Dagbók úr fangelsi lýsir lífinu innan veggja Litla-Hrauns, mánuðina sem höfundur dvaldi þar á meðal dæmdra þjófa, ofbeldismanna og barnaníðinga.

Það er ekki á hverjum degi sem lesendur geta komið sér inn fyrir háa og þykka veggi eins sögufrægasta fangelsis á Íslandi, en fyrir tilstilli járnsmiðsins og hagfræðingsins Sigurðar Gunnarssonar á Seyðisfirði hefur dyrum þess nú verið lokið upp – og fyrir vikið blasir lífið í tukthúsinu við, í allri sinni raunalegu mynd, þótt samfélagið þar um slóðir geti líka verið fagurt á sinn máta.

Það er bókaforlagið Skrudda sem gefur Dagbók úr fangelsi út, en bókin er byggð á fjórum löngum blaðagreinum sem Sigurður reit á sínum tíma í DV og vöktu athygli, enda dró hann þar ekkert undan í lýsingum sínum á aðstæðum í fangelsinu.

Enginn afsláttur af vaskinum

„Ég hélt dagbók alla mína daga sem ég afplánaði austur á Eyrarbakka,“ segir Sigurður í samtali við blaðið, „en það var gert að beiðni vinar míns sem hvatti mig til skriftanna. Ég sendi honum svo afraksturinn nokkrum sinnum meðan á yfirbótunum stóð,“ bætir hann við, en tukthúsvistin stóð yfir í hálft ár frá vormánuðum 2003 fram í vetrarbyrjun.

Hann sat inni fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti úr sjóðum fyrirtækis sem hann var ábyrgur fyrir. „Og það er enginn afsláttur gefinn af vaskinum, vinur minn,“ segir Sigurður og minnir á að brot af því taginu þýði tukthúsvist „og eru ekki óskilorðsbundin.“

Og þá er bara að mæta á tilsettum tíma á komudeildina á Skólavörðustígnum, sem þá var og hét – og hátta sig frammi fyrir yfirvaldinu.

Mynd/AntonBrink

Keyrði austur með Lalla Johns

„Svo var okkur ekið austur á Litla-Hraun á tilsettum tíma,“ rifjar Sigurður upp, en ferðafélagi hans í þeirri bifreiðinni var enginn annar en Lalli Johns – og sá var fráleitt að fara í fyrsta skipti austur.

„Ætli það nú,“ segir Sigurður en ber Lalla vel söguna. „Í þetta skipti hafði hann verið gripinn fyrir utan Ráðhúsið með tölvu í fanginu, klæddur í jakka eins starfsmannsins – og það er víst ekki samkvæmt lögum,“ rifjar Sigurður upp og kveðst strax við fyrstu kynni hafa líkað vel við Lalla, en hann sé ljúfur karl og viðræðugóður, „og bara alger öðlingur.“

Hann segir bókina lýsa einstaklega sérstakri reynslu. „Þetta er rosalegur heimur og þetta er lokaður heimur,“ segir höfundurinn og leggur þunga í þessi orð sín. „Og líðan fanganna er mjög misjöfn. Flestir eru beygðir og aðrir upplifa mikla niðurlægingu eftir að hafa verið refsað margsinnis – og finnst sem þeir eigi ekki nokkurn rétt,“ segir hann enn fremur.

Klíkan ræður öllu

„En ég náði trúnaði margra fanganna. Þeir voru ekki hræddir við mig, heldur treystu mér fyrir sínum málum. Svo sem einn fársjúkur gamall maður sem átti ekkert lengur heima í fangelsi. Og mörgum þessara manna hjálpaði ég við að skrifa kerfinu bréf, svo sem embættismannakerfinu sem öllu ræður um það hvort þessir menn fá reynslulausn eða ekki. Við þessar bréfaskriftir komst ég að því að embættismönnum eru færð alveg ótrúleg völd hvað réttindi fanga varðar og hvernig þeir skulu fullnusta dóm sinn.“

Hann segir dagana í fangelsi líða með sínum hætti. „Ég var bara í mínum klefa, en fyrir utan hann, á sjálfum ganginum, gat allt gerst, enda voru þar fyrir á fleti sjö perrar sem menn virtust hafa heimild til að berja til óbóta. Öllum öðrum föngum fannst þeir hafa fengið alltof stutta dóma, svo það þurfti að refsa þeim enn frekar,“ rifjar höfundur bókarinnar upp og er reynslunni ríkari.