Uppistandshópurinn VHS, sem samanstendur af þeim Vilhelm Neto, Hákoni Erni Helgasyni og Stefáni Ingvari Vigfússyni, fer á leikferðalag um landið með sýninguna Endurmenntun.

Vilhelm er einn vinsælasti grínisti landsins, hann sló í gegn fyrir sketsa sína á instagram, en á þeim tíma var hann í leiklistarnámi í Kaupmannahöfn.

Stefán Ingvar er sviðshöfundur, dagskrárgerðarmaður og grínist sem hefur meðal annars framleitt þætti og pistla fyrir Rás eitt og Rás tvö, sýningar í Borgarleikhúsinu og leikstýrt áhugafélögum.

Hákon er sviðshöfundanemi og spunaleikari í Improv Ísland. Hann ætlar að eigin sögn að skrópa í skólanum til þess að komast með á leikferðalagið.

Endurmenntun var frumsýnd í Tjarnarbíó 28. september fyrir troðfullu húsi og verður endurflutt á þremur stöðum, Græna hattinum á Akureyri, Frystiklefanum á Rifi og Kex hostel.

„Það voru svo margir sem náðu ekki miða að það var augljóst að við þurftum að endurtaka leikinn,” segir Stefán Ingvar.

„Mig langaði að fara norður á Akureyri með sýninguna, þannig að ég spurði Instagram fylgjendur mína hvort það væri ekki stemming fyrir því og fékk alveg rosalega mikil og jákvæð viðbrögð þannig að við ákváðum að slá til,” bætir Vilhelm við.

„Síðan er miklu svalara að hafa þrjú venjú á plaggatinu en tvö og Frystiklefinn á Rifi er einn besti staður til landsins, þannig að við ákváðum að bæta því við,” segir Stefán.

Þeir sjá fram á að sýningin lifi eitthvað inn í næsta ár.

„Miðasala fer alveg fáránlega fljótt af stað, þannig við erum að reyna að finna okkur dagsetningar snemma á næsta ári til þess að sýna hana aftur,“ segir Vilhelm. Hópurinn undirbýr nú nýja sýningu og er frumsýning í vor. Annars er VHS hópurinn þéttbókaður næstu vikur að sögn Stefáns.

„Við erum að taka að okkur uppistand á jólahlaðborðum og öðru eins. Síðan erum að plotta aðeins um miðjan desember,“ segir Stefán, en Vilhelm þaggar niður í honum og lítur flóttalega í kringum sig: „Við erum ekkert tilbúnir að tilkynna þetta strax!“

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á Facebook síðu VHS.

Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir