Þetta er sérstakt ástand út af kórónaveirunni. Það þurfa allir að vera þolinmóðir og það mega ekki of margir vera inni á verkstæðinu í einu. Það er að mörgu að huga fyrir okkur, til dæmis að eiga nóg af spritti. Við förum eftir öllum sóttvarnareglum enda brýn ástæða til. Viðskiptavinir okkar hafa verið duglegir að sýna þolinmæði vegna ástandsins sem hefur skapast vegna veirunnar. Margir ökumenn hafa verið snemma á ferðinni til að forðast biðraðir. Það hefur verið nokkuð mikið að gera síðustu daga, allt frá því þegar fyrsti snjórinn kom í Esjuna, þann 20. september. Það er merki þess að veturinn sé að koma,“ segir Sturla og bætir við að hann fylgist vel með veðurspánni, enda fylgi það starfinu því það séu miklir álagstímar á hjólbarðaverkstæði þegar veður skipast fljótt í lofti og þá sérstaklega á haustin. Þá þurfi að kalla út aukamannskap oft með litlum fyrirvara. „Ég verð alltaf stressaður þegar nálgast frostmark. Ég var að borða kvöldmatinn um daginn og það kom haglél og þá svaf ég ekkert um nóttina því ég var að undirbúa allan hamaganginn á hjólbarðaverkstæðinu daginn eftir í huganum,“ segir hann og brosir.

Góðir hjólbarðar auka öryggi

Sturla segir að góðir hjólbarðar auki öryggi bílsins til muna, hvort sem það er vetur eða sumar. Hann segir að um 40% ökumanna séu á nagladekkjum yfir vetrartímann en um 60% á ónegldum vetrardekkjum.

„Við höfum séð mikið af harðskelja- og harðkornadekkjum á undanförnum árum. Þau hafa verið að koma inn í staðinn fyrir nagladekkin sem hafa verið á undanhaldi síðustu ár. Nagladekkin hafa reyndar komið svolítið aftur inn síðustu tvo vetur, þar sem það var óvenjuslæmt veður og færð. Það hafði áhrif. Annars eru það þeir sem keyra mikið úti á landi sem velja helst nagladekkin, enda meiri þörf á að vera á þeim þar. Nagladekkin hafa meira grip og nýtast sérlega vel á þeim stöðum þar sem er mikill snjór og lítið rutt. Nagladekk eru auðvitað best við ákveðnar aðstæður eins og þegar ísing myndast, til dæmis svokallað „black ice“ þegar er rigning og það frystir að kvöldi og það myndast lúmsk hálka. Þetta eru kannski nokkrir dagar á ári hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem nagladekkin nýtast betur en önnur dekk.

Rétt mynsturdýpt

Sturla segir það mikilvægt að huga reglulega að dekkjunum og skoða mynsturdýpt, loftþrýsting og almennt ástand þeirra. „Reglugerð segir að mynsturdýpt dekkja verði að vera að minnsta kosti 3 millimetrar yfir veturinn, það er frá 1. nóvember til 14. apríl. Yfir sumartímann á dýptin að vera lágmark 1,5 millimetrar.“

Sturla nefnir að loft í dekkjum þurfi að vera hæfilegt til að aksturseiginleikar bílsins haldist réttir. „Gott er að athuga loftþrýstinginn á dekkjunum reglulega. Réttur loftþrýstingur eykur líftíma dekkjanna. Það þarf að vera sami loftþrýstingur á dekkjum sama áss. Of mikið eða of lítið loft slítur dekkjunum og getur valdið hættu við akstur. Þá er mikilvægt að láta jafnvægisstilla dekkin. Svo er oft ágætt að hreinsa dekkin á veturna. Ef það er búið að vera mikill snjór og hálka er ágætt að nota tjöruhreinsi til að hreinsa tjöruna sem myndast. Þeir sem eru á heilsársdekkjum ættu að láta skipta á milli fram- og afturdekkja með reglulegu millibili svo þeir klári ekki annað hvort parið. Framdekkin eyðast meira á framhjóladrifnum bílum og afturdekkin á afturhjóladrifnum bílum,“ segir Sturla sem hefur staðið vaktina á Gúmmívinnustofunni síðan hann var 18 ára gutti eða í 33 ár. Hann hefur verið eigandi og framkvæmdastjóri Gúmmívinnustofunnar síðastliðin 18 ár. Þrír ættliðir eru búnir að reka Gúmmívinnustofuna, hjólbarðaverkstæðið á höfuðborgarsvæðinu var stofnað árið 1960, en það var Halldór Björnsson, afi konu Sturlu, sem stofnaði fyrirtækið á sínum tíma.