Fyrsta bókin í flokknum, Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins, hreppti Íslensku barnabókaverðlaunin og bók númer tvö, Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf, hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar.

„Það var mjög uppörvandi að hreppa tvenn verðlaun fyrir tvær bækur. Nú vona ég að ég hafi heppnina með mér og fái þrenn verðlaun fyrir þrjár bækur. Verðlaun eru góð en það hefur ekki síður verið gleðilegt að fá bréf frá krökkum sem skrifa að bækurnar um Millu og Guðjón G. Georgsson séu uppáhaldsbækurnar þeirra,“ segir Snæbjörn.

Eins og veruleikinn

Hann segir að í sínum huga sé þetta síðasta bókin í bókaflokknum. „Svo getur vel verið að það breytist. Þegar ég skrifaði fyrstu bókina var ég ekki að hugsa um að skrifa fleiri bækur um þennan söguheim. En svo fann ég að ég kunni svo vel við aðalpersónurnar, Millu og Guðjón, fannst gaman að skrifa um þau og það varð til þess að ég ákvað að bæta við tveimur spennusögum um Millu og Guðjón og þetta litla þorp með öllu sínu góða og sérkennilega fólki.

Þar að auki fékk ég góð viðbrögð frá lesendum og það hvatti mig enn frekar. Fyrir mér eru skriftirnar leikur, ég skemmti mér og ég geri mitt besta til að skemmta þeim sem lesa. Ég vil að sögurnar séu bæði æsispennandi, skondnar og líka áhugaverðar þannig að lesendur fái eitthvað meira út úr lestrinum en bara spennu og skemmtun.“

Snæbjörn segist halda ýmsu opnu í þessari lokabók. „Satt að segja útskýri ég í byrjun bókar af hverju mörg smáatriði eru enn á huldu þegar sögunni lýkur. Milla er sögumaður bókarinnar. Hún er orðin fullorðin þegar hún skráir atburði sem áttu sér stað þegar hún var barn.

Að sjálfsögu man hún ekki alveg hvernig hlutirnir voru og það var líka margt sem hún skildi ekki þegar atburðirnir áttu sé stað. Þetta er eins og veruleikinn, þar skilur maður ekki alltaf af hverju hlutirnir fara eins og þeir fara. Þess vegna er ekki bundinn slaufa á allt í sögunni.“

Leitar að metsölubókum

Snæbjörn stofnaði á sínum tíma bókaforlagið Bjart og hóf einnig bókaútgáfurekstur í Danmörku. Árið 2017 seldi hann forlög sín. Nú er hann í vinnu hjá danska forlaginu Gutkind sem er dótturforlag hins þekkta sænska forlagsrisa Bonnier.

„Bonnier mokar peningum inn í Gutkind í þessum uppbyggingarfasa og ætlar að gera að þriðja stærsta forlagi Danmerkur. Mitt hlutverk er að finna metsölubækur fyrir forlagið. Það er mikill hugur í starfsmönnum Gutkindforlagsins, þeir eru áhugasamir um að koma bókum til fólks og eru góðir í að vekja athygli á útgáfubókum sínum.

Þarna er góður andi, gífurlegur kraftur og þarna eru notaðar alveg nýjar aðferðir til að koma bókum á markaðinn.“

Snæbjörn segist ekki hafa áhyggjur af því að bóklestur muni fara snarminnkandi í nánustu framtíð.

„Lestur hefur satt að segja aukist á síðustu árum. Það hefur bara breyst hvernig lesendur innbyrða sinn bókmenntaskammt. Fólk kaupir ekki bara prentaðar bækur í bókabúðum, það er áskrifendur að streymisveitum, les rafbækur og hlustar á hljóðbækur. Ef fólk hætti að lesa færi það mikils á mis.

Ég er ekki eitt augnablik í vafa um að maður græðir alveg óskaplega mikið á bóklestri, líf mitt er til dæmis svo miklu betra og ríkara vegna þess að ég hef enn næga einbeitingarhæfni og gef mér tíma til að sökkva mér í bóklestur.“