tölu­vert frá­brugðnu sniði heldur en fyrri ár en þegar Óskarinn var haldinn síðast, í febrúar 2020, var kóróna­veiran enn ekki búin að koll­varpa dag­legu lífi heims­byggðarinnar.

„Ég er búinn að taka mitt eigið CO­VID próf, það var á­huga­vert. Akademían skikkar mann í þrjú CO­VID próf og svo er eitt sam­dægurs,“ segir Gísli.

Þeir sem eru til­nefndir fá að mæta á at­höfnina, sem haldin verður í lestar­stöðinni Union Station, á­samt einum gesti. Kvik­mynda­leik­stjórinn Ste­ven Soder­bergh er fram­leiðandi há­tíðarinnar 2021 og hefur að sögn lagt upp með að láta út­sendinguna líta út eins og bíó­mynd. Enginn kynnir verður á há­tíðinni eins og síðustu ár en þess í stað munu ýmsar þekktar kvik­mynda­stjörnur skiptast á að veita verð­laun, þar á meðal Har­ri­son Ford, Brad Pitt, Reese Wit­her­spoon, René­e Zellweger og Zenda­ya.

Hluta verð­launa­af­hendingarinnar verður streymt frá Dolby leik­húsinu en Gísli segist ekki vera viss um hvaða partur það verði.

„Af því mig langar til að hitta Har­ri­son Ford þá óttast ég að hann verði í Dolby, uppi á sviði, og við hin til­nefndu verðum á Union Station,“ segir Gísli.

Union Station lestarstöðin í Los Angeles þar sem Óskarsverðlaunahátíðin fer fram næstkomandi sunnudag.
Fréttablaðið/Getty

Með hörku­góða væntinga­stjórnun

Að­spurður um hvort hann sé sigur­strang­legur segist Gísli vera við öllu búinn.

„Ég held að allt geti gerst, sér­stak­lega í þessum flokki. Það er ein mynd sem hefur fengið mesta um­fjöllun og virðist yfir­leitt vera spáð sigri, Net­flix-myndin If Anyt­hing Happens I Love You,“ segir Gísli en fjöl­miðlar á borð við New York Times og Vanity Fair spá þeirri mynd sigri. Gísli lætur það þó ekki á sig fá enda segist hann hafa verið með góða væntinga­stjórnun í gegnum allt ferlið.

„Ég er svona frekar chillaður. Ég hef reyndar bara alveg frá því að myndin varð gjald­geng og short­listuð og til­nefnd verið með alveg hörku­góða væntinga­stjórnun þannig þetta kom mér alltaf á ó­vart,“ segir Gísli.

Hann tekur þó undir að það að vera til­nefndur til Óskars­verð­launa sé risa­stórt skref út af fyrir sig.

„Ég er bara drullu­sáttur með að vera til­nefndur. Maður finnur líka bara hvað myndin hefur fengið mikinn á­huga og hvað ég hef fengið mikinn á­huga. New Yor­ker hefur tekið svo­lítið upp á sína arma að breiða út þessa mynd og verið mjög öflugir í að styðja við hana sem er bara ó­trú­lega skemmti­legt,“ segir Gísli en tíma­ritið birti til að mynda um­fjöllun um Já-fólkið í mars síðast­liðnum.

Ég er svona frekar chillaður. Ég hef reyndar bara alveg frá því að myndin varð gjald­geng og short­listuð og til­nefnd verið með alveg hörku­góða væntinga­stjórnun þannig þetta kom mér alltaf á ó­vart.

Fjöl­mörg tæki­færi innan teikni­mynda­geirans

Gísli er bú­settur í Reykja­vík en hann vinnur í fjar­vinnu fyrir teikni­mynda-fram­leiðslu­fyrir­tækið Blue Zoo sem er stað­sett í London. Á meðal verk­efna hans þar hafa verið að teikna fyrir Paddington sjón­varps­þættina og nokkra Net­flix þætti. Hann segir já­kvæðu á­hrifin við CO­VID hafa verið þau að fram­leiðslu­fyrir­tæki séu nú byrjað að bjóða starfs­fólki sínu upp á fjar­vinnu og sum sjái fyrir að halda því fyrir­komu­lagi á­fram jafn­vel eftir að CO­VID lýkur. Hann segir til­nefninguna hafa skipt sköpum fyrir feril sinn og gert það að verkum að hann geti núna ein­beitt sér meira að því að þróa sínar eigin hug­myndir.

„Það er alveg það mikill á­hugi og það mikið af fundum fram undan að ég vonast til þess að geta fært mig úr animation hlut­verkinu og yfir í leik­stjóra eða höfunda hlut­verk. Það eru nokkur svo­leiðis hlut­verk innan animation, bæði sem skapari ein­hvers svona kon­septs og leik­stjóri. Þannig já ég vonast til þess að geta fært mig yfir á þann stað í krafti til­nefningarinnar,“ segir Gísli.

Hann segir mörg tæki­færi hafa myndast innan teikni­mynda­geirans í kjöl­far heims­far­aldursins og vonast til þess að fleiri ís­lenskum kvik­mynda­gerðar­mönnum muni gefast kostur á því að vinna við teikni­mynda­gerð í fullu starfi.

„Ég veit að það er mikið af ungum Ís­lendingum sem hafa á­huga á animation, og þetta er bara svona í fyrsta skipti sem ég get sagt já, þú gætir hugsan­lega unnið við þetta á Ís­landi. Af því það eru mörg stúdíó sem eru farin að hallast að því að halda þessu bara á­fram, þó að CO­VID fari,“ segir Gísli að lokum.

Óskars­verð­launin verða sýnd í beinni út­sendingu á RÚV næst­komandi sunnu­dag en Ís­lands­tengingin þetta árið er sér­stak­lega sterk. Meðal skemmti­at­riða há­tíðarinnar verður söng­at­riði sem var tekið upp á Húsa­vík þar sem sænska söng­konan Molly Sandén flytur lagið Husa­vik – My Ho­met­own á­samt þing­eyskum stúlkna­kór en lagið er til­nefnt til Óskars­verð­launa í flokknum besta upp­runa­lega lagið.