Leikarinn Bjarni Snæ­björns­son stendur fyrir leik­lestri á sviðs­lista­verki sínu Góðan daginn faggi á Tjarnar­barnum í kvöld en um er að ræða söng­leik byggðan á hans eigin skápa­sögu. „Ég hef haldið dag­bækur og skrifað bréf til vina og ættingja síðan ég var ung­lingur og er að vinna mikið upp úr því efni,“ segir Bjarni í sam­tali við Frétta­blaðið.

Bjarni hefur unnið að skrifum söng­leiksins undan­farin tvö ár, á­samt leik­stjóranum Grétu Kristínu Ó­mars­dóttur, og segir mark­mið verksins vera að skoða hvar for­dómar sam­fé­lagsins leynast í raun og veru. „Ég lenti aldrei í beinum for­dómum heldur ó­beinum, það er í rauninni það sem er svo á­huga­vert í þessu.“

Fjöl­skylda Bjarna tók honum á­vallt opnum örmum og fólk hafi verið meðvitaðra um fordóma þegar hann var að alast upp. „En sam­fé­lagið minnti mann samt á það á hverjum einasta degi að maður er ekki alveg hluti af því.“

Nafla­skoðun í kjöl­far tauga­á­falls

Árið 2018 fékk Bjarni tauga­á­fall og fór í kjöl­farið í mikla nafla­skoðun til að leita að upp­runa þess kvíða og van­líðan sem bjó innra með honum. „Það var sér­stak­lega á­huga­vert finna á­stæður þessa vanda­mála í mínum eigin skrifum, bréfum sem ég hafði skrifað sjálfum mér fyrir mörgum árum.“

Innra með honum mátti finna ein­hvers­konar endur­speglun af for­dómum sam­fé­lagsins gagn­vart honum sjálfum. „Með verkinu langa mig að varpa ljósi á þessa ó­ljósu for­dóma sem lifa enn góðu lífi í dag.“

Bjarni segir það hafa tekið á að vera öðruvísi á uppvaxtarárum sínum.

Feiminn að deila sögu sinni

Bjarni viður­kennir hlægjandi að hann sé nokkuð feimin að deila reynslu sinni með landi og þjóð. „Þetta er náttúru­lega mjög per­sónu­legt en ég trúi því að ber­skjöldun, heiðar­leiki og sann­leikur sé eitt­hvað sem heimurinn þarf í stærri skömmtum. Það er það sem drífur mig á­fram í þessu.“

Góðan daginn faggi fjallar um rann­sóknar­ferli Bjarna á því hvernig saga hans mótaði þann ein­stak­ling sem hann er í dag. „Þetta er eins­konar upp­gjör sem varpar ljósi á reynslu­heim hin­segin fólks, bæði þá og í dag.“

Bjarni segja sögu sína eiga margt skylt við sögu annarra sem líður eins og þau séu öðru­vísi.

„Saga mín er ekkert sér­stak­lega dramatísk eða ýkt eða öðru­vísi eða verri en aðrar hin­segin sögur. Hún er samt eitt­hvað sem ég er viss um að aðrir sem alast upp í sam­fé­lagi sem þeim finnst þeir ekki eiga heima í muni tengja við.“

Bjarni er fastráðinn leikari hjá Þjóðleikhúsinu, hér er hann ásamt Sigríði Eyrúnu Friðriksdóttur leikara.
Fréttablaðið/Stefán

Endur­heimtir orðið Faggi

Orðið faggi, sem fram kemur í titli verksins, hefur lengi verið Bjarna hug­leikið. „Ég veit að þetta er ekki já­kvætt orð í dag og ég er bara að gera það sem saga hin­segin fólks hefur gert; að taka orð sem er nei­kvætt og eigna mér það.“ Þannig vonast hann til að ljá orðinu já­kvæðari merkingu.

„Mér finnst mikil­vægt að minna á það hvað það er ó­geðs­legt að nota orðið faggi sem níð­yrði um hin­segin fólk til að niður­lægja alla.“

Hlátur, grátur og glæ­ný söng­leikja­tón­list

Þar sem verkið er enn í vinnslu er ekki ljóst hve­nær það verður sett upp en kvöld verður söng­leikurinn leik­lesinn á Tjarnar­barnum í Tjarnar­bíó. „Það er hluti af skröpunar­ferlinu að vera með leik­lestra til að prufa efnið á á­horf­endum. Það er gott að koma þessu úr tölvunni og upp á borð.“

Að sögn Bjarna geta á­horf­endur búist við fjöl­breyttri skemmtun í kvöld. „Þetta verður sönn saga með mikið af húmor, stundum sárum sann­leika og glæ­nýrri ís­lenskri söng­leikja­tón­list.“ Frítt er á leik­lesturinn sem hefst klukkan átta í kvöld og ætti engin að láta þetta verk fram hjá sér fara.